Ísafjarðarhöfn fær björgunarvesti að gjöf

Hafnarstjóri tekur við vestunum.
Hafnarstjóri tekur við vestunum.

Slysavarnardeildin Iðunn á Ísafirði og björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal tóku sig saman og afhentu Ísafjarðarhöfn kistu með 10 björgunarvestum laugardaginn 1. júní, daginn fyrir sjómannadag.

Vestin eru fyrst og fremst hugsuð fyrir börn og eru í nokkrum mismunandi stærðum. Kistan er staðsett við vigtarhúsið á smábátahöfninni og geta þau sem nýta höfnina til fiskveiða eða fjöruferða nælt sér í vesti úr kistunni. Gestir á höfninni eru að sjálfsögðu hvattir til að nýta sér þennan öryggisbúnað og ganga vel um hann svo að vestin endist sem lengst og nýtist sem flestum.

Hafnir Ísafjarðarbæjar þakka fyrir höfðinglega gjöf sem mun auka öryggi krakka sem eru á ferð á bryggjunum.

Væntanlegir notendur máta vestin.

Staðsetning vestanna við smábátahöfnina.