Nýjar úthlutunarreglur fyrir íþróttamannvirki Ísafjarðarbæjar

Bæjarstjórn hefur samþykkt nýjar reglur um úthlutun æfinga- og keppnistíma, sem og styrkveitingar til íþróttafélaga og almennings, í íþróttamannvirkjum og á íþróttasvæðum Ísafjarðarbæjar.

Reglurnar voru samþykktar á 554. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 5. júní 2025 og er markmið þeirra að tryggja að kostnaður vegna aðstöðu til íþróttaiðkunar barna og unglinga falli ekki á þau eða fjölskyldur þeirra. Þá er einnig lögð áhersla á að styðja við afreksíþróttir innan aðildarfélaga Héraðssambands Vestfirðinga (HSV), og að kostnaður vegna notkunar mannvirkja verði sýnilegur í rekstri þeirra.

Styrkhæf samkvæmt reglunum eru:

  • Börn og unglingar 19 ára og yngri.
  • Meistaraflokkar í íþróttum með virkt barna- og unglingastarf.
  • Meistaraflokkar í efstu deild.
  • Íþróttahópar fatlaðra.

Ekki er veittur styrkur vegna æfinga fyrir öldunga („bumbubolta“).

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd fer með úthlutun á grundvelli umsókna aðildarfélaga HSV og þess tíma sem er í boði. Úthlutunartímabil skiptist í vetrarönn (til 31. maí) og sumarönn (frá 1. júní). Umsóknarfrestir eru 1. júní fyrir vetur og 1. apríl fyrir sumar. Ef æfingatímar eru illa nýttir getur nefndin ráðstafað þeim annars staðar. Skráning mætinga og virk upplýsingagjöf eru nauðsynleg forsenda styrkveitinga.

Forgangsröð við notkun íþróttamannvirkja er:

  1. Grunn- og framhaldsskólar.
  2. Íþróttaskóli Ísafjarðarbæjar.
  3. Íþróttafélög.
  4. Lýðskólinn á Flateyri.
  5. Almennir notendur.

Reglur um styrkveitingu og úthlutun tíma til íþróttafélaga og almennings í íþróttamannvirkjum og -svæðum Ísafjarðarbæjar