Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 24
Dagbók bæjarstjóra dagana 16.–22. júní 2025, í 24. viku í starfi.
Þetta var mjög menningarleg vika hér í Ísafjarðarbæ.
Menningarvitinn var afhentur á tröppum Ísafjarðarbíós í byrjun vikunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem menningarvitinn er afhendur en þetta er hugmynd sem kom úr menningarmálanefnd.
Þau eru vel að því komin, Dúi og Gróa í bíóinu, að fá viðurkenningu fyrir ómetanlegt starf við að halda bíómenningunni á lofti. Þau sem eru ókunnug hér fyrir vestan reka upp stór augu þegar þau sjá að það hér er rekið bíó en það er nú aldeilis ekki sjálfgefið. Það sem meira er að í haust verður Ísafjarðarbíó 90 ára!

Menningarvitarnir, Gróa og Dúi í bíóinu.
17. júní hátíðarhöld voru hefðbundin að vanda. Við hófum daginn með þátttöku í víðavangshlaupi Stefnis á Suðureyri. Síðan bjó ég mig í peysufötin mín og við tókum þátt í hátíðarhöldum á Ísafirði, við gengum í skrúðgöngu frá Silfurtorgi upp á Eyrartún og enduðum við Safnahúsið en það voru einmitt 100 ár frá vígslu þess þann 17. júní.

Ánægð með okkur eftir víðavangshlaup Stefnis á Suðureyri.

Hjónamynd á 17. júní.

Í tilefni af 100 ára afmælis safnahússins var boðið upp á köku.

Ég og Nanný á 17. júní.
Við nutum þess sem dagurinn hafði uppá að bjóða, eins og myndlistarsýning, tónleikar, kaffihlaðborð, ræðuhöld og allt eins og það á að vera á þjóðhátíðardeginum. Fjallkonan að þessu sinni var Svava Rán Valgeirs- og Þórudóttir (leikskólastjóri á Suðureyri) og ræðumaður hátíðarhaldanna var Gylfi Ólafsson. Svava Rán flutti magnað ljóð eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

Á tónleikum Hljómóra í Blómagarðinum á 17. júní.

Frá myndlistarsýningu í gallerý Úthverfu.

Fastur liður á 17. júní er karamelluregn. Áður var flogið yfir Eyrartúnið á flugvél og karamellum kastað út. Nú er notuð karamellubyssa og Tinna er hér að læra á hana í „fjar“. Kramamellunum er skotið út af svölum Safnahússins.
Við áttum góðan fund með fulltrúum frá skemmtiferðaskipageiranum. Þar fengum við tækifæri til að ræða málefni skemmtiferðaskipaiðnaðarins á Íslandi, með sérstakri áherslu á að tryggja langtímastöðugleika. Stjórnendur alþjóðlegra samtaka skemmtiferðaskipa vilja horfa til þess hvernig hægt er að tryggja að Ísland verði ekki talið áhættusamur áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip, ásamt því að kanna lausnir sem gætu styrkt þennan hluta ferðaþjónustunnar til lengri tíma með viðeigandi stefnumótun.

Eftir fund okkar með aðilum úr skemmtiskipabransanum.

Ég og Siggi frændi sem starfar fyrir Cruise Iceland.
Síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir sumarfrí var núna í vikunni. Ég er reyndar ekki á leið í frí fyrr en kannski í 10 daga undir lok júlí, þegar allt lamast og stjórnsýslan um allt land fer í frí. Fer kannski fyrr heim einhverja daga eða haga vinnunni eftir veðri og vindum.
Í upphafi bæjarstjórnarfundar minnti Steinunn forseti okkur á að nú eru 110 ár frá því að konur, eldri en 40 ára fengu kosningarétt. Það er mikilvægt að halda því á lofti því kosningaréttur er ekki sjálfgefinn og alltaf mikilvægt að minnast þess.
Eftir bæjarstjórnarfundinn örkuðum við bæjarfulltrúar niður í Edinborgarhús þar sem fram fór opinn fundur Kristrúnar forsætisráðherra og Örnu Láru þingkonu. Þar var fullt út úr dyrum. Þar voru málefnanlegar umræður og ýmislegt sem lá fólki á hjarta, einkum sem sneri að atvinnulífinu hér, til dæmis áhyggjur fólks vegna aukinna álaga á atvinnuvegina, eins og til dæmis veiðigjaldið og innviðagjöld á farþega skemmtiferðaskipa.

Á fundi Kristrúnar og Örnu Láru í Edinborgarhúsi, eins og sjá má var vel mætt!
Hins vegar í lok vikunnar bárust gleðifréttir! Atvinnuvegaráðherra hefur ákveðið að endurskoða ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um innviðagjald á skemmtiferðaskip. Í því skyni lagði hún fram minnisblað í ríkisstjórn um lækkun gjaldsins. Þar var einhugur um að endurskoða málið og verður tillaga ráðherra tekin fyrir í ráðherranefnd um ríkisfjármál í næstu viku. Þannig að það léttist heldur brúnin á bæjarstjóranum, ásamt fjölmörgum öðrum!
Tónlistarhátíðin Við Djúpið fór fram í vikunni þar sem ný og gömul tónlist mætast í fjölbreyttri tónleikadagskrá. Það er venjan að þessi hátíð fari fram um sumarsólstöður en viðburðurinn er haldinn ár hvert á Ísafirði. Auk glæsilegra tónlistarviðburða var einnig boðið upp á sumarnámskeið fyrir tónlistarnemendur og tónlistarleikjanámskeið fyrir börn. Ég náði færri viðburðum en ég hafði hug á, en ég sá Hljómóra í Blómagarðinum á 17. júní. Dagskráin var eins og endra nær mjög metnaðarfull og vel sótt af bæjarbúum og öðrum gestum.
Helgin var svo helguð ættingjum mínum sem lögðu leið sína hingað vestur í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli ömmu Ollu. Við áttum saman skemmtilega helgi á Suðureyri, fólk naut þess sem í boði er, það var farið í sund, borðað saman, fórum jafnframt á rúntinn og heimsóttum staði þar sem amma fæddist og ólst upp, í Súðavík og á Flateyri. Enduðum á heljarveislu með skemmtiatriðum og DJ Búi sá svo um stuðið og það var dansað fram eftir kvöldi.

Í kirkjugarðinum í Súðavík fræddust ættarmótsgestir um fortíð ömmu.

Við stoppuðum góða stund í Raggagarði í Súðavík, þar skemmtu allir sér vel, ungir sem aldnir.

Ættarmótsgestum stóð til boða skoðunartúr um fisvinnsluna Íslandssögu. Það var laugardagur og því engin vinnsla í gangi þennan dag. En samt sem áður fróðlegt.

Ættarmótsfólk tók göngutúr um Flateyri, meðal annars upp á útsýnisstaðinn í snjóflóðavarnagarðinum en til þess að komast þangað þarf að fara í gegnum þetta rör.
Sunnudagurinn hefur svo farið í frágang en við skruppum reyndar út í Bolungarvík, tilltum okkur á bekk í minningu Hálfdáns frænda, ætluðum uppá útsýnispall á Bolafjalli en urðum frá að hverfa vegna þoku og roks á fjallinu. Á heimleiðinni kíktum við inn í skipasmíðastöðina í Hnífsdal til Inga Bjössa sem er að smíða skipslíkön. Mæli með innliti þangað.

Við minningarbekkinn í Bolungarvík.

Úr skipasmíðastöðinni í Hnífsdal, þar sem Ingi Bjössi smíðar líkön af skipum.
Þar sem eldri sonur minn, hann Stefán og kærastan hans eru í heimsókn verður soðin ýsa á borðum hér í kvöld. Það er eiginlega hefð að þegar hann mætir þá er „mömmumatur“ á óskalistanum, já hefðin er ýsa.