Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 20

Gamall slökkviliðsbíll fyrir utan Faktorshúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.
Gamall slökkviliðsbíll fyrir utan Faktorshúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Dagbók bæjarstjóra dagana 19.–25. maí 2025, í 20. viku í starfi.

Þessi vika var mikil rússíbanavika. Ég var með þéttskipaða dagskrá og vissi á mánudagsmorgni að það yrði mikið að gera og nánast hver stund í dagatalinu mínu var bókuð. Grunaði ekki hvað væri í uppsiglingu.

Mánudagurinn hófst með góðum hlaupatúr í morgunsárið í Súgandafirði, þá fór ég beint á bæjarráðsfund.

Þennan dag átti ég góðan fund með skólastjórnendum Menntaskólans á Ísafirði (MÍ) og í leiðinni undirrituðum við samning Ísafjarðarbæjar um íþróttasvið MÍ. Rekstur íþróttasviðs MÍ er samvinna skólans við íþróttafélögin auk sveitarfélaganna þriggja á norðanverðum Vestfjörðum. Íþróttasvið er í boði á öllum brautum skólans. Námið er sérsniðið og hentar vel fyrir nemendur sem æfa mikið og vilja stunda sína íþrótt samhliða námi.

Sigríður Júlía og Heiðrún, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, fyrir framan skólann.
Með Heiðrúnu Tryggvadóttur, skólameistara, fyrir framan Menntaskólann á Ísafirði.

Stjórn Byggðarsafnins átti hádegisfund í vikunni, þar er allt að fara í gang fyrir sumartraffíkina og mikil vertíðarhugur í fólki.

Bæjar-, og sveitarstjórar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fundaði um framlagt frumvarp um aflagjöld en samtökin eru að smíða umsögn um frumvarpið en frestur rennur út 26.maí.

Samráðshópur um umhverfismál fundaði í vikunni en það er vettvangur allra sveitarfélaga á Vestfjörðum, leitt af Vestfjarðastofu. Þá var fundur í úrgangsráði Vestfjarða en þar var kynnt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð, Lilja Magg kynnti hana. Ástæða þessa umræðupunkts var að eitt af markmiðum svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum er að samræma samþykktir sveitarfélaga á Vestfjörðum um meðhöndlun úrgangs.

Forstöðumannafundir eru haldnir um það bil mánaðarlega hjá Ísafjarðarbæ en sá fundur var í vikunni. Þar var farið yfir ferli fjárhagsáætlunar og þá kynnti ég þjónustustefnuna sem liggur inni á Betra Ísland, þar er hægt að senda inn ábendingar ef fólk vill. Við munum fylgja stefnunni úr hlaði á íbúafundum sem verða haldnir:

26. maí: Félagsheimilið á Þingeyri, kl. 17:30-19:00.
27. maí: Félagsheimilið á Suðureyri, kl. 17:30-19:00
28. maí: Félagsheimilið á Flateyri, kl. 17:30-19:00.

Ég var kölluð inn á fund umhverfis- og samgöngunefndar í vikunni þar sem umræðuefnið var umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þarna gafst tækifæri til að fylgja umsögninni eftir en hér er hún.

Umsögn um frumvarp um Jöfnunarsjóð

Ég sótti þrjú nemendaþing í vikunni, á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Þau voru öll skemmtileg og nálgunin var ólík.

Nemendaþingið á Þingeyri var þannig sett upp að nemendur kynntu verkefnin sín, bæði með myndböndum og powerpoint kynningum, síðan var opnað fyrir umræður og ábendingar með íbúafundafyrirkomulagi, þarna var fundarstjóri og nemendur báru upp spurningar. Það sem ég tók með mér frá Þingeyri var að nemendur þar eru þakklát fyrir grunnskólann sinn, sundlaugina og kvenfélagið, þau vilja hvetja fólk til að nota bílinn minna innan þorps, borða hollan mat (nefndu til dæmis mjólk sérstaklega), þeim finnst að Ísafjarðarbær geti gert betur í að laga gangstéttir í þorpinu og bæta almenningssamgöngur og þá langar þau í aparólu og hjólabraut í þorpið.

Nemendur kynna hugmyndir sínar fyrir samnemendum á sal Grunnskólans á Þingeyri.

Módel af Þingeyri, búið til af nemendum GÞ.

Hugmyndir nemenda við GÞ sýndar í blöðrum sem límdar hafa verið á vegg.

 

Á Flateyri var þessu stillt þannig upp að nemendur settu fram spurningar fyrir kjörna fulltrúa en einnig kynntu þau hugmyndir sínar að verkefnum til að bæta aðstöðu fyrir börn, unglinga og gæludýr. Hugmyndir eins og afgirt leiksvæði fyrir hunda, endurbætur á körfuboltavelli og hjólabraut eru dæmi um verkefni sem þau höfðu unnið að með því að teikna upp, búa til módel og skrifa um.

Tvær stúlkur í Grunnskóla Önundarfjarðar.

Kynningar á hugmyndum nemenda prentaðar út og hengdar upp á vegg.

Nemandi við Grunnskóla Önundarfjarðar segir frá hugmynd sinni. Á röð borða má sjá skúlptúra sem nemendur hafa búið til.

Á Suðureyri fór þetta þannig fram að hvert stig var með kynningu um ýmislegt sem þau sjá fyrir sér að megi bæta í umhverfinu. Aparóla, zipline, fleiri blóm, tré og bekkir til að sitja á. Efsta stigið var þá með mjög flott kynningarmyndband fyrir Suðureyri sem væri gaman ef fleiri fengju að sjá. Það sem þau voru öll sammála um, á öllum stigum var að þeim finnst vanta bensínsjoppu á Suðureyri og að fjölga strætóferðum til Ísafjarðar. Þá var til sýnis líkan af þorpinu þar sem búið var að setja inn ýmis ný hús (á auðum lóðum) og tók ég eftir til dæmis McDonalds, verslunarmiðstöð og rennibraut í sundlauginni.

Nemendur Grunnskólans á Suðureyri.

Líkan með tillögum nemenda GS.

Teiknuð mynd með tillögu að zipline yfir Súgandafjörð

Það var ýmislegt fleira gagnlegt sem kom fram á öllum stöðum en það sem stendur upp úr í mínum huga er hversu hugmyndarík krakkarnir eru og hvað þau eru umhverfisþenkjandi og biðja um bætta aðstöðu til útileikja. Ef eitthvað er þá finnst mér að við ættum að hlusta á þær raddir því hvað er betra en að börn og unglingar, já og bara allir leiki sér úti og þá skiptir aðstaðan máli.

Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar og háskólamálaráðherra kom í heimsókn, við áttum fínan fund þar sem við minntum á erindi okkar um beitingu ívilnanaheimilda vegna Menntasjóðs námsmanna. Stuðningur við ýmis menningarmál og ýmislegt annað kom til umræðu.

Sigríður Júlía og Logi Einarsson standa við glugga í aðalrými Stjórnsýsluhússins á Ísafirði
Ég og Logi Einars áttum góðan fund.

Þá hafði stjórn og starfsfólk Lánasjóðs íslenskra sveitarfélaga áformað að koma í heimsókn en það breyttist á síðustu stundu, þannig að þar „græddi“ ég tíma.

Haldinn var stefnumótunarfundur í Edinborgarhúsinu en stjórn hússins hefur hafið vinnu við að móta skýra stefnu fyrir Menningarmiðstöðina Edinborg til næstu ára. Þess vegna var öllum áhugasömum boðið að taka þátt í opnum stefnumótunarfundi þar sem rætt var um hlutverk Edinborgarhússins í samfélaginu og hvernig við viljum sjá það þróast á næstu árum. Húsið er í eigu fjölmargra aðila sem eru: Litli leikklúbburinn, Myndlistarfélagið á Ísafirði, Ísfirðingafélagið, Listasafn Ísafjarðar, Sögufélag Ísfirðinga og svo á fjöldi einstaklinga og fyrirtækja um það bil þriðjungshlut í húsinu. Þessi stefnumótunarfundur var vel sóttur og það varð til mikið fóður fyrir stjórnina og ég hlakka til að sjá niðurstöðuna.

Gestir á stefnumótunarfundi í Edinborgarhúsinu sitja við hringborð í stóra sal hússins.

Þátttakendur á málþingi kynna hugmyndir úr hópavinnu.

Hugmyndir af stefnumótunarfundinum á blágrænum post-it miðum.

Þá sótti ég áhugavert málþing um friðlandið á Hornströndum sem haldin var í Hömrum. Tilefnið var að um þessar mundir eru 50 ár síðan stofnað var til Friðlandsins á Hornströndum. Hornstrandanefnd stóð fyrir þessu afmælismálþingi en á dagskránni voru nokkur stutt erindi og umræður um náttúrufar, samfélagið, skipulag og framtíðarsýn. Mjög gott framtak hjá Hornstrandanefnd, takk fyrir mig.

Útskriftarfögnuður MÍ fór fram á laugardaginn, við fórum þangað en Dúi minn fagnar 40 ára stúdentsafmæli í ár. Gaman að sjá alla nýstúdentana fagna áfanganum en útskriftin sjálf fór fram í Ísafjarðarkirkju og um kvöldið var svo útskriftarveisla þar sem nýstúdentar fögnuðu með sínum fjölskyldum og afmælisárgangar mættu. Þarna voru fjölmörg skemmtiatriði en ég held, kannski er ég smá hlutdræg, að 40 ára stúdentar hafi slegið í gegn með endurflutningi á Sólrisuatriði frá 1984 „Drekavatninu“.

Fulltrúar 40 ára stúdenta sem endurfluttu túlkun sína á „Drekavatninu“.
Fulltrúar 40 ára stúdenta sem endurfluttu túlkun sína á „Drekavatninu“

 

Nú þegar sumarið er að bresta á þá er nóg að gera hjá starfsfólki bæjarins að setja okkur í sumarbúninginn. Ég hef tekið eftir að fólk er oft að setja inn umræðu um hitt og þetta sem betur mætti fara hjá bænum inná Facebooksíður hér og þar en mig langar til að minna á þessa síðu hér: Ábendingar og kvartanir
Gott að fá ábendingar og kvartanir þarna inn. Fínt að við hjálpumst að, með að benda almenningi á þessa síðu, til dæmis þegar þið rekist á ábendingar og umræður á Facebook að þá er þarna rétta leiðin/farvegurinn.

 

Það er gaman að sjá alla regnbogafánana sem eru að lifna við í byggðarkjörnunum, þau sem standa að þessu eru félagsskapurinn „Hinsegin Vestfirðir“ með hjálp íbúa, vel gert, þetta lífgar upp á bæinn.

Sigga og Dúi mála regnboga á götuna fyrir framan félagsheimilið á Suðureyri.
Við tókum aðeins í málningarrúllurnar.

En stóra sprengjan í vikunni var að Doddi tilkynnti að hann gæti ekki stutt meirihlutann Í-lista lengur og klauf sig frá framboðinu og þar með Í-listinn ekki lengur með hreinan meirihluta. Ég verð að segja að mér fannst það leiðinlegt. En hann tekur sína ákvörðun og ekkert meira um það að segja. Þetta þýðir að það þarf að bregðast við þar sem Í-listinn er með fjóra fulltrúa og þá ekki með hreinan meirihluta og því hafa margar spurningar vaknað. Niðurstaðan er að við erum ekki að fara að umbylta öllu. Gylfi verður áfram formaður bæjarráðs, ég verð áfram bæjarstjóri en þetta er hægt með stuðningi B og D. Við teljum að með þessari lausn tryggjum við stöðugleika næsta árið fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar en okkur hefur öllum gengið vel að vinna saman að því að gera gott samfélag enn betra. Það er nefnilega bara tæpt ár í sveitarstjórnarkosningar, tíminn er svo fljótur að líða.

Hlaup, útivist, garðyrkja var annars á sínum stað þessa vikuna, veitir alltaf hugarró. En þó gerðist eitt sem ég er síður ánægð með, ég „féll“ eftir mánaðar nammibindindi en fallið varði í tvo daga. Komin aftur á beinu brautina.

Sumarblómin komin niður í beð við hús bæjarstjóra.