Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 32

Aðalbláberin góðu.
Aðalbláberin góðu.

Dagbók bæjarstjóra dagana 11.-17. ágúst 2025, í 32. viku í starfi.

Skemmtileg vinnuvika að baki. Bæjarráð fundaði að venju á mánudagsmorgni. Þá eru fastanefndir að komast í gang eftir sumarfrí. Þéttir fundir í skipulags- og mannvirkjanefnd sem og skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd. Þá fundaði umhverfis- og framkvæmdanefnd og að lokum fundaði fjallskilanefnd.

Eitt af því sem nefndirnar taka fyrir á þessum tíma eru gjaldskrár, en þá eru þær lagðar fram til umræðu og er umræðu framhaldið á næstu fundum nefndar og svo að endingu fara þær fyrir bæjarstjórn. Þetta tengist vinnu við rekstraráætlun 2026, sem vinna hefst við á fullu núna í september.

Tímalína gjaldskrárvinnu er um það bil svona: Maí-júní: Vinnuskjöl send til sviðsstjóra og starfsmanna nefnda. Ef fyrirhugað er að fara í gagngerar breytingar á ákveðnum gjaldskrám skal sú vinna hefjast. Í ágúst skulu gjaldskrár teknar til fyrri umræðu á fyrstu fundum nefnda eftir sumarleyfi. Í september skal samþykkja gjaldskrár í fastanefndum. Fyrri umræðu skal lokið 5. september. Síðari umræðu í fastanefnd þarf að ljúka fyrir 25. september. Gjaldskrár verða teknar fyrir í bæjarráði 29. september og til fyrri umræðu í bæjarstjórn 30. september. Í október er endanleg gjaldskrá lögð fyrir og samþykkt í síðari umræðu bæjarstjórnar (16. október) en síðari umræðu gjaldskrár þarf að vera lokið í síðasta lagi fyrir 16. október ár hvert.

Eins og flestar vikur í sumar þá var líf og fjör á höfninni, mikið af fólki í bænum. Ég tók rúnt niður á bryggju einn morguninn og hitti ferðaþjóna. Það var gott hljóð í þeim en margir tala um að það vanti upp á salernisaðstöðu á Dynjanda. Þá eru göngin oft mikill flöskuháls og augljóst mál að þetta er ekki að ganga svona. Það þarf að taka upp ljósastýringu í göngunum og helst að opna Breiðadals- og Botnsheiði svo það sé allavega valkostur að keyra þá leið, í það minnsta yfir hásumarið.

Ferðaþjónar og gestir við rútur á Sundabakka.
Á bryggjunni, ferðafólk hittir ferðaþjóna sem keyra með þau í skoðunarferðir um svæðið.

Nú fer að líða að hausti og kindurnar eru farnar að sækja meira niður á láglendið og inn í byggðarkjarnana. Það er ekki skemmtilegt að verða vitni að því að ferfætlingarnir gæði sér á blómum íbúanna. Ég skil pirringinn. Mér verður oft hugsað til þeirrar vinnu sem farið var í á síðasta kjörtímabili, þegar ráðherra skipaði vinnuhóp til að fara yfir fyrirkomulag girðingarmála á landinu. Ríkið og sveitarfélög leggja fleiri hundruð milljónir í nýgirðingar og girðingaviðhald. Mig minnir að árið 2021 hafi það verið um 700 milljónir á ári. Vinnuhópurinn velti því upp hvort það væri ekki hyggilegt að endurskoða kerfið í heild sinni. Breyta fyrirkomulaginu og frekar að veita styrki til búfjáreigenda til að girða af sinn búpening í stað þess að allir aðrir girði sig frá búpeningnum. Svona breyting er stór og yrði aldrei gerð nema með samvinnu fjölmargra aðila. Ég held að þetta geti breytt miklu fyrir strjálbýl svæði. Heimtur á búfé myndi til að mynda lagast, sem þýðir betri afkomu.

Það er alltaf nóg að gera í menningarlífinu hér. Við fórum á skemmtilegan farsa sem Ísleikhúsið setti upp í Edinborgarhúsi Til hamingju, þú ert að eignast Ísfirðing eftir Dagbjörtu Ósk Jóhannsdóttur. Menningarsjóður Ísafjarðarbæjar styrkti þetta verkefni en þarna voru fjölmargir efnilegir leikarar og framleiðsluteymi sem kom að verkinu. Vel gert unga fólk!!!

Leikskrá og svið í bakgrunni.
Frábær, ekta farsi hjá Ísleikhúsinu.

Þá fórum við í spássitúr í Dýrafjörð eftir vinnu á fimmtudag, tókum þar hlaupatúr í kringum Sandafellið, í gegnum skógræktarsvæðið þar. Fórum svo í sund og út að borða á Kex Hostel, sem ég mæli með. Enduðum svo í Kómedíuleikhúsinu þar sem Eyþór Bjarnason var með uppistand sem fjallaði mikið til um hvernig það er að eiga fimm börn og lífið almennt. Bráðskemmtilegt og fyndið.

Eyþór Bjarnason á sviði í Kómedíuleikhúsinu.
Eyþór Bjarna uppistandari.

Á helginni tókum við við lyklum að sumarbústað inni í Mjóafirði, þar með erum við orðin greiðendur fasteigna og sorpgjalda í Súðavíkurhreppi. Þegar ég var ung stúlka þá munaði mjög litlu að foreldrar mínir keyptu jörð í Mjóafirði. Það sem meira er að langamma mín ólst þar upp, þannig að það má segja að ég sé að komast nær rótunum mínum. Þá er gaman að segja frá því að ættir okkar Dúa liggja saman í gegnum Strandirnar og Djúpið. Þetta er gósenland þarna í Mjóafirði, berin stór og falleg, aðalbláber, bláber, krækiber og hrútaber, þétt birkikjarr og ilmreynir á stangli hér og þar og sveppir á hverju strái. Algjör draumur. Stutt að fara og ekki langt í Hörgshlíðarlaug og þá er heldur ekki langt í sund á Reykjanesi eða inní Heydal.


Horft út Mjóafjörðinn.

Dúi og Sigga fyrir utan bústaðinn. Sigga heldur á lyklum.
Ánægð með bústaðinn.

Nærmynd af hrútaberjum sem eru byrjuð að roðna.
Hrútaber. Best er að tína þau eftir miðjan september, þegar haustlitirnir eru orðnir almennilegir, þá er svo auðvelt að finna þau og tína.

Í dag var sannarlega bæjarstjóradagur, hlaupatúr með Örnu Láru um hina ýmsu stíga á Ísafirði og þar var nú ekki töluð vitleysan.

Sigga og Dúi með Örnu Láru á varnargarði fyrir ofan ÍsafjörðSunnudagsskokk okkar Dúa var í þetta sinn með Örnu Láru fyrrum bæjarstjóra og núverandi alþingismanni.

Þá var skundað til kirkju þar sem barnabarn (dóttir Arnheiðar og Tómasar) fékk nafn, þegar hún var skírð Hildur Theódóra. Af því tilefnið var tekin mynd af hinni nýskírðu með gamla og nýja bæjarstjóranum (afa Gísla) og mér (stjúpömmu Siggu).

Sigga með Gísla Halldóri og Hildi Theódóru.
Hildur Theódóra með gamla og nýja bæjarstjóranum.

Sérstakt hrós vikunnar fá nokkrar konur úr Hnífsdal sem hafa tekið sig til og flikkað upp á brunahana þorpsins.

Tvær konur mála brunahana bláan.
Þær eru öflugar þarna í Hnífsdal.