Vika 4: Dagbók bæjarstjóra 2023

Með Sergio Finato, bæjarstjóranum í Cavalese.
Með Sergio Finato, bæjarstjóranum í Cavalese.

Dagbók bæjarstjóra dagana 23.-29. janúar 2023.

Dagbókin er skrifuð frá ítölsku ölpunum að þessu sinni þar sem ég tók þátt í Marcialonga göngunni í gær sem er risastór gönguskíðakeppni, ásamt fríðum hópi Ísfirðinga. Hér eru frábærar skíðaaðstæður og veðrið lék við okkur. Það var kærkomið að fá sólina en við Ísfirðingar höfum vart séð sól síðan í nóvember í fyrra. Marcialonga gangan er gríðarlega stór viðburður og búnar að vera alls konar uppákomur á svæðinu í fleiri daga. Það er mikill sjarmi að skíða á milli ítölsku þorpanna þó þetta hafi tekið verulega á undirritaða.

Þetta var í 50. skipti sem Marcialonga gangan var gengin en til gamans má segja frá því að Fossavatnsgangan hefur verið gengin frá árinu 1935. Þó ég hafi ekki verið í embættisverkum hér í Cavelese, sem er heimabær Marcialonga göngunnar, þá fékk ég að hitta bæjarstjórann hér í bæ, Sergio Finato, sem sagði mér frá því að þeirra stærsta verkefni væri að undirbúa Vetrarólympíuleikanna sem verða haldnir hér á svæðinu árið 2026.


Hluti af ísfirska hópnum sem tók þátt í Marcialonga göngunni.

Vikan var því stutt í vinnulegu tilliti en þetta var það helsta:

Í bæjarráði ræddum við þá stjórnsýslukæru sem bærinn fékk á sig vegna úthlutunar byggðakvóta. Kæran er að mínu viti byggð á talsverðum misskilningi og henni hefur verið svarað þar sem sjónarmið Ísafjarðarbæjar eru rakin. Misskilningurinn liggur einna helst í því að kærendur telja að sjónarmiðum sínum hafi ekki verið komið á framfæri við bæjarstjórn. Allar athugasemdir sem bárust vegna málsins voru hluti að fundargögnum og til umræðu á bæjarstjórnarfundi. Þess má líka geta að bærinn þarf ekki að leita sjónarmiða annarra en kjörna fulltrúa, en það var gert samt sem áður. Einnig töldu kærendur að ég hafi verið vanhæf í málinu vegna stjórnarsetu minnar í Hvetjanda sem á hlut í Fiskvinnslunni Íslandssögu og Norðureyri, en þess má geta að ég hef engra persónulegra hagsmuna að gæta. Þannig nú er bara að bíða úrskurðs frá innviðaráðuneytinu.

Bæjarráð fór líka yfir þá möguleika sem við höfum vegna uppdælingar efnis á Suðurtanga en við þurfum að koma talsvert miklu af efni fyrir, rétt um 200.000 rúmmetrum. Þetta mál er enn í vinnslu.

Við tókum líka fyrir bréf frá Isavia sem vill selja flugstöðina í Dýrafirði, þar sem þau telja sig ekki hafa not fyrir hana þar sem flugvöllurinn er ekki notaður. Afstaða bæjarráðs var sú að það væri ekki tímabært að selja flugstöðvarhúsið fyrr en framtíðarsýn um notkun flugvallarins liggur fyrir.

Við Bryndís bæjarritari tókum þátt í rýnifundi um stefnumótun Blábankans með Katli Berg stjórnarformanni. Ný stefnumótun fyrir Blábankann næstu fimm árin er í vinnslu og ég hvet alla á stór-Dýrafjarðarsvæðinu til að taka þátt í könnun um áherslur um Blábankans fyrir næstu ár.

Við í verkefnisstjórn Flateyrarverkefnisins funduðum í vikunni og byrjuðum að fara yfir þessar 25 umsóknir sem bárust í Flateyrarsjóðinn. Vonandi náum við að klára þessa vinnu fljótt og örugglega.

Það var líka fundað í starfshópi um velferðarþjónustu Vestfjarða og erum við komin með talsvert kjöt á beinin sem við getum farið að kynna fyrir öðrum sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum. Það er svo á hendi sveitarfélaganna að taka afstöðu til okkar vinnu og koma sér saman um fyrirkomulag þessarar þjónustu við íbúa.

Það var líka fundur í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga sem ég náði taka áður en ég fór í skíðagöngufríið.