Auglýsing um breytingu á aðalskipulagi vegna ofanflóðavarna við Flateyri

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 1. júní 2023 að auglýsa tillögu að breytingum á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna ofanflóðavarna á Flateyri, skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er að auka öryggi fólks á Flateyri og verja mannvirki með eflingu snjóflóðavarna. Með styrkingum núverandi snjóflóðavarna við Flateyri og Sólbakka er ætlunin að auka öryggi bæjarins og vernda hafnarsvæðið. Einnig er markmiðið að fyrirhuguð mannvirki falli sem best að landslagi og að hugað verði að aðstöðu og tækifærum til útivistar.

Fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér gerð keiluraða ofan núverandi varnargarða, tvo nýja leiðigarða og endurbyggingu þvergarðs. Auk þess er fyrirhugað að dýpka og víkka flóðrás við Skollahvilftargarð. Áætluð efnisþörf vegna framkvæmdanna er rúmlega 300 þús. m3.

Breytingartillagan og umhverfisskýrsla eru aðgengileg í pdf-skjölum hér fyrir neðan en verða einnig til sýnis á bæjarskrifstofunum að Hafnarstræti 1, Ísafirði frá og með föstudeginum 9. júní til föstudagsins 21. júlí 2023 og hjá Skipulagsstofnun við Borgartún 7b í Reykjavík. 

Breytingartillaga — Uppdráttur

Breytingartillaga — Greinargerð

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingartillöguna til og með mánudagsins 24. júlí 2023. Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofur Ísafjarðarbæjar eða á skipulag@isafjordur.is.

f.h. skipulagsfulltrúa

_______________________________

Helga Þuríður Magnúsdóttir

verkefnastjóri á umhverfis- og eignasviði