Manndýr - barnasýning

Skrá nýjan viðburð


Um páskana verður barna- og þáttökuverkið Manndýr eftir Aud Busson sett upp í Edinborgarhúsinu. Verkið var frumsýnt í Tjarnarbíó í mars 2022 og er nú sett upp á Ísafirði. Tvær sýningar verða í boði, á Skírdag 6. apríl kl. 16:00 og á föstudaginn langa, 7. apríl kl. 11:00. Sýningin hentar vel fyrir börn frá 3 ára aldri og upp úr.

Miðasala á Tix.is.

Manndýr er sýning um hlutverk mannsins út frá sjónarhorni barna. Í Manndýr er gestum boðið inn í heim þar sem hægt er að upplifa með eyrum, augum og höndum, sjálf eða í samvinnu. Við gefum okkur tíma til að spyrja spurninga sem fá svör eru við og dvelja í heimi þar sem börn segja alla söguna.

Í sýningunni er samband barna og fullorðinna skoðað og spurningunni um hlutverk þeirra á jörðinni velt upp.

Þegar maður hugsar út í það, þá er maður bara til af því að maður er til...

Eða til, til að gefa dýrunum?

Til… til að fjölga ormunum?

Eða erum við til fyrir heiminn?

En aftur á móti, þá endist jörðin ekki að eilífu, þannig að ef maður hugsar úti það, þá getur maður ekki bara haldið áfram að fæðast, fæðast og fæðast...

Af hverju er maðurinn til? Af hverju er barn til? Hvað gera þau og til hvers?

Sýningin er á mörkum þess að vera leikverk, innsetning og listasmiðja. Í hljóðmyndinni fléttast samræður barnanna við nýja tónlist eftir Borko. Í rýminu er manndýr að tengja saman þræði úr aldalangri sögu sinni á ný. Gestum boðið inn í heim þar sem hægt er að upplifa með eyrum, augum og höndum, sjálf eða í samvinnu. Við gefum okkur tíma til að spyrja spurninga sem fá svör eru við og dvelja í heimi þar sem börn segja alla söguna.

Hér má nálgast stiklu úr sýningunni.
Hér má sjá fræðslu sem tengist sýningunni.

Aðstandendur:

Sviðshöfundur, listrænn stjórnandi & flytjandi: Aude Busson
Leikmynda- og búningahönnuður & sviðshöfundur: Sigríður Sunna Reynisdóttir
Tónlist & hljóðmynd: Björn Kristjánsson
Heimspeki leiðbeinandi: Marion Herrera
Leikmyndagerð: Steinunn Marta Önnudóttir
Búningagerð: Ólöf Ágústína Stefánsdóttir
Ljósahönnun: Kjartan Darri Kristjánsson
Framkvæmdastjórar: Ingibjörg Huld Haraldsdóttir & Renaud Durville
Raddir barnanna: Nemendur í Landakotsskóla
Söngur: Jelena Ćirić
Básúna: Ingi Garðar Erlendsson

Aude Busson er sviðslistar kona sem hefur áhuga á að skapa sýningar og viðburði sem byggja á þátttöku áhorfenda og þá sérstaklega með samvinnu barna og fullorðinna. Síðasta verk hennar “Ég elska Reykjavík” var fjölskyldugöngsýning og var tilnefnd til Grímuverðlauna.

Sigríður Sunna Reynisdóttir er sviðshöfundur og hönnuður. Hún hefur unnið leikmyndir, búninga og leikbrúður fyrir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, í Tjarnarbíó og víðar síðustu ár, auk þess að framleiða eigin sviðsverk.

Björn Kristjánsson eða Borko er tónlistarmaður og grunnskólakennari. Hann hefur unnið bæði í leikhúsi og í tónlistarheiminum í tæp 20 ár og leitt fjölda tónlistar verkefna með börnum.

Umsögn frá vinum á Laufásborg:

,,Mikið rosalega var gaman að fá að sjá Manndýr. Það var mikil upplifun fyrir unga sem aldna, vakti áhuga allra í hópnum og hélt athyglinni einstaklega vel. Verkið hefur mikla fjölbreytni og breidd hvað varðar tempó og umfang, börnunum þótti forvitnilegt að átta sig á hvað var að gerast í hinu innhverfa upphafi og stórskemmtilegt að taka þátt þegar boðið var upp á það seinna í verkinu. Hvenær er maður maður og hvenær er maður dýr? Samband og skörun þessarra fyrirbæra og hugtaka er skoðað frá fersku sjónarhorni gegnum upptökur af vangaveltum barna, magnþrunginn dans, margvíslega fallega og viðeigandi leikmuni, tónlist og annað efni og útkoman er spennandi og hugvíkkandi heild sem er óhætt að mæla með! Kærar þakkir fyrir okkur!"

- Ómar & Ari.

 

Staðsetning og tími: Bryggjusal, 6. apríl kl. 16 og 7. apríl kl. 11

Er hægt að bæta efnið á síðunni?