Stefnir áfram í góðan afgang hjá Ísafjarðarbæ
Hálfsársuppgjör Ísafjarðarbæjar var lagt fyrir bæjarráð 1. september. Uppgjörið sýnir að afgangur á rekstri A-hluta stefnir í að vera tæpar 200 m.kr. fyrir árið. Afgangur af rekstri í samanlögðum A- og B-hluta stefnir í að vera í kringum milljarð, en báðar tölur eru betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Það er gott að sjá að þrátt fyrir að ýmislegt gangi á í rekstri víðfeðms sveitarfélags séu plúsarnir og mínusarnir svipað stórir og niðurstaðan því að mestu í samræmi við áætlun. Skuldir lækka og það stefnir í að í nóvember fari skuldahlutfall sveitarfélagsins undir 100%, í fyrsta skipti í sögu þess,“ segir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs.
„Þessi niðurstaða er sannarlega góð en við höfum auðvitað þurft að forgangsraða þeim verkefnum sem ráðist er í og þannig verður það áfram. Niðurstaðan er gott veganesti inn í gerð fjárhagsáætlunar 2026. Með nýsamþykktum breytingum á reiknireglum Jöfnunarsjóðs má búast við að rekstur styrkist enn frekar á næstu árum.“
Annar ársfjórðungur sýnir nú rekstrarafgang A- og B-hluta upp á 1.098 m.kr. fyrir janúar til júní 2025. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 1.020 m.kr. Rekstrarafgangur er því 79 m.kr. hærri en áætlað er.
Rekstrartekjur A- og B-hluta eru hærri en áætlun gerir ráð fyrir sem nemur 55 m.kr. og rekstrargjöld eru lægri en áætlun gerir ráð fyrir sem nemur 32 m.kr.
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 31 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerir ráð fyrir og söluhagnaður er 24 m.kr. hærri en áætlun.
Ef A-hluti er skoðaður sér, er rekstrarafgangur 11 m.kr. hærri en áætlað var.
Þar sem tekjur og gjöld falla með ólíkum hætti innan ársins gefur hálfsársuppgjörið upp á 643 m.kr. afgang ekki góða heildarmynd. Ef allt árið er skoðað má sjá að fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að árinu verði lokað með 194 m.kr. afgangi, og er sveitarfélagið því á góðri leið að skila afgangi öðru hvoru megin við 200 m.kr.