Verkefnastjóri veitna (ICEWATER) – Umhverfis- og eignasvið Ísafjarðarbæjar
Ísafjarðarbær auglýsir laust til umsóknar 100% starf verkefnisstjóra á umhverfis- og eignasviði. Starfið felst í verkefnum tengdum vatns- og fráveitumálum sveitarfélagsins, þar sem meginhlutverk starfsmannsins næstu ár verður að leiða ICEWATER verkefnið fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Verkefnið snýr að úrbótum í fráveitukerfi Ísafjarðar og markar mikilvægt skref í átt að bættri vatnsgæðastjórnun.
ICEWATER er samstarfsverkefni 23 aðila – stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga – sem styrkt er af LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið miðar að því að draga úr mengun í vatni með fjölbreyttum aðgerðum, s.s. úrbótum í fráveitum, innleiðingu nýrra lausna og aukinni fræðslu, auk þess að tryggja samvinnu og sjálfbærni málaflokksins til framtíðar.
Hlutverk Ísafjarðarbæjar í ICEWATER er að innleiða nauðsynlegar úrbætur í fráveitu á Ísafirði. Verkefnastjóri mun leiða þá vinnu fyrir hönd sveitarfélagsins og tryggja að framkvæmdin verði farsæl. Samhliða þessu mun viðkomandi sinna öðrum verkefnum sem tengjast veitustofnunum sveitarfélagsins og annarri starfsemi á umhverfis- og eignasviði. Á næstu árum hyggst Ísafjarðarbær jafnframt ráðast í umtalsverðar fjárfestingar í uppbyggingu fráveitu, sem gerir starfið að lykilhlutverki í nýjum og spennandi tímum í veitustarfsemi sveitarfélagsins.
Helstu verkefni:
- Leiða innleiðingu og úrbætur í fráveitukerfum Ísafjarðarbæjar með megináherslu á ICEWATER verkefnið.
- Umsjón og eftirfylgni með undirbúningi, hönnun, valkostagreiningu, innkaupum og framkvæmdum í samstarfi við innri og ytri sérfræðiaðila.
- Eftirfylgni með fjárhagsramma verkefna og trygging hagkvæmrar og skilvirkrar framvindu innan samþykktrar áætlunar.
- Skráning gagna og framvindu í verkefnastjórnunarkerfi samkvæmt kröfum verkefnisins.
- Skýrslugerð til sveitarfélags, stýrihóps og styrkveitanda
- Miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila, bæði innan sveitarfélagsins og utan, og kynning verkefna til íbúa eftir þörfum.
Menntun og hæfni:
- Háskólamenntun sem nýtist í starfi
- Menntun á sviði verkefnastjórnunar er æskileg
- Þekking og reynsla á sviði fráveitu og vatnsmála er æskileg
- Reynsla af rekstri stórra verkefna, t.d. Evrópuverkefna á sviði rannsókna og nýsköpunar, er æskileg
- Góð samstarfshæfni og sveigjanleiki í samskiptum er nauðsynleg
- Skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð
- Reynsla af að starfa í teymi
- Hæfni í miðlun upplýsinga með áhrifaríkum hætti í ræðu og riti
- Þekking á opinberri stjórnsýslu er kostur
- Menntun á sviði náttúruvísinda er kostur
- Gott vald á íslensku og ensku bæði í ræðu og riti
- Góð stafræn hæfni
Launakjör eru skv. kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Axel Rodriguez Överby sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs í gegnum tölvupóst (axelov@isafjordur.is) eða í síma 450-8000.
Umsóknarfrestur er til og með 6. október 2025. Umsóknir, afrit af prófskírteinum, ferilskrá og kynningarbréf skulu sendar til mannauðsstjóra á netfangið baldurjo@isafjordur.is. Umsókn getur gilt í 6 mánuði.
Við hvetjum áhugasöm, óháð kyni til að sækja um starfið. Vakin er athygli á markmiði mannréttindastefnu Ísafjarðarbæjar að jafna kynjaskiptingu innan starfsgreina og að vinnustaðir endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.
-Við þjónum með gleði til gagns-