Ávarp fjallkonu 2025

Fjallkona Ísafjarðarbæjar 2025, Svava Rán Valgeirsdóttir.
Mynd: Haukur Sigurðsson.
Fjallkona Ísafjarðarbæjar 2025, Svava Rán Valgeirsdóttir.
Mynd: Haukur Sigurðsson.

Fjallkona Ísafjarðarbæjar árið 2025 var Súgfirðingurinn Svava Rán Valgeirsdóttir.

Svava flutti eigið ávarp og lauk því með ljóðinu Barn eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá Hælavík.


Kæru þjóðhátíðargestir!

Hvað myndi Fjallkonan segja ef hún hefði rödd og gæti sagt þjóð sinni það sem henni býr í brjósti.

Í mínum huga er Fjallkonan móðir lands og þjóðar. Hún stappar stálinu í þjóð sína þegar á móti blæs, huggar í sorg og gleðst með þjóð sinni þegar vel gengur.

Hún minnir á að við sem hér búum eigum ekki landið, við höfum afnot af því um stund og ber að skila því heilu til næstu kynslóðar.

Hún fagnar mannréttindum sem hafa áunnist og í ár er vert að minnast þess að 110 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.

Hún hvetur okkur einnig til að halda baráttunni áfram og standa með minnihlutahópum sem berjast fyrir sínum réttindum.

Hún fagnar fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð, er auðgar líf og þjóð.

Hún vill að við sýnum mennsku og kærleik í verkum okkar.

Hún veitir öllum börnum skjól og vernd sem til hennar leita, sama hverra þjóða þau eru, öll börn eru hennar börn.

Hún brýnir þjóð sína á 17. júní og flytur ljóð er talar inn í þann tíma sem við lifum hverju sinni.

Svona er Fjallkonan mín og í dag fæ ég að ljá henni rödd mína.

Ég ætla að flytja ljóðið Barn eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá Hælavík.

Barn

Grátur barns –
grátur þess er minn.
Hlátur barns –
hlátur þess er minn.
Hugur þess
hlær í augum mér,
hjarta þess
slær í brjósti mér.

Lítið barn,
daginn út og inn,
órótt barn,
angrar huga minn,
dvelur verk -
brosir bjart og skært,
glepur verk -
grætur þjáð og sært.

Hvaða barn?
Barn af konu fætt,
mannsins barn -
allra manna ætt.
Myrta barn -
móðir þín er ég.
Helsært barn –
huggun þín er ég.

Mannsins barn
fæddi ég sumri og sól,
gleðibarn
grænni jörðu ól,
söngvabarn,
himins heiði nært,
heilla barn,
öllum mönnum kært.

Grimmdin villt
býr þér banaráð,
Ærð og tryllt
óttast þína dáð,
óttast blóð
eldi lífsins gætt,
skelfist ljóð
ljósi sólar glætt.

Líð í blund
barn mitt, óttalaust,
ljúfan blund.
Launað skal þitt traust:
Heimsins frið
heimta ég með þér.
Lífsins grið
ber í brjósti mér.