Suðurtangi: Skipulagslýsing vegna breytingar á Aðalskipulagi 2008-2020

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað á 524. fundi sínum þann 7. desember 2023 að breyta Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 á Suðurtanga á Ísafirði. Unnið er að endurskoðun deiliskipulaga á tanganum og var skipulagslýsing vegna þeirra breytinga kynnt frá 5. október 2023 til og með 6. nóvember 2023 og send umsagnaraðilum til umsagnar. Deiliskipulagsbreytingarnar á Suðurtanganum kalla á aðalskipulagsbreytingu.

Unnið er að heildarendurskoðun Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008-2020 en í ljós hefur komið að ekki er svigrúm til að bíða eftir gildistöku þess og því er farið í þessa aðalskipulagsbreytingu.

Hvati skipulagsbreytinga á Suðurtanga er aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og fyrrnefndum deiliskipulögum er ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, einkum í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi. Skapa þarf rými fyrir þessar og aðrar atvinnugreinar og samræma sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Ísafjarðarhöfn hefur þróast úr því að vera fyrst og fremst fiskihöfn yfir í það að þjóna fjölbreyttri flóru báta og skipa í takt við stefnu bæjarins og hafnarinnar.

Aðalskipulagsbreytingin er unnin samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.

Skipulagsgerðin er háð lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Ráðgjafi við skipulagsgerðina er Verkís.

Skipulagslýsingin er aðgengileg á bæjarskrifstofum, Hafnarstræti 1, Ísafirði, í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar frá 8. desember 2023 til 5. janúar 2024, og hér fyrir neðan.

Skipulagslýsing

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við tillöguna á kynningartíma. Athugasemdum skal skilað í Skipulagsgáttina eða senda skriflega til Ísafjarðarbæjar, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði, b.t. skipulagsfulltrúa eða á skipulag@isafjordur.is.

Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar