Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 22

Laugardagshlaupið tekið í Önundarfirði.
Laugardagshlaupið tekið í Önundarfirði.

Dagbók bæjarstjóra dagana 2.–8. júní 2025, í 22. viku í starfi.

Fyrir utan hefðbundna fundi vikunnar þá sat ég fund sem boðaður var af atvinnuvegaráðuneytinu um mögulegt griðasvæði hvala í Ísafjarðardjúpi. Til þessa fundar var boðið fulltrúum SAF og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, sem hófu málið, Gunnari Torfasyni útgerðarmanni sem handhafa hrefnuveiðileyfis, Ísafjarðarbæ og Bolungarvíkurkaupstað sem voru þau tvö sveitarfélög við Djúp sem skiluðu inn umsögnum til ráðuneytisins um tillögu SAF/Hvalaskoðunarsamtaka Íslands og loks Hafrannóknarstofnun sem í umsögn sinni um sömu tillögu lýsti sig tilbúna til að aðstoða við samráð aðila. Þessi fundur var eingöngu til að reifa málin en eftir sem áður þarf ráðuneytið að taka afstöðu. Í umsögn Ísafjarðarbæjar var lagt til að minnka fyrirliggjandi hugmynd um griðarsvæði og að skoða það hvernig koma megi í veg fyrir árekstra milli þessara tveggja atvinnugreina, hvalaskoðunar og hval(hrefnu)veiða, það er að segja, finna lausn sem báðir aðilar geti unað við. Við sjáum hvað setur en ráðuneytið er með boltann.

Sigríður ásamt Braga sveitarstjóra í Súðavík og Jóni Páli bæjarstjóra í Bolungarvík
Ég hitti kollega mína í Súðavík og Bolungarvík í vikunni.

Ég ávarpaði gesti á málþingi um íslensku sem annað mál, inngildingu og hlutverk menntastofnana í fjölmenningarsamfélagi nútímans. Þátttakendur voru frá öllu landinu en við hér í Ísafjarðarbæ erum ansi meðvituð um þessar áskoranir. Sem dæmi, þar sem ég er búsett, Suðureyri, eru 19 börn á leikskólanum og þar af 15 af erlendum uppruna, eða um 80% barna. Þau hafa tengingu við sjö lönd. Fimm af þessum börnum eru fjöltyngd. Af öllum íbúum Ísafjarðarbæjar eru tæp 23% fólk af erlendum uppruna.

Frá móttöku í Turnhúsi Byggðasafns Vestfjarða.
Frá móttöku í Turnhúsi þar sem ég ávarpaði gesti á málþingi um íslensku sem annað mál, inngildingu og hlutverk menntastofnana í fjölmenningarsamfélagi nútímans

Fyrr á árinu hef ég verið til viðtals bæði á Flateyri og Þingeyri, í vikunni var komið að Suðureyri. Þar átti ég gott spjall við allavega sjö einstaklinga, tók niður punkta og ábendingar og gat jafnframt setið fyrir svörum um atriði sem fólki lá á hjarta. Ábendingarnar og umræðurnar snerust mikið til um umhverfismál og lýðheilsu, opnunartíma í sundlaugum og aðgang að íþróttamannvirkjum yfir vetrartímann fyrir eldri borgara.

Kaffistund í Sunnuhlíð á Suðureyri. Tertur og kaffibrauð á borðum.
Í Sunnuhlíð á Suðureyri var ég með viðtaltíma í vikunni, auðvitað sá Rósa til þess að nóg væri til með kaffinu.

Ég er í þessu sambandi að plana að vera með opinn skrifstofutíma í þorpunum í sumar og áforma að bjóða uppá fyrirspurnartíma og spjall sem hér segir:

Þessar dagsetningar eru valdar með hliðsjón af því að þarna eru í gangi eða í þann veginn að hefjast bæjarhátíðir á stöðunum (Götuveislan á Flateyri, Dýrafjarðardagar á Þingeyri og ActAlone á Suðureyri).

Annars er fólk duglegt að óska eftir viðtölum og fá tíma hjá mér á Ísafirði, á skrifstofunni.

Á bæjarstjórnarfundi vikunnar voru gerðar breytingar á nokkrum embættum í kjölfar þess að Í-listinn missti meirihlutann eins og ég skýrði frá í þarsíðustu dagbókarfærslu. Stóru breytingarnar eru að Steinun Guðný (D-lista) er nýr forseti bæjarstjórnar og Kristján (B-lista) er orðinn aðalmaður í bæjarráði en þá eru Í-listinn, D-listinn og B-listinn allir með einn fulltrúa með atkvæðarétt þar inni.

Sigríður Júlía og Steinunn Guðný, nýr forseti bæjarstjórnar.
Steinunn tók við embætti forseta bæjarstjórnar í vikunni, hún fékk að velja sér hamar.

Þá minntumst við Kristínar Bjarkar Jóhannsdóttur varabæjarfulltrúa sem lést á gjörgæsludeild Landspítalans 26. maí síðastliðinn eftir erfiða barráttu við sjaldgjæfan sjúkdóm. Kristín var á lista Í-listans fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og tók sæti í velferðarnefnd. Hún var kennari að mennt, fædd í Súgandafirði og búsett á Þingeyri. Kristín var okkur stoð og stytta sem kom með góðar ábendingar og var virk í málefnastarfi í aðdraganda kosninga sem og í almennu baklandsstarfi þar til seint á síðasta ári þegar veikindi fóru að þjaka hana. Kristín náði að sitja einn bæjarstjórnarfund sem varafulltrúi. Bæjarstjórn minntist Kristínar með því að rísa úr sætum í andartaksþögn og við öll vottum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúð.

Á bæjarskrifstofunni er stundum bryddað upp á einhverju skemmtilegu og á föstudaginn var til dæmis boðið upp á léttar teygjur, kaffi og svo var verðlaunaafhending vegna þátttöku í átakinu Hjólað í vinnuna. Af liðum Ísafjarðarbæjar lenti Team bæjó í öðru sæti af tveimur liðum bæjarins. Liðið fékk viðurkenningarskjal þar sem þátttakendum var óskað til hamingju með „sæmilegan“ árangur. Vel gert! Það er Baldur mannauðsstjóri sem er aðalpepparinn, gaman að segja frá því að við Baldur erum náskyld, en afar okkar voru bræður, þeir voru frá Árskógssandi við Eyjafjörð. Hef ég kannski minnst á þennan skyldleika áður?

Viðurkenningarspjald fyrir þátttöku í Hjólað í vinnuna.
Það ber að fagna sæmilegu gengi.

Þrátt fyrir kuldann sem hefur umlukið okkur undanfarna daga þá er allt á fullu í að gera bæinn huggulegan, setja niður sumarblóm og snyrta til. Það eru bæði starfsmenn bæjarins og bæjarbúar sem eru að leggja sitt af mörkum. Það er virkilega gaman að taka rölt um byggðakjarnana og sjá metnaðinn hjá íbúum og eigendum húseigna. Við viljum hafa huggulegt á þjóðhátíðardaginn og þá má vænta að komandi vika fari mikið í undirbúning. Götusóparinn er kominn í lag og sópar því göturnar eins og enginn sé morgundagurinn.

Sumarblóm í gróðurhúsi
Ég bjargaði blómapottunum inn í gróðurhús þegar hretið gekk yfir, fyrri part vikunnar.

Öll viljum við hafa umhverfið fallegt og snyrtilegt og því hafa íbúar fengið hvatningu á Facebook-síðu Ísafjarðarbæjar um að ganga vel um opin svæði, gæta þess að viðkvæmar plöntur troðist ekki undir í leik barna og að hellur og steinar séu ekki færðir úr stað. Þá er hvatning til foreldra að ræða við börnin sín um góða umgengni til dæmis á leiksvæðum, svo sem við ærslabelgi, þar sem verður fljótt draslaralegt ef rusl og fatnaður er skilinn eftir. Hjálpumst að og leiðbeinum börnunum okkar um góða umgengni við umhverfið okkar. Verum góðar fyrirmyndir.

Stór hrúga af illgresi.
Ég dró eiginmanninn með mér í að reyta arfa úr einu beði hér í þorpinu, tók ekki langan tíma og munurinn mikill.

Nú er tími skólaslita eiginlega liðinn, allavega hvað mig og Dúa snertir þá var síðasta barnið útskrifað úr grunnskóla, það var hún Guðrún Hrafnhildur sem stóð sig með sóma. Hún stefnir hátt á tónlistarbrautinni og ég verð að segja að ég hef aldrei kynnst annarri eins ástundun hvað varðar tónlistaræfingar. Hún situr við píanóið 3-6 klukkustundir dag hvern og æfir, og ég er jafnvel að vanmeta tímann.

Útskriftarnemar GÍ stilla sér upp fyrir myndatöku við altarið í Ísafjarðarkirkju.
Útskriftarnemar Grunnskólans á Ísafirði stilla sér upp fyrir myndatöku.

Að lokum; helginni var varið í góðra vina hópi, heima við, farið í fermingarveislu á Flateyri, matarboð með nýjum og gömlum vinum, sungið við fermingarmessu á Suðureyri, útivist, garðyrkja og sundferðir voru einnig á dagskrá. Þá prófaði ég Alþingi, nýju útigufuna á Flateyri en það er einnig ein slík komin á Suðureyri.

Það er alltaf í nægu að snúast og alltaf gaman.

Hlaupagarpar í litríkum fötum fyrir framan lítinn foss.
Hlaupafélagar sem hittast 6:30 nokkrum sinnum í viku í Súganda. Frábært að hefja daginn með útivist.

Kirkjukórinn við messu á Suðureyri. Þrjár konur vinstra megin og þrír karlar hægra megin.
Kirkjukórinn á Súganda, sungum við fermingarmessu á Suðureyri.