Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 48

Á litlu jólunum í Hvestu.
Á litlu jólunum í Hvestu.

Dagbók bæjarstjóra dagana 1.–7. desember 2025, í 48. viku í starfi.

Þessi vika flaug hjá eins og vanalega.

Vinnudagarnir hafa verið langir og árangursríkir.

Eins og alltaf, þá fékk ég nokkrar heimsóknir á skrifstofuna, íbúar sem hafa beðið um fundi en ég reyni að verða við þeim beiðnum eins og við verður komið. Málefnin eru allskonar, allt frá velferðarmálum til sorpmála. Það er gott og gagnlegt að hitta fólk. Ekki hika við að hafa samband og óska eftir fundi.

Þá voru vinnufundir með sviðsstjórum, fundur með Orkubúsmönnum, kynningarfundur um Atvik, skráningarkerfið en það er miðlægt atvikaskráningarkerfi sem m.a. bætir yfirsýn í öryggisstjórnun fyrirtækja og stofnana. Síðan voru fundir um úrgangsmál í úrgangsráði, menningarmál og Edinborgarhús svo fátt eitt sé nefnt.

Stóru fréttir vikunnar eru að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti að ganga til samninga um sölu á Eyri. Um er að ræða fasteignina sjálfa. Hjúkrunarheimilið Eyri verður áfram rekið af ríkinu í gegnum Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Það breytist ekki þó fasteignin sjálf skipti um eigendur. Sama þjónustan verður rekin í fasteigninni og hefur salan ekki áhrif á íbúa á Eyri. Auk þess eru nýir eigendur sérhæfðir í rekstri fasteigna og ætla sér í endurbætur á ytra byrði hússins. Þessi sala þýðir að ráðstöfunarfé bæjarins eykst sem nýta má í aðra innviðauppbyggingu og framkvæmdir til hagsbóta fyrir íbúa og samfélagið. Nánar má fræðast um söluna á í frétt á vef Ísafjarðarbæjar og í grein sem birtist á BB fyrir helgi.

Jólasamverustundirnar voru nokkrar í vikunni. Jólafundur Kvenfélagsins Ársólar var á mánudagskvöld, þar bauð kaffiflokkurinn upp á smörrebröd sem ein úr hópnum snaraði fram. Við bjuggum til ilmkerti, skiptumst á pökkum auk hefðbundinna fundastarfa.


Á jólafundi Kvenfélagsins Ársólar.


Tara les upp fundargerð síðasta fundar.


Allskonar pakkar í pakkaleik.

Það er hefð fyrir því að bæjarstjórn snæði smörrebröd eftir að fjárhagsáætlun hefur verið samþykkt, nú í ár vorum við svo snemma í því að smörrebröd vertíðin á Ísafirði var ekki hafin (20.nóv), þannig að við létum verða af þessu nú í vikunni. Ég fór á bókakynningu á Suðureyri þar sem Elfar Logi og Þröstur Jóhannesson kynntu nýútkomnar bækur sínar.


Ég hlustaði á þessa tvo kappa lesa upp úr bókum sínum í vikunni.

Það má alveg segja að starfsmenn áhaldahúss hafi slegið í gegn á föstudaginn þegar þeir buðu starfsfólki bæjarskrifstofu í hádegismat, það kom okkur skemmtilega á óvart.


Við veisluborðið í áhaldahúsinu.

Á föstudagskvöld þáði ég boð um að mæta á litlu jól í Hvestu. Hvesta er vinnustaður og dagþjónusta fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar er notendum boðið upp á sambærilegt vinnuumhverfi á við aðra og þar er þjónustan tómstundamiðuð allt eftir þörfum og áhuga hvers og eins. Í Hvestu var mikil jólastemming og eftirvænting mikil. Borðað, sungið og skipst á pökkum.


Á litlu jólunum í Hvestu.


Þær voru í svo miklu hátíðarskapi og stuði, aldrei lognmolla, alltaf fjör.


María fékk að prófa gítarinn hans Fjölnis. María er frá Úkraínu og flutti til Íslands í þar síðustu viku og kemur sterk inn í Hvestu, mikill stuðbolti.

Við héldum skötuveislu á laugardaginn fyrir fjölskylduna, ágætt að „létta“ aðeins á Þorláksmessupressunni og flýta þessu um þessar vikur en þá eigum við líka tækifæri á að fá skötu tvisvar í desember.


Skötuveislan með fjölskyldunni var tekin snemma í ár.

Í kvöld fórum við á árlegan jólafund Frímúrara, það er alltaf ákveðinn sjarmi yfir þeim fundi og sannur andi jólanna svífur yfir vötnum.

Eftir þriggja vikna pásu frá hreyfingu vegna langvarandi slappleika, kvefs og hálsbólgu fór ég loksins út að ganga – mikið sem það var gott og endurnærandi!

Við fórum í göngutúr út í Staðardal, þarna er Gölturinn í baksýn.