Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 50
Dagbók bæjarstjóra dagana 15.–21.desember 2025, í 50. viku í starfi.
Dagbókin er seint á ferð og jafnframt í styttra lagi þennan sunnudaginn.
Vikan var eins og aðrar vikur, í nægu að snúast. Það sem var óvenjulegt þessa viku var að bæjarstjórnarfundurinn, sá síðasti á árinu, var haldinn í félagsheimilinu í Hnífsdal. Vegna framkvæmdanna í Stjórnsýsluhúsinu þá þótti okkur í lófa lagið að halda næstu bæjarstjórnarfundi úti í minni byggðarkjörnunum og þá var tilvalið að byrja í Hnífsdal.
Fyrsti fundur nefndar um framtíðarhúsnæði leik- og grunnskóla í Skutulsfirði var haldinn í vikunni, þar var lagt fram erindisbréf nefndar (sem var svo samþykkt að breyta lítillega í bæjarstjórn). Einnig var lögð fyrir nefndina skýrsla sem Verkís vann um húsnæðisþörf og mögulegar lausnir varðandi stækkun Grunnskólans á Ísafirði (skýrsla sem var gerð síðastliðið sumar). Næsti fundur nefndarinnar verður 14. janúar næstkomandi en þangað til eru starfsmenn nefndarinnar með það verkefni að taka saman upplýsingar varðandi leikskólana í Skutulsfirði, töluleg gögn um fjölda barna, stærð lóðar við grunnskóla og ýmislegt annað sem nefndin óskaði eftir.
Bæjarstjórn var boðið í heimsókn til Arctic Fish, þar sem bæjarfulltrúar fengu kynningu á starfsemi fyrirtækisins. Við fengum að skoða skrifstofur fyrirtækisins sem og nýja og glæsilega aðstöðu þar sem stýring á fóðrun laxins í kvíunum fer fram. Það er jákvætt fyrir bæjarfulltrúa að fá tækifæri til að heimsækja fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu til að fá innsýn í starfsemi þeirra. Takk fyrir okkur.

Starfsfólk Arctic Fish, starfsfólk Vestfjarðastofu og bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar.

Ég og Daníel framkvæmdarstjóri Arctic Fish (Daníel er einnig fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar).
Ég hlustaði á kynningu á skýrslu rannsóknarnefndar um Súðavíkursnjóflóðið. Það var yfirgripsmikil skýrsla sem ég vona að við getum öll dregið mikinn lærdóm af.
Stóru fréttir vikunnar eru að skrifað var undir afsal og fasteignin sem hýsir hjúkrunarheimilið Eyri var formlega afhent nýjum eigendum. Ég hef áður farið ítarlega yfir það mál hér í dagbókinni og einnig í aðsendri grein á BB.
Við undirritun afsals og afhendingu var tekist í hendur.
Það var svolítið verið að jólast í vikunni.
Jólaballsnefnd Kvenfélagsins Ársólar hittist og skreytti jólatréð í Félagsheimilinu en jólaballið fer fram 28. desember. Gott að vera búin að undirbúa það í tíma. Kirkjukórinn æfði fyrir jólamessuna og síðan skelltum við okkur á sameiginlega jólatónleika karlakórsins Ernis og Kvennakórs Ísafjarðar á miðvikudagskvöld.

Ein jólahefðin á Suðureyri er að mála jólamyndir í gluggana í íþróttamiðstöðinni.

Kvenfélagskonur að skreyta jólatré.

Jólatónleikar í Ísafjarðarkirkju.

Svanhildur og Magni, þau eru mjög áberandi í félagslífinu í Ísafjarðarbæ, eru dugleg að mæta á alla mögulega viðburði.
Við hittum syni mína og tengdadóttur um helgina í Reykjavík, fórum í hefðbundinn túr á Jómfrúna og með okkur voru tengdaforeldrar Stefáns míns, þau Vala og Jónas. Við hittum fjölmarga vini og ættingja. Endapunktur helgarinnar voru jólatónleikar í Laugardalshöll „Jólagestir“. Magnaðir tónleikar, ég á eiginlega ekki til neitt orð til að ná utan um þá upplifun.

Hittingur á Jómfrúnni.

Jólagestirnir, þau voru öll svo frábær.

Ein af mér með „gömlum“ bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Gummi tók virkan þátt í tónleikunum í Höllinni, með Karlakórnum Esju. Já, það var mikið stuð.

Skreytingarnar á Jólagestum í Höllinni voru fallegar, þar sem íslenskar stafafurur voru áberandi.

Stjórnstöðin. Hópur sem varð til uppúr þátttöku okkar í wow cyclothoni 2016. Hittumst mjög óreglulega og alltaf gaman.

Í Reykjavíkurferðinni tókum við einn hlaupatúr með Óttari.