Kynning á nýrri íbúðarbyggð við Tunguhverfi á Ísafirði

Möguleg útfærsla á byggð í innra Tunguhverfi. Mynd: Verkís.
Möguleg útfærsla á byggð í innra Tunguhverfi. Mynd: Verkís.

Vinna við gerð deiliskipulags vegna nýrrar íbúðarbyggðar við Tunguhverfi á Ísafirði var kynnt á síðasta fundi skipulags- og mannvirkjanefndar.

Vinnan er í höndum Verkís og lögðu fulltrúar þess fram ítarlega samantekt með hugmyndum um hönnun á svæðinu, greiningum á byggingarhæfi, vindafari og flóðamati.

Samantekt Verkís

Í samantektinni kemur fram að markmið við hönnun nýju byggðarinnar er að móta vandað nýtt íbúðarhverfi sem tekur mið af aðliggjandi íbúðarbyggð og hefur sterk tengsl við útivistarsvæðin í Tungudal, sem og náttúru og sögu svæðisins, í samræmi við áherslur gildandi aðalskipulags.

Gert er ráð fyrir að svæðið rúmi allt frá 75-100 íbúðir, eftir því hvaða skipulag verður fyrir valinu.

Áherslur við hönnunina eru meðal annars skynsöm nýting lands og sjálfbærni, með lágreistri en þéttri byggð. Gert er ráð fyrir að uppbygging verði áfangaskipt, með fjölbreyttum íbúðum í hverjum áfanga; einbýli, parhús, raðhús, tveggja hæða fjölbýli með 4-10 íbúðum.

Meðal annarra áherslna má nefna:

  • Hannað með tilliti til veðuraðstæðna
  • Blágrænar ofanvatnslausnir
  • Leikvellir, íþróttasvæði, græn svæði innan hverfis
    • Nýtist einnig fyrir núverandi byggð
  • Gönguleiðir innan hverfis og göngu- og hjólaleið út úr hverfi
  • Tengsl við aðliggjandi íbúðarbyggð og útivistarsvæði
  • Draga úr umferðarhraða með gatnahönnun
  • Auðveldur snjómokstur

Í úttekt veðurfræðings kemur fram að svæðið er einkar hægviðrasamt: „Í byggðum landsins er óvíða að finna svo hægan vind að jafnaði sem mælingar í Tungudal gefa til kynna.“

Næstu skref í ferlinu er að útfæra tillöguna nánar til að hægt sé að hefja formlegt skipulagsferli, en þá gefst íbúum tækifæri til að gera athugasemdir við skipulagið.

Gert er ráð fyrir að kynning á vinnslustigi hefjist í nóvember 2025, auglýsing tillögu fari fram í desember 2025-janúar 2026 og gildistaka verði í mars eða apríl 2026.