25 umsóknir í Flateyrarsjóð

Síðastliðinn þriðjudag rann út frestur til að sækja um í Þróunarsjóð Flateyrar í fjórða og mögulega síðasta skipti. Alls bárust 25 umsóknir um fjölbreytt verkefni á sviði nýsköpunar og samfélagseflingar. Alls var sótt um rúmlega 32 miljónir, en í þetta sinn verða 10 miljónir, auk afgangs af rekstri sjóðsins, til úthlutunar.

„Það er ljóst að verkefnisstjórnar bíður nokkurt verkefni að fara yfir þessar áhugverðu umsóknir á næstu vikum,“ segir Hjörleifur Finnsson, verkefnisstjóri á Flateyri.

Flateyrarsjóðurinn er hluti af sameiginlegu átaksverkefni sem Ísafjarðbær, Vestfjarðastofa og íslenska ríkið stofnuðu til eftir snjóflóðin á Flateyri 2020. Samkvæmt áætlun átti verkefninu ljúka um mitt þetta ár, en Ísafjarðarbær sótti um framlengingu á því um eitt ár til ríkisins, eða til miðs árs 2024, og er að vænta svara frá innviðaráðneytinu um næstu mánaðarmót.