Dagbók bæjarstjóra 2026: Vika 53
Dagbók bæjarstjóra dagana 5.–11.janúar 2026, í 53. viku í starfi.
Fyrsta heila vinnuvikan í nokkurn tíma eftir hátíðirnar. Margt starfsfólk tók sér aukafrí og var að koma inn, úthvílt og hresst. Vikan var fjölbreytt sem endranær en einkenndist samt af því að það er allt að fara í gang eftir frí.
Það er svolítið um það að íbúar óski eftir fundi með mér til að ræða afmörkuð mál og fékk ég nokkrar heimsóknir á skrifstofuna til dæmis varðandi moltustöðina sem við erum að áforma að koma upp.
Ég fékk góða heimsókn tveggja þingmanna í vikunni. Það voru þau Arna Lára og Guðmundur Ari frá Samfylkingunni. Þau nýttu tvo dagparta til að heimsækja fyrirtæki á svæðinu, kíktu einnig í Menntaskólann og svo áttu þau fund með félögum sínum í samfylkingarfélaginu.
Bæjarráð fundaði í fyrsta sinn á nýjum tíma, en frá og með áramótum fundar það á fimmtudagsmorgnum í stað mánudaga. Þetta er breyting og vonandi til góðs.
Ég hélt uppteknum hætti og var með vinnustöð úti í byggðakjarna í vikunni, nú var það á Suðureyri. Það var ágætis mæting og þarna átti ég fundi með sjö einstaklingum. Mér telst svo til að á þessu eina ári í starfi bæjarstjóra hafi ég verið með vinnustöð þrisvar sinnum í hverjum bæjarkjarna (Flateyri, Suðureyri og Þingeyri), fyrir utan íbúafundi og önnur erindi í kjörnunum. Mér finnst þetta gagnlegt og vona að fólki finnist það líka sem hittir mig. Í þessum ferðum er yfirleitt einhver starfsmaður bæjarins með mér, oftast einhver sviðsstjóri. Mun halda þessu áfram og fljótlega negli ég niður dagsetningar, þannig að ég nái einni vinnustöð í hverjum kjarna fyrir vorið.
Sundhöllin á Ísafirði verður lokuð fram á vorið. Það var búið að plana að skipta um hreinsikerfi og var það á framkvæmdaáætlun þessa árs og undirbúningur að því hafinn en svo bilaði ýmislegt annað eins og loftræstikerfið og eitt leiddi af öðru og þetta er niðurstaðan. Ég er að bíða eftir upplýsingum og minnisblaði frá sviðsstjóra til að geta ákveðið hvernig staðið verði að þessu öllu saman. Sundhöllin verður áttatíu ára á árinu, hún er merkilegt hús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni og er því ekki sama hvernig og hvað er gert í því húsi. Sjáum til, vonandi reddast þetta allt. Á meðan á þessu stendur þá hvet ég fólk til að kíkja í aðrar sundlaugar á svæðinu. Við erum rík af sundlaugum hér og eigum að vera dugleg að nýta okkur þær.
Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar var útnefndur í dag en auk þess voru veittar viðurkenningar til efnilegustu íþróttamanna sveitarfélagsins og hvatningarverðlaun. Árið 2025 var viðburðarríkt í íþróttalífinu í Ísafjarðarbæ, líkt og önnur ár. Öflugt og metnaðarfullt starf íþróttafélaga, ásamt fjölbreyttu framboði íþrótta fyrir alla aldurshópa einkennir styrk sveitarfélagsins. Íþróttastarfið gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu okkar og skapar gott umhverfi fyrir börn og ungmenni og styrkir tengsl íbúa sín á milli. Þar gegna sjálfboðaliðar lykilhlutverki, enda er ómetanlegt framlag þeirra undirstaða þess öfluga íþróttastarfs sem blómstrar í bænum, hvort sem er í stjórnum, skipulagi móta eða stuðningi við iðkendur. Efnilegustu íþróttamennirnir eru tvö, þau Haukur Fjölnisson sem æfir með körfuknattleiksdeild Vestra og Freyja Rún Atladóttir sem æfir með knattspyrnudeild Vestra.

Þessi voru tilnefnd sem efnilegustu íþróttamenn Ísafjarðarbæjar.

Efnilegustu íþróttamennirnir Freyja Rún Atladóttir og Haukur Fjölnisson.
Á árinu varð Vestri bikarmeistari í knattspyrnu, og tryggði sér þar með sæti í Evrópukeppni sem fram fer nú í sumar. Sá árangur vakti mikla athygli og gleði, ekki aðeins meðal iðkenda og stuðningsfólks heldur í bæjarfélaginu öllu. Slíkir sigrar hafa sterkt sameiningargildi og þegar vel gengur í íþróttum má finna aukna samheldni, stolt og jákvæðni meðal íbúa. Íþróttamaður ársins í Ísafjarðarbæ 2025 er Fatai Gbadamosi leikmaður Vestra í knattspyrnu.

Þau sem voru tilefnd eða fulltrúar þeirra sem voru tilnefnd til að hljóta titilinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2025.

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2025 er Fatai Gbadamosi.
Íþróttir snúast ekki aðeins um árangur á vellinum, heldur einnig tengsl við samfélagið, elju og fórnfýsi. Gunnar Ingi Hákonarson handboltamaður í Herði lenti í alvarlegu umferðarslysi nú í upphafi vetrar og á einni svipan breyttist líf hans. Hann hefur þurft að takast á við erfið verkefni: fengið gangráð, farið í krefjandi endurhæfingu og tekist á við óvissu og ótta. Gunnar hefur sýnt hugrekki, seiglu og styrk sem er einmitt í anda íþrótta. Gunnar er mikil fyrirmynd, ekki aðeins sem íþróttamaður, heldur sem manneskja. Þess vegna fær Gunnar hvatningarverðlaunin í ár. Áfram Gunnar!

Afi Gunnars Inga tók við hvatningarverðlaununum. Nanný, formaður skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar er þarna með okkur.
Stærsta verkefni vikunnar var í einkalífinu, það verkefni snerist um að undirbúa veislu. Dúi minn varð sextugur í gær og við héldum sem sagt veislu. Þetta var tónlistarveisla, uppistand og gleði! Viðburðurinn fór fram í Félagsheimilinu á Suðureyri. Afmælisbarnið afþakkaði afmælisgjafir en hvatti fólk til þess að setja peninga í bauk og styrkja með því samkomuhúsið á Flateyri (af því að Dúi er Önfirðingur) og/eða félagsheimilið á Suðureyri (af því að við búum á Súganda). Fram komu: Börnin okkar og tengdabörn, Kvartett MÍ, Eyþór Bjarna uppistandari, systur mínar, Rammstein-coverband frá Suðureyri og hljómsveitin Celebs.
Það var fjölmenni í veislunni og það var fjölmenni sem kom og gisti hér hjá okkur og var þetta því mjög stór helgi. Takk þið sem aðstoðuðuð okkur með þetta og þá fyrst og fremst Venni tæknimaður og Vala frá veitingahúsinu Logn á Ísafirði. Takk öll sem gáfuð ykkur tíma til að heiðra hann Dúa minn á þessum tímamótum. Þetta verður lengi í minnum haft.

Að morgni afmælisdags var farið út að hlaupa.

Í tilefni sextugsafmælis Dúa mótuðu hlaupafélagarnir tölustafina 6 og 0 en auðvitað hefðum við átt að snúa þessu við, en hver segir að það sé einhver munur á 60 eða 06?

Lokaæfing Kvartetts MÍ fyrir „giggið“. Þarna var allt orðið klárt nema bara að setja matinn á borðið.

Fyrstu gestir mætt, þau Magni og Svanhildur, auðvitað fékk ég þau til að hjálpa mér að setja síðustu seríuna upp fyrir kvöldið.

Í sextugsafmælinu hans Dúa.

Barnaskarinn okkar Dúa, stjúpdætur og tengdabörn, þó sést ekki í Stefán (son minn), hann er einstaklega laginn við að forðast myndatökur.

Kvartett MÍ.

Systur mínar og mágur tóku eina sjálfu í lok þeirra atriðis.

Rammstein coverbandið, bakraddasöngkonurnar Arnheiður og Jóhanna, hljómborðsleikarinn Guðrún, allar dætur Dúa.
Munum að njóta hverrar mínútu.