Hátíðarræða á 17. júní 2025
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, flutti hátíðarræðu á þjóðhátíðarsamkomu á Eyrartúni þann 17. júní 2025.
Kæru vinir,
gleðilega hátíð!
Það er gaman að vera kominn hingað út fyrir bæinn, út í sveit, út fyrir ys og þys bæjarlífsins. Það voru allavega rökin fyrir því að sjúkrahúsinu var fundinn staður hér á Eyrartúni.
Spólum nokkur ár aftur í tímann. Saga þessa húss verður ekki sögð nema nefna fyrst Vilmund Jónsson, sem síðar var bæjarfulltrúi, þingmaður og landlæknir. Hann var helsti hvatamaður að byggingu sjúkrahússins á Eyrartúninu og hreyfði því máli strax eftir að hann varð héraðslæknir árið 1917. Árið 1919 hóf bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar undirbúning að byggingu sjúkrahússins. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, teiknaði húsið og skilaði þar að auki metnaðarfullum tillögum að nánasta umhverfi þess.
Sjúkrahúsinu var valinn staður á rólegum og kyrrlátum stað, utan mesta annasvæðis í bænum, en jafnframt varð að gæta þess að aðgangur að því væri greiður. Byggingalóðir voru ekki margar á eyrinni og var Eyrartún prýðilegur kostur.
Sjúkrahúsið var mikil fjárfesting og voru um það deilur í bæjarstjórn vegna þess. Vilmundur þurfti að leita bæði á náðir sýslunnar, ríkisins og lánastofnana og sameina bæjarstjórn bak við þetta verkefni. Þurfti hann meðal annars að sækja eina undirskrift úti á miðju Ísafjarðardjúpi, þar sem sjómaður einn, Kolbeinn í Unaðsdal, var við línudrátt í fiskiróðri.
Sjúkrahúsið var vígt 17. júní 1925 og var talið stærsta og fullkomnasta sjúkrahúsið á landinu á þeim tíma, en Landspítali við Hringbraut reis ekki fyrr en 1930.
Um þetta og margt fleira getiði lesið í nýjasta Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, en þar er grein eftir mig sem fjallar um sögu heilbrigðisþjónustu í þessu heilbrigðisumdæmi frá öndverðu til okkar daga.
⁂
En á sjöunda áratugnum var ljóst að gamla sjúkrahúsið væri of lítið og stæðist ekki kröfur samtímans. Þá var enda liðin nærri hálf öld frá byggingu þess. Síðla árs 1975 var fyrsta skóflustungan að nýju sjúkrahúsi tekin. Nýja sjúkrahúsið átti eftir að verða enn stærra og meira áberandi í bæjarmyndinni.
Starfsemin var flutt úr gamla yfir í nýja sjúkrahúsið í nokkrum skrefum en endanlega 1989. Sama ár og nýja sjúkrahúsið var vígt var var Bæjar- og héraðsbókasafni Ísafjarðar gefið húsið til umráða, en það var ekki nothæft sem slíkt. Ljóst var að ýmsu þurfti að breyta til að húsið gæti sinnt nýju hlutverki en ekki var byrjað að undirbúa það fyrir alvöru fyrr en 1997.
Ákveðið var að færa útlit hússins til upprunalegrar myndar, eftir því sem kostur væri. Þetta sést í fallegu handbragði á ýmsum stöðum, meðal annars í bogadregnum útihurðum hér fyrir aftan mig, sem snúnara er að smíða en halda mætti.
Húsið var svo vígt í nýrri mynd 17. júní 2003 sem safnahús. Hér var þá pláss fyrir bókasafn, héraðsskjalasafn, listasafn og ljósmyndasafn Ísafjarðarbæjar og komu hingað gögn úr ýmsum kitrum og kjöllurum sveitarfélags sem var til þess að gera nýsameinað.
Stigaþrepin og gólfin voru í upphafi lögð marmara og eru enn á sínum stað. Ekki var hróflað við honum þó þótt stigaþrepin næst handriðinu séu orðin slitin eftir óteljandi fótspor genginna kynslóða.
⁂
Og nú er Gamla sjúkrahúsið orðið gamalt fyrir alvöru. Hundrað ára. Ekki lúið heldur endurnært.
Þegar stórafmælið fór að sjást við sjóndeildarhringinn var ljóst að húsið var ekki í standi til að fagna hundrað ára afmælinu með sóma. Bæjarstjórnin sem sat síðasta kjörtímabil hlustaði og setti pening í framkvæmdir sem staðið hafa með litlum hléum síðan.
Byrjað var á að drena kringum húsið, en nokkrar skemmdir höfðu orðið á húsinu vegna mikilla og endurtekinna vatnsflóða.
Nýr dælubrunnur, sprunguviðgerðir og frágangur ýmisskonar tók við utanhúss. Næst var að taka kjallarann í gegn að innan með múrbroti, nýrri steypu og einangrun. Gólfhiti var settur í kjallaragólfið, sparslað og málað. Settur var upp eldhúskrókur, rafmagnið lagfært, húsið málað í heild að utan. Síðast var skipt um öll gler og lauk því bara fyrir nokkrum dögum. Við þetta var bætt ýmsum öðrum verkefnum eins og uppfærslu rafmagns, viðgerð á útitröppum og handriðum, nýjum útiljósum, hjólastólalyftu og fánastöngum. Reiknimeisturum Ísafjarðarbæjar telst til að um 130 milljónir hafi farið í verkið á síðustu árum sem setur þetta ofarlega á lista yfir stærstu framkvæmdir í litla sveitarfélaginu okkar.
Húsið hefur líklega aldrei verið í betra ástandi en það er í dag. Það stendur fullkomlega undir því að teljast bæjarprýði og eitt af fegurstu húsum landsins. Við getum verið stolt af því hvernig til hefur tekist. Við þökkum iðnaðarmönnum fyrir mikla natni og virðingu fyrir húsinu og sögu þess. Sérstakar þakkir fær einnig Theresa Himmer arkítekt sem stýrt hefur endurbótunum í samráði við starfsfólk hússins og náð þar smekklegu jafnvægi milli þess að halda í hið upprunalega en leyfa húsinu samt að breytast bæði í takt við tímann og nýjar þarfir. Nú hefur safnahúsið enn breytt um hlutverk, mest af skjölum og listaverkum eru komin í annað hús og því er nú meira pláss fyrir bókasafnið, ekki bara bækur heldur fjölbreytta starfssemi fyrir hug og hönd.
Og hér í kring er líka orðið svo fínt. Sjómannastyttan sómir sér vel, verið er að setja upp fjölbreyttan leikvöll með aparólu og hoppubelg, og nú bara í síðustu viku var sett upp nýtt söguskilti.
Mér á vinstri hönd er svo bæjarhóllinn á Eyrartúni sem hefur að geyma ókannaðar fornminjar aftur til landnáms.
Og svo er það Kuml, verkið sem Jón Sigurpálsson heitinn gerði til minningar um Ragnar H. Ragnar tónlistarskólastjóra. Alltaf þegar ég veiti verkinu athygli rifjast upp fyrir mér gamla flökkusagan um mennina tvo sem leiddu hvorn annan heim eftir drykkju niðri í bæ. Annar spurði „Hérna, um hvað var þetta listaverk hérna aftur?“ Hinn svaraði að það væri til að heiðra Ragnar í tónlistarskólanum. Sá fyrri sagði þá: „Nú skrýtið, mér finnst þetta ekkert líkjast honum!“
⁂
Og nú ætlum við því að gleðjast saman.
Okkur öllum er boðið upp á afmælisköku og kaffi í tilefni dagsins auk þess sem tækifæri gefst til skoða alla króka og kima hússins eftir gagngerar endurbætur.
Í hinum ýmsu vistaverum verða sýndar gamlar ljósmyndir sem veita innsýn í fyrra hlutverk hússins sem sjúkrahús.
Verk í myndalottói Listasafns Ísafjarðar eru sýnd á gangi og fimm verðlaunaverk dregin út, eitt úr hverjum aldurshópi, auk þess sem þátttökuverðlaun verða afhent.
Í sýningarsal Listasafns Ísafjarðar opnar Elín Hansdóttir sýningu sína, sem hún kallar Book Space.
Safnahúsið er sameiginlegt hús okkar allra í Ísafjarðarbæ. Það er staður þar sem allir eru velkomnir, þar sem kostar ekkert að koma og er öruggt fyrir alla.
Í dag fögnum við sjálfstæði Íslands og Íslendinga og við fögnum hundrað ára afmæli húss sem alla tíð hefur haft það að markmiði að bæta líf okkar hér í faðmi blárra fjalla.
Gleðilega hátíð.