Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 41
Dagbók bæjarstjóra dagana 13.-19. október 2025, í 41. viku í starfi.
Bæjarráðsfundur vikunnar var í lengra lagi, enda gefur árstíminn tilefni til þess. Það er allt á syngjandi ferð í áætlanagerðinni fyrir fjárhag næsta árs og framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Þá tóku bæjarfulltrúar vinnufund á þriðjudag þar sem farið var yfir framkvæmdaráætlun ársins og verkefnum forgangsraðað. Þeirri vinnu verður lokið í komandi viku en í vikunni þar á eftir verður lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fjárhagsáætlun næsta árs, ásamt framkvæmda- og viðhaldsáætlun.
Ég, ásamt kollegum mínum frá Múlaþingi, Vestmannaeyjum, Grundarfirði og hafnarsamlagi Norðurlands, komum fyrir fund efnahags og viðskipanefndar á þriðjudagsmorugn þar sem við fengum tækifæri til að fylgja eftir umsögnum vegna innviðgjaldsins (á skemmtiferðaskipin).
Mikil aukning hefur verið í komum skemmtiferðaskipa til Íslands undanfarin ár, það hafa flestir tekið eftir því og var til dæmis árið 2024 með yfir 1.209 skipakomur en tæplega 80% komu til hafna á landsbyggðinni. Með tilkomu innviðagjalds sjáum við fram á mikinn samdrátt. Sums staðar er talað um hrun í bókunum. Ef horft til landsins í heild þá er gert ráð fyrir 17% samdrætti í komum árið 2026 og 37% árið 2027, sem gæti leitt til milljarða tekjutaps fyrir ríkissjóð. Landsbyggðin verður verst úti; dæmi um það er Borgarfjörður Eystri sem fer úr 28 komum í eina árið 2027.
Það sem við erum að benda á, er hvað þessi skattheimta geti í raun haft alvarlegar afleiðingar, ekki bara fyrir hafnir landsins heldur einnig tap samfélaganna og fyrirtækja úti á landi sem þjónusta þessi skip. Hér hjá okkur í Ísafjarðarbæ er útlitið þannig að nú á þessu ári komu 195 skip, árið 2026 eru 180 skip bókuð og árið 2027 eru 140 skip bókuð. Miðað við reynsluna þá er það þannig að skipin eru að bóka sig 2-3 ár fram í tímann og því er ljóst að áhrif þessara innviðagjalda eru að hafa áhrif hér.
Við vonum að við náum að snúa þróuninni við, það er verk að vinna en alvarlegast finnst mér er álitshnekkir sem við höfum orðið fyrir vegna þessa ófyrirsjáanleika. Gjaldinu var skellt á, án fyrirvara og án þess að skipafélögin gætu sett þessa nýju skattlagningu inn í verðin hjá sér en þau eru að markaðssetja sínar ferðir með 2-3 ára fyrirvara.
Það hefur verið talsverð umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum undanfarið en við trúum ekki öðru en að við náum að snúa þróuninni við. Við höfum verið spurð um álit samfélaganna á þeim umsvifum sem fylgja komu skemmtiferðaskipa og þá hef ég verið óþreytandi að benda á stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa sem Ísafjarðarbær samþykkti fyrir einu og hálfu ári síðan. Sú stefna kveður til dæmis á um að það er þak á þeim farþegafjölda sem getur komið á einum degi, þá eru ákveðnar aðgerðir eins og lokun gatna sett fram í stefnunni og svo margt fleira.

Á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd þar sem við ræddum innviðagjald á skemmtiferðaskip. Frábært fyrir landsbyggðatúttur að geta tekið svona fundi á Teams, einu sinni var það ekki í boði.
Á miðvikudag stakk ég mér inn á fund hjá skóla-, íþrótta og tómstundanefnd á kynningu frá skíðafélaginu um væntanlegt stórmót sem mun fara fram á Seljalandsdal í febrúar. Þetta er Scandinavian Cup sem er mjög stórt mót og með stórum nöfnum. Það er lyftistöng fyrir samfélagið að fá inn svona stórmót og mikilvægt að við íbúar áttum okkur á mikilvægi þess að fá slík mót í sveitarfélagið okkar.
Ég átti fínan vinnufund með Sigga slökkvilisðstjóra. Þá fundaði ég með björgunarfélagi Ísafjarðar um aðgengi slökkviliðsins að almannavarnarýminu í húsnæði björgunarfélagsins (Guðmundarbúð). Þegar minnst er á slökkvistöðina þá gengur ágætlega að hreinsa lóðina, flokka þann úrgang sem grafinn hefur verið upp. Við fengum skýrslu í vikunni sem segir hvers konar úrgangur þarna er og höfum við fengið leiðbeiningar um meðhöndlun. Þá er verið að hanna og gera kostnaðargreiningar á framkvæmdinni og vona ég að þetta fari allt að skýrast. Það liggur að minnsta kosti á að fá þessar áætlanir svo við séum með raunhæfar tölur inni í framkvæmdaáætluninni.
Marinó frá Kiwanisklúbbnum Básum heimsótti mig í vikunni og sagði mér meðal annars frá því að að næsta ári mun klúbburinn fagna 50 ára afmæli og í tilefni af því verður gefið út blað og boðið til afmælisfagnaðar.
Við áttum góðan fund með Kristáni Frey og Eygló frá Aldrei fór ég suður-hópnum. Við erum að setja okkur í stellingar fyrir næstu hátíð en tíminn er svo fljótur að líða að það verða komnir páskar áður en við vitum af.
Vottunaraðilar heimsóttu mig í vikunni varðandi ACS vottun fyrirtækis hér í bæ, áttum gott spjall þar.
Ég átti prýðilegan fund með stjórn Fiskeldissjóðs þar sem þau voru að kynna hugmyndir um skýrari og einfaldari verklagsreglur. Á fundinum hafði ég tækifæri til að koma með ábendingar um vinnulag sjóðsins. Það er lögð áhersla á að þau verkefni sem sótt er um fjármagn í séu verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun sveitarfélags. Það finnst mér skynsamlegt en eins og núna þegar við erum að leggja lokahönd á framkvæmdaáætlun næsta árs. Það er því ekkert til fyrirstöðu að sækja strax um og sjóðurinn auglýsir en stjórnin ætlar að flýta því, þannig að það liggi fyrr fyrir hvaða verkefni það eru sem fá fjármagn úr sjóðnum. Þá er það mín skoðun að það þarf að byggja upp traust á milli sveitarfélaga og sjóðsins um það að ef verkefni komast ekki á koppinn, vegna ýmissa ástæðna að þá megi færa fjármagnið yfir á önnur verkefni sem eru nú þegar á framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Því raunin er sú að það hefur hamlað okkur að við erum ekki alltaf að fá tilboð í verk eða of há tilboð því það vantar verktaka og því væri stundum gott að geta fært fjármagn á milli verkefna sem eru að ganga vel og eru sannarlega á framkvæmdaáætlun ársins.
Þá fundaði bæjarstjórn á fimmtudaginn, mörg mikilvæg mál frá velferðarnefnd voru afgreidd þar.

Þau hafa sjaldan fengið mynd af sér í dagbókinni. Helga á umhverfis- og eignasviði og Bikki bæjarfulltrúi og Verkís-maður.
Samþykkt var að hækka leigu félagslegra íbúða hjá bænum. Um er að ræða 353 krónu hækkun á fermeter, vissulega mikið eða 20% hækkun. Fasteignir Ísafjarðarbæjar (Fastís) reka 39 félagslegar leiguíbúðir. Á Hlíðarvegi eru 18 íbúðir, í Pollgötu eru 10 íbúðir og í Múlalandi eru 11 íbúðir. Þjónustuíbúðir aldraðra eru 32 talsins, 27 á Hlíf Ísafirði og 5 á Tjörn, Þingeyri.
Það að endurskoða gjaldskrá félagslegra íbúða bænum var gert til að bæta rekstrarstöðu og fjárhagslega sjálfbærni félagsins (Fastís). Ekki var lögð til önnur hækkun á leigu þjónustuíbúða aldraðra en vísitöluhækkun. Við hækkun á leigu þá eykst réttur til húsaleigubóta (almennra) og líka sérstakra húsnæðisbóta til tekjulágra einstaklinga. Þetta þýðir að sameiginlegur réttur til húsnæðisbóta getur verið yfir 100 þúsund krónur á mánuði. Sem sagt: Kerfið er að koma til móts við tekjulága einstaklinga. Bæði ríki (sem ráðstafar almennum húsnæðisbótum) og sveitarfélagið (sem ráðstafa sértækum húsnæðisbótum).
Þá var samþykkt í bæjarstjórn að fara í miklar félagslegar umbætur sem munu gagnast öldruðum sérstaklega sem og öryrkjum. Ákveðið var að auka framlag í styrki til lækkunar á fasteignagjöldum, með þessu erum við að setja okkur í takt við fjölda annarra sveitarfélaga. Þegar við fórum að bera okkur saman við um 20 önnur sveitarfélög kom í ljós að við erum að ekki að veita sömu fyrirgreiðslu til þeirra sem standa höllum fæti. Hjá Ísafjarðarbæ var hámarks afsláttur fasteignagjalda 95 þúsund krónur árið 2016, árið 2017 var hann hækkaður uppí 100 þúsund krónur og hefur verið óbreyttur þar til nú að hann verður hækkaður í 200 þúsund.
Tillagan tryggir einnig að aldraðir sem flytja á hjúkrunarheimili hafa áframhaldandi rétt til þessarar lækkunar í heilt ár eftir flutning en þannig hefur þetta ekki verið.
Þá kom til síðari umræðu breytingar á bæjarmálasamþykkt. Í stuttu máli þá fela breytingarnar í sér heimild embættismanna til að afgreiða mál eins og umsagnir um skemmtanaleyfi og endurnýjun lóðaleigusamninga. Þannig að afgreiðslutími styttist til dæmis á lóðaleigusamningum en hingað til hafa þeir þurft að fá samþykki bæjarstjórnar. Bara þessi eina breyting er til mikilla bóta fyrir íbúa og húseigendur, til dæmis vegna sölu eigna í sveitarfélaginu svo dæmi sé tekið.
Þá var tekin stór ákvörðun þar sem bæjarstjórn samþykki að Ísafjarðarbær fjárfesti í moltustöð og komi sér upp húsnæði og sjái sjálfur um daglegan rekstur. Gera þarf ráð fyrir fjárfestingunni á framkvæmdaáætlun. Þetta hefur verið mikið rætt í bæjarstjórn núna undanfarið en loksins komumst við að þessari niðurstöðu. Þá er verið að undirbúa útboð á sorpi sem klárast á næstu vikum/mánuðum.
Undirbúningsfundur fyrir svæðisskipulagsfund var í lok vikunnar en við ætlum að hittast öll nefndin á staðfundi á morgun og fara yfir tillöguna eins og hún lítur út núna eftir að athugasemdir og umsagnir um hana bárust frá sveitarfélögunum á Vestfjörðum sem og þeim stofnunum og einstaklingum sem sendu inn umsagnir. Við erum á áætlun með þetta mikilvæga verkefni.
Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu. Við erum farin að huga að þessum viðburði þar sem almyrkvinn mun vara hvað lengst á Vestfjörðum. Til að tryggja að íbúar geti notið sólmyrkvans á öruggan hátt hafa sveitarfélög á Vestfjörðum tekið sig saman og pantað 10 þúsund sólmyrkvagleraugu. Gleraugun komu í vikunni og ég fékk að sjálfsögðu að prófa. Takk Diego Ragnar fyrir frumkvæðið og takk öll sveitarfélög á Vestfjörðum að taka þátt í þessu.
Helgin var ljúf og góð. Hlaupatúrar, sjósund og sund. Átti gott vinkonuspjall uppá kaffihúsi, kíktum í sunnudagskaffi til Dodda og Pálínu í Arnardal og heimsóttum grasekkjurnar, mæðgurnar þær Hildi Theódóru og Arnheiði.

Vinkonuhittingur á laugardagskvöldi. Lilja og Jóna Magga, grjótharðar og gegnheilar, Súgfirðingar.

Að skokka út fyrir Spilli, út í Staðardal, er alltaf ljúft.

Það var rosaleg fjara í sjósundinu, þurftum að vaða langt út, var eiginlega hætt að lítast á þetta. Gaman var það og hressandi!

Ég og Hildur Theódóra náðum smá tengingu en svo kom skeifa á þá litlu.