Húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar 2024

Bæjarstjórn samþykkti uppfærða húsnæðisáætlun fyrir Ísafjarðarbæ 2024 á 527. fundi sínum þann 1. febrúar.

Smávægilegar breytingar eru á milli ára í helstu þáttum áætlunarinnar og eru þær teknar saman í minnisblaði sem lagt var fram með áætluninni.

Áfram er gert ráð fyrir vexti í íbúafjölda í öllum kjörnum sveitarfélagsins, hvort sem það er í lágspá, miðspá eða háspá. Spá um þróun í atvinnulífinu er í megindráttum sú sama. Spádómur í fyrri áætlun með vöxt Kerecis er til dæmis að raungerast og þrátt fyrir skakkaföll á síðasta ári er ljóst að umsvif fiskeldisfyrirtækja eiga eftir aukast talsvert.

Framboð lóða hefur aukist á Þingeyri með nýju deiliskipulagi við Hlíðargötu.

Í húsnæðisáætlun 2024 er gert ráð fyrir fleiri leikskólaplássum á Ísafirði frá árinu 2027 í samræmi við framkvæmdaáætlun þar sem ráðgert er að fara í stækkun Sólborgar. Lóðaframboð í öðrum kjörnum hefur staðið í stað, en í áætluninni er vísað til endurskoðunar á deiliskipulagi miðbæjarins á Ísafirði þar sem 5-7 fjölbýlishúsalóðir ættu að líta dagsins ljós. Þá er einnig vísað til samkomulags við Olíudreifingu um skil á olíutankalóðunum og að þær lóðir gætu farið til úthlutunar um leið og deiliskipulagið klárast. Í húsnæðisáætluninni kemur fram mat á að mest þörf sé á íbúðum í fjölbýli á Ísafirði.

Í síðustu húsnæðisáætlun voru 40 skráð á biðlista með að fá námsmannaíbúðir. Með opnun nemendagarða Háskólaseturs Vestfjarða er sá biðlisti fyrir bí, og framboð á íbúðarhúsnæði eykst sem því nemur. Sama gildir um nemendagarða Lýðskólans á Flateyri.