Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 39
Dagbók bæjarstjóra dagana 29. september – 5. október 2025, í 39. viku í starfi.
Þétt vika að baki. Hún byrjaði að sjálfsögðu á bæjarráðsfundi en svo voru allskonar fundir. Aðalfundur Fastís, vinnufundur um varmadælu/varmaskipti á Torfnesi og undirbúningshópur um stofnun farsældarráðs á Vestfjörðum fundaði.
Þá var heljarinnar viðburður á mánudaginn þegar landlæknir kom á svæðið ásamt nokkrum starfsmönnum frá embætti landlæknis og kynntu þau Lýðheilsuvísana. Lýðheilsuvísar gefa vísbendingar um hver staðan er á lýðheilsu þjóðarinnar en tilgreindir eru ákveðnir þættir sem eru kannaðir. Á fundinum kom fram hversu mikilvægt það er að fólk á vettvangi leggi mat á stöðu lýðheilsu í landinu til að átta sig á hvað gengur vel og hvað gengur síður vel. Þá geta stjórnvöld og fólk á vettvangi notað vísana til að átta sig á hvar er þörf á að bregðast við í samræmi við niðurstöðu sem lýðheilsuvísarnir gefa. Það var virkilega fræðandi og góður fundur.
Það voru nokkrir þættir sem ég staldraði við þegar kynningin átti sér stað sem sneru að minnkandi virkri/hreyfingu fólks á Vestfjörðum. Það virðist vera að fólk sé minna að ganga eða hjóla á milli staða (til dæmis í vinnu). Þá er mun algengara að börn á Vestfjörðum noti snjalltæki fyrir svefn og þá virðist einelti enn þrífast hér. Tæplega 96% barna í 7.-10. bekk upplifa sig örugg heima hjá sér, sem er gott, en mikilvægt er að huga að þeim 4% sem ekki upplifa sig örugg heima hjá sér. Einn mest sláandi lýðheilsuvísirinn sýnir að 13% framhaldsskólanema hafa orðið fyrir nauðgun. Allt eru þetta atriði sem við sem samfélag verðum að horfast í augu við og átta okkur á orsökum og afleiðingum og síðast en ekki síst, bregðast við.
Á þriðjudag opnaði ég SNOW 2025 ráðstefnuna sem fór fram hér fyrir vestan þessa vikuna. Þarna voru mætt um 115 manns, frá 10 þjóðlöndum. Haldin voru 55 erindi á ráðstefnunni og farið í vettvangsferðir til Súðavíkur og Flateyrar. Þetta var mjög tæknileg ráðstefna. Virtir vísindamenn í þessum geira voru meðal þátttakenda og þarna voru einnig mættir söluaðilar að kynna allskonar snjóflóðavarnabúnað.

Snow 2025 fór fram hér vestra í liðinni viku.
Þennan dag kynnti Vegagerðin skýrslu sem þau unnu varðandi innanlandsflugið og þar kom fram að flugleggurinn Reykjavík-Ísafjörður verður boðinn út og mun sá samningur taka gildi 1.september 2026.
Fulltrúar frá Icewater-verkefninu komu vestur, ég átti góðan fund með þeim. Icewater er samstarfsverkefni 23 aðila – stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga – sem styrkt er af LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið miðar að því að draga úr mengun í vatni með fjölbreyttum aðgerðum, svo sem úrbótum í fráveitum, innleiðingu nýrra lausna og aukinni fræðslu, auk þess að tryggja samvinnu og sjálfbærni málaflokksins til framtíðar. Hlutverk Ísafjarðarbæjar í Icewater er að innleiða nauðsynlegar úrbætur í fráveitu á Ísafirði. Við erum einmitt að auglýsa eftir verkefnisstjóra hér í Ísafjarðarbæ sem er ætlað að leiða verkefnið.

Minn gamli vinur, Sæmundur Sveinsson (Runólfssonar) frá Icewater vekefninu, færði mér poka og vatnsbrúsa.
Á þriðjudaginn komu einnig fjórir fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands en þau hafa verið að heimsækja sveitarfélög landsins og fundað með sveitarstjórnum og notendaráðum þeirra varðandi málefni fatlaðra. Nú var komið að okkur. Þetta var vel sóttur og góður fundur. Margt rætt sem viðvíkur bandalaginu. Á þeim rúmu sextíu árum sem liðin eru frá stofnun ÖBÍ hafa þúsundir einstaklinga komið að baráttunni fyrir mannréttindum og viðurkenningunni á því að við erum og verðum allskonar. Á fundinum okkar voru rædd mál sem sneru að aðgengismálum, atvinnumálum, mikilvægi notendaráða, aðgengi að félagslegu húsnæði og margt fleira. Þá bentu þau á aðkomu notendaráða við ákvarðanatöku og umsagnir um ýmis mál, ekki bara velferðarmál, heldur einnig varðandi umhverfis- og skipulagsmál. Í lokin bentu þau á góðan fyrirlestur, sem er aðgengilegur sveitarstjórnarfólki í sveitarfélagaskólanum, um notendaráð.

Fólkið; kjörnir fulltrúar og notendaráð sem fundaði með ÖBÍ á þriðjudaginn.
Þriðjudeginum lauk svo á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var þá í þetta sinn vegna fjármálaráðstefnunnar sem fram fór á fimmtudag og föstudag í Reykjavík.

Guðrún í launadeildinni átti 31 árs starfsafmæli þann 1. október. Traust og ljúf kona.
Á miðvikudag fór ég svo til Reykjavíkur. Þann dag sótti ég þrjá fundi. Aðalfund samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum. Þá var fundur hjá KPMG þar sem sérfræðingar fyrirtækisins sögðu frá verkefnum og kynntu stafrænar lausnir fyrir sveitarfélög. Að lokum mætti ég á ársfund Jöfnunarsjóðs.

Á kynningarfundi hjá KPMG um stafræna framtíð sveitarfélaga.

Á fundi Jöfnunarsjóðs var Arnar Haraldsson með áhugavert erindi og þar komu fram sláandi tölur ....... Hvað er með þennan umsýslukostnað???? Væri ekki í lófa lagið að setja þak, ekki alltaf 10%??
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fór svo fram á fimmtudag og föstudag. Þar voru fjölmörg erindi, pallborð og umræður. Alltaf gaman að hitta fólkið, vini og kunningja sem starfa í sveitarstjórnum víða um land. Erindunum var streymt á netinu og ættu þau að vera aðgengileg á vef Sambandsins.

Við vorum sprækar og fórum út að skokka fyrir setningu fjármálaráðstefnu.
Ef ég ætti að taka út áherslur úr erindum þessa daga þá eru það orðin „fyrirsjáanleiki“ og „innviðaskuld“ sem var meginþema fimmtudagsins. Síðan eru það skilaboð frá föstudeginum, málstofu B (sem ég stýrði): Fjárfestum í börnunum okkar og í umhverfismálum.
Áður en ég flaug svo heim á föstudaginn átti ég góðan fund með Svandísi Svavars þar sem við ræddum um heima og geima, núið og framtíðina.

Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund Sveinsson við hús kvenréttindafélags Íslands. Konur á Íslandi hófu að safna fyrir sérstöku kvennaheimili skömmu eftir að þær fengu kosningarétt, á öðrum áratug síðustu aldar. Það hús heitir Hallveigarstaðir og í litlu herbergi í þessu merkilega húsi átti ég góðan fund með fomanninum mínum, Svandísi Svavarsdóttur.
Á laugardag var svo planið að vera á enn meira útstáelsi og mæta á opið hús seiðaeldisstöðvar Háafells á Nauteyri. Það fór þó ekki þannig. Nýtti daginn þess í stað í að vinna á innviðaskuld heimilisins. Fór svo í verslunarferð í Bónus og kíkti á bókakynningu í Edinborgarhúsi þar sem bókin um Akureyrarveikina var kynnt. Nældi mér í eintak. Var svo stálheppin að fá höfundinn, systur hans og maka þeirra beggja í kvöldkaffi.

Nýjasta bókin í bókasafni heimilisins.

Sara er búin að koma (Instagram) hringnum í haustbúning.

Svarfdælasýslarar og makar kíktu í kvöldkaffi á Eyrargötuna.
Já, þetta var mjög annasöm vika.