Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1157. fundur 14. júní 2021 kl. 08:05 - 09:40 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Kristjánsson varamaður
  • Daníel Jakobsson formaður
  • Arna Lára Jónsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Birgir Gunnarsson bæjarstjóri
  • Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Dagskrá og verkefni bæjarráðs - 2019050047

Farið yfir verkefnalista bæjarráðs.
Verkefnalisti yfirfarinn.

2.Samstarfshópur um þjóðgarð á Vestfjörðum - 2019100101

Lögð fram til kynningar lokaskýrsla starfshóps um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum, dags. í júní 2021, svo og viðauki II um skilmála þjóðgarðsins.

Jafnframt lögð fram til kynningar uppfærð drög að viljayfirlýsingu vegna þjóðgarðs á Vestfjörðum, með viðbótartexta varðandi raforkuöryggi.

Að lokum lagt fram til kynningar minnisblað Elíasar Jónatanssonar, orkubússtjóra, og Sölva R. Sólbergssonar, framkvæmdastjóra orkusviðs OV, dags. 9. júní 2021, varðandi uppbyggingu raforkukerfisins á Vestfjörðum vestanverðum.
Bæjarráð frestar málinu til næsta fundar bæjarráðs.

3.Umhverfis- og eignasvið - innri málefni - 2021060048

Lagt fram minnisblað Axels R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dags. 11. júní 2021, vegna málastöðu á umhverfis- og eignasviði, ásamt fylgigögnum unnin af mannauðsstjóra og skjalastjóra.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Gestir

  • Axel R. Överby, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs - mæting: 08:25

4.Fyrirspurn vegna framkvæmda á skíðavegi árið 2020 - 2021060054

Lögð fram fyrirspurn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Í-listans, dags. 10. júní 2021, þar sem óskað er upplýsinga um framkvæmdir á skíðavegi árið 2020, en óskað er eftir að sjá framkvæmdaleyfi, kostnað sem tengist framkvæmdinni og fjárheimildir sem liggja þar að baki.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.
Axel R. Överby yfirgaf fund kl. 8:40.

5.Lýðskólinn á Flateyri - 2016110085

Lagður fram til samþykktar samningur Ísafjarðarbæjar við Lýðskólann á Flateyri um styrk til reksturs Lýðskólans, vegna áranna 2020-2023. Jafnframt lagt fram minnisblað Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dags. 11. júní 2021, vegna málsins.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samning Ísafjarðarbæjar við Lýðskólann á Flateyri vegna áranna 2020-2023.

6.Erindi frá leik- og grunnskólastjórum á Þingeyri og Flateyri - 2021040074

Lagt fram erindi Kristbjargar Sunnu Reynisdóttur, leik- og grunnskólastjóra á Flateyri, og Ernu Höskuldsdóttur, leik- og grunnskólastjóra á Þingeyri, dags. 21. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að endurskoðað verði það fyrirkomulag að skólastjóri stýri bæði leik- og grunnskóla á Flateyri og á Þingeyri. Auk þessa er lagt fram minnisblað Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dags. 11. maí 2021, vegna málsins, svo og minnisblað Guðrúnar Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa, dags. 3. júní 2021 vegna málsins.

Erindi Kristbjargar og Ernu var lagt fram á 427. fundi fræðslunefndar þann 29. apríl 2021, og var eftirfarandi bókað: „Fræðslunefnd leggur til að auglýst verði eftir leikskólastjóra í stað deildarstjóra á leikskólanum Grænagarði Flateyri. Jafnframt leggur fræðslunefnd áherslu á mikilvægi áframhaldandi faglegrar samvinnu skólastigana. Ekki verður um kostnaðaraukningu að ræða við þessa breytingu á Flateyri samkvæmt minnisblaði frá skólastjóra. Fræðslunefnd kallar jafnframt eftir kostnaðargreiningu frá leik- og grunnskólanum á Þingeyri.“

Á 429. fundi fræðslunefndar þann 10. júní 2021 bókað nefndin eftirfarandi varðandi stöðuna á Þingeyri: „Kynnt er minnisblað frá Guðrúnu Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa. Fræðslunefnd kallaði eftir kostnaðargreiningu á 427. fundi sínum þann 29. apríl 2021, vegna óska Ernu Höskuldsdóttur leik- og grunnskólastjóra þess efnis að endurskoðað yrði það fyrirkomulag að skólastjóri stýrði bæði leik- og grunnskóla á Þingeyri.
Fræðslunefnd leggur til að auglýst verði eftir leikskólastjóra á Þingeyri og vísar málinu áfram til bæjarráðs.“

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að auglýst verði laus staða leikskólastjóra á leikskólanum Laufási á Þingeyri.

7.Fyrirspurn vegna málefna leikskólabarna sem þurfa sérstakan stuðning vegna fötlunar - 2021060055

Mál sett á dagskrá bæjarráðs að beiðni Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Í-lista.
Bæjarstjóra falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.
Hafdís Gunnarsdóttir yfirgaf fund kl. 9:00.

Gestir

  • Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs - mæting: 08:45

8.Starfshópur vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna - 2021030006

Lagt fram minnisblað Margrétar Geirsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 11. júní 2021, vegna breytinga á starfshóp vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en óskað er samþykkis bæjarstjórnar fyrir fjölgun fulltrúa í starfshópnum.

Jafnframt lagt fram til samþykktar uppfært erindisbréf starfshópsins.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja uppfært erindisbréf starfshópsins, svo og fjölgun fulltrúa í starfhóp vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

9.Beiðni um upplýsingar - ráðning sviðsstjóra - 2021040059

Lagt fram til kynningar svarbréf Ísafjarðarbæjar, vegna erindis Umboðsmanns Alþingis, dags. 26. maí 2021, ásamt fylgigögnum.
Lagt fram til kynningar.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í-lista, lagði fram eftirfarandi bókun, f.h. bæjarfultrúa Í-listans:

„Bókun vegna bréfs Ísafjarðarbæjar til Umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar á ráðningu sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ.
Á dögunum fengu bæjarfulltrúar Í-listans afrit af bréfi sem sent var í nafni Ísafjarðarbæjar til Umboðsmanns Alþingis. Bréfið er tilkomið vegna kvörtunar sem einn af umsækjendum um stöðu sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ, sendi inn á umboðsmann og þar sem gerðar voru talsverðar athugasemdir við ráðningarferli sviðstjórans.
Við bæjarfulltrúar Í-listans getum ekki annað en gert athugasemd við að þetta bréf skuli vera sent á Umboðsmann Alþingis án þess að það sé fyrst lagt fyrir bæjarráð, og okkur sé ekki gert mögulegt að gera athugasemdir við efni bréfsins þar sem við eigum stóran hlut að máli með bókun okkar við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn.
Jafnframt gerum við alvarlega athugasemd við að bæjarritari sé látin skrifa pólitískt bréf af þessum toga, þar sem dreginn er taumur meirihlutans í málsmeðferðinni og gert lítið úr aðkomu og athugasemdum minnihlutans. Bæjarritari á m.a. að vera öllum bæjarfulltrúum innan handar og njóta trausts þeirra og gæta þess að stjórnsýsla sé fagleg. Í umræddu bréfi eru ýmsar rangfærslur og lygar sem sorglegt er að bæjarritari skuli þurfa skrifa upp á. Betur færi á því að bæjarstjóri lagði nafn sitt við svona pólitískt bréf.
Bæjarfulltrúar Í-listans telja sig tilknúna að að senda Umboðsmanni Alþingis bréf í sínu nafni til að leiðrétta þær rangfærslur og útúrsnúninga sem settir eru fram í bréfi Ísafjarðarbæjar. Þessar athugasemdir lúta m.a. gögnum sem bæjarfulltrúar eru sagðir hafa haft aðgang að við ráðningu sviðsstjóra.
Að bókun Í-listans við ráðningu sviðsstjóra hafi „pólitískt gildi“ eins og segir í umræddu bréfi. Bókunin lýsir aðkomu Í-listans að ráðningarferlinu. Bókuninni var ekki ekki mótmælt af öðrum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, og höfðu fulltrúar meirihlutans tækifæri til að koma sínum skoðunum og bókununum á framfæri en gerðu ekki. Eftir stendur bókun Í-listans. Það er ráðning sviðsstjóra sem er fyrst og fremst pólitísk.
Að minnispunktar af fundi nokkurra bæjarfulltrúa með ráðningarskrifstofu skuli hafi verið notaðir án þess að þeir hafi verið spurðir hvort það væri heimilt og að fundarmenn hafi ekki haft möguleika á að gera athugasemdir við þessa punkta. Fundarmönnum var tjáð í upphafi fundar að þeir yrðu ekki notaðir og enginn fundarmanna lagði nafn sitt við þá né samþykkti.
Þetta mál og eftirmálar þess er meirihluta bæjarstjórnar til skammar.“

Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi B-lista Framsóknarflokks, lagði fram eftirfarandi bókun f.h. meirihluta bæjarstjórnar:

„Ekki verður betur séð en að faglega hafi verið staðið að ráðningu sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs.

Ráðningaferlið var unnið faglega af ráðgjafafyrirtækinu Intellecta. Við ráðningu sviðsstjóra var fyrst og fremst notast við ráðleggingar og faglegt mat frá ráðgjafafyrirtækinu. Ef ekki á að notast við faglegt mat óháðs aðila líkt og ráðgjafafyrirtækis þá fyrst væri hægt að tala um pólitíska ráðningu. Kvörtun til Umboðsmanns Alþingis snéri að stórum hluta að aðkoma bæjarstjóra við ráðningarferlið og er því eðlilegt að bæjarritari svari fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.“

10.Fundir bæjarstjórnar og bæjarráðs 2021 - 2021060010

Lagt fram minnisblað Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra, dags. 10. júní 2021, vegna sumarleyfis bæjarráðs 2021.
Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra skv. minnisblaði.

11.Fjármál sveitarfélaga á árinu 2021 - 2021060043

Lagt fram til kynningar erindi Eiríks Benónýssonar, f.h. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, dags. 13. apríl 2021, þar sem óskað var gagna frá sveitarfélaginu varðandi fjárhagsmálefni það sem af er ári árið 2021.

Jafnframt lagt fram til kynningar svarbréf og gögn sveitarfélagsins:
1. Fjárhagsáætlun með samþykktum viðaukum
2. Yfirlit yfir útsvar fyrstu 4 mánuðina í samanburði við fjárhagsáætlun
3. Yfirlit yfir laun fyrstu 4 mánuðina í samanburði við fjárhagsáætlun
4. Yfirlit yfir fjárhagsaðstoð fyrstu 4 mánuðina í samanburði við fjárhagsáætlun
5. Yfirlit yfir fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum fyrstu 4 mánuðina í samanburði við fjárhagsáætlun
Lagt fram til kynningar.

12.Hátíðir í Ísafjarðarbæ - fjárhagsáætlun - 2021050059

Lagt fram til kynningar minnisblað Tinnu Ólafsdóttur, upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar, sem einnig hefur umsjón með hátíðum sveitarfélagsins, dags. 18. maí 2021, vegna breytinga á bókhaldslegum færslum er varða hátíðir í sveitarfélaginu, í samræmi við reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga nr. 1212/2015.
Lagt fram til kynningar.

13.Áskorun aðalfundar SFÍ - 2021060056

Lagt fram erindi Díönu Jóhannsdóttur, formanns Skíðafélags Ísafjarðar, dags. 7. júní 2021, þar sem félagið skorar á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að fara í alvöru úrbætur á skíðasvæðunum í Tungudal og Seljalandsdal. Þar segir að nú hafi verið starfandi nefnd innan bæjarins undanfarin tvö ár og lagðar hafa verið fram teikningar af framtíðarhugmyndum fyrir skíðasvæðin. Óskar Skíðafélagið eftir því að sett verið skýr tímalína um næstu skref og hafist verið handa við úrbætur á skíðasvæðunum.

Jafnframt skorar aðalfundur á Ísafjarðarbæ að tryggja aðhald og eftirfylgni með skíðasvæðunum og að tryggja viðhald á tækjabúnaði, en bilun búnaðar setti stórt strik í æfingar síðasta vetur.
Lagt fram til kynningar.

14.Landskerfi bókasafna 2020-2024 - 2020050083

Lagt fram til kynningar bréf Sveinbjargar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Landskerfis bókasafna, dags. 9. júní 2021, þar sem boðað er til framhaldsaðalfundar Landskerfis bókasafna hf. þann 28. júní 2021.
Lagt fram til kynningar.

15.Kerfisáætlun Landsnets - umsögn - 2020080008

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Landsnets, dags. 10. júní 2021, þar sem vakin er athygli á að kerfisáætlun 2021-2030 sé komin í opið umsagnarferli, en frestur er til 30. júlí 2021.
Helsta breyting sem orðið hefur á áætluninni frá síðasta ári er að nú hefur bæst við 10 ára áætlun um styrkingu meginflutningskerfisins á Vestfjörðum. Með því er komið á 10 ára áætlun um þróun meginflutningskerfisins, fyrsti hluti nýrrar kynslóðar byggðalínu, sem innifelur samfellda 220 kV tengingu frá Suðurnesjum að Austurlandi ásamt styrkingu á meginflutningskerfinu á Vestfjörðum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að meta hvort veita eigi umsögn.

16.Öryggisbúnaður í jarðgöngum - 2021060049

Lagt fram bréf Jónasar Guðmundssonar, f.h. Samgöngufélagsins, dags. 11. júní 2021, vegna umsagna um drög að reglugerð um öryggisbúnað í jarðgöngum, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda 21. maí 2021. Vakin er athygli á því að í reglugerðinni er ekki gert ráð fyrir síma- eða útvarpssambandi í jarðgöngum fyrir minni umferð en 4000 ökutæki á dag og hefur Samgöngufélagið gert athugasemd vegna þessa. Jafnframt er lagt til að sveitarfélög beiti sér fyrir og taki þátt í fundi samgönguráðuneytis um reglugerðardrögin.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að útbúa ályktun vegna málsins og leggja fyrir bæjarstjórn.

17.Fræðslunefnd - 429 - 2106004F

Lögð fram til kynningar fundargerð 429. fundar fræðslunefndar sem haldinn var 10. júní 2021.

Fundargerðin er í sex liðum.
Lagt fram til kynningar.

18.Menningarmálanefnd - 158 - 2106008F

Lögð fram til kynningar fundargerð 158. fundar menningarmálanefndar sem haldinn var 9. júní 2021.

Fundargerðin er í sjö liðum.
Lagt fram til kynningar.
  • Menningarmálanefnd - 158 Menningarmálanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja nýjar reglur um úthlutun styrkja til menningarmála.
  • Menningarmálanefnd - 158 Menningarmálanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að unnin verði menningarmálastefna fyrir Ísafjarðarbæ, og að gert verði ráð fyrir fjármagni vegna þessa í fjárhagsáætlun ársins 2022.

19.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 562 - 2105026F

Lögð fram til kynningar fundargerð 562. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 9. júní 2021.

Fundargerðin er í 16 liðum.
Lagt fram til kynningar.

20.Starfshópur vegna frumvarps til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna - 1 - 2106005F

Lögð fram til kynningar fundargerð 1. fundar starfshóps vegna frumvarps til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem haldinn var 7. júní 2021.

Fundargerðin er í tveimur liðum.
Lagt fram til kynningar.

21.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 107 - 2106003F

Lögð fram til kynningar fundargerð 107. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar en fundur var haldinn 8. júní 2021.

Fundargerðin er í átta liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:40.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?