Dúi og Gróa heiðruð með Menningarvitanum

Bæjarstjóri hefur veitt Steinþóri Friðrikssyni (Dúa) og Gróu Böðvarsdóttur Menningarvitann, sérstaka viðurkenningu Ísafjarðarbæjar fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt starf í þágu menningar. 

Sigríður Júlía bæjarstjóri afhenti þeim Dúa og Gróu Menningarvitann í dag, 16. júní, á tröppum Ísafjarðarbíós, þar sem þau hafa staðið vaktina í nær fjóra áratugi. Þar hafa þau tekið á móti mörgum kynslóðum af Vestfirðingum, alla tíð með bros á vör. Með óbilandi eldmóði og hlýju hafa þau skapað samfélaginu samkomustað þar sem ungir sem aldnir geta notið kvikmyndalistarinnar.

Menningarvitinn er runninn undan rifjum menningarmálanefndar Ísafjarðarbæjar, sem vill með viðurkenningunni varpa ljósi á mikilvæg áhrif Dúa og Gróu á mannlíf og menningu í sveitarfélaginu.