Kynning á áformum um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum

Mynd: Umhverfisstofnun
Mynd: Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun, ásamt samstarfshópi sem vinnur að undirbúningi friðlýsingar, hefur hafið kynningu á áformum um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, skv. 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðið nær m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgils og Hrafnseyrar.

Í janúar 2020 skipaði Umhverfisstofnun samstarfshóp um undirbúning friðlýsingar á svæði Dynjanda og nágrennis. Í upphafi var hópurinn skipaður fulltrúum sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en síðar í ferlinu var ákveðið að stækka samstarfshópinn og fá inn fulltrúa frá forsætisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Landgræðslusjóði.

Í samstarfshópnum sitja nú:

Freyja Pétursdóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar
Edda Kristín Eiríksdóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar
Birgir Gunnarsson, fulltrúi Ísafjarðarbæjar
Rebekka Hilmarsdóttir, fulltrúi Vesturbyggðar
Rúnar Leifsson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins Sigurður Örn Guðleifsson, fulltrúi forsætisráðuneytisins
Steinar Kaldal, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins Þuríður Yngvadóttir, fulltrúi Landgræðslusjóðs

Nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfisstofnunar en hér fyrir neðan eru nokkur atriði tekin saman.

Aðkoma íbúa að ákvarðanatöku

Að sögn Freyju Pétursdóttur, fulltrúa Umhverfisstofnunar í hópnum, er mikilvægt að fá fram skoðanir og athugasemdir íbúa til að allir gangi sáttir frá verkefninu. Í friðlýsingarferlinu er verkefnið tvisvar kynnt opinberlega til þess að auglýsa verkefnið fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér það og senda inn athugasemdir eða spurningar.
Fyrri auglýsingartíminn er átta vikur og þá er verið að auglýsa svokölluð áform um friðlýsingu. Þegar áform um friðlýsingu eru auglýst er verkefnið enn stutt komið og fáar ákvarðanir hafa verið teknar, en þó er á þeim tímapunkti komin hugmynd um

a) friðlýsingarflokk (þjóðgarður, friðland, náttúruvætti o.s.frv.)
b) mörk svæðisins
c) markmið friðlýsingarinnar, þ.e.a.s. hvað á að vernda, hvaða þætti á að leggja áherslu á.

Íbúar geta sent inn athugasemdir og ábendingar á vef Umhverfisstofnunar.

Athuga skal að þó að ákveðin friðlýsingarflokkur og mörk eru auglýst þá er hægt að breyta þeim seinna í ferlinu.
Seinni auglýsingartíminn er þrír mánuðir og þá eru drög að friðlýsingarskilmálum kynnt. Sú kynning fer fram á sama hátt og sú fyrri, í dagblöðum á landsvísu, svæðismiðlum, heimasíðum og fleira. Almenningur er þá hvattur til að senda inn spurningar og athugasemdir.

Flokkar friðlýsinga

Friðlýsingar geta verið með ýmsu móti og reglur á friðlýstum svæða eru ekki alltaf þær sömu. Af þeim ástæðum eru til fjölbreyttir friðlýsingarflokkar sem eru notaðir í samræmi við þau markmið og þá skilmála sem samráðshópur um friðlýsingu ákveður fyrir hvert svæði. Á vef Stjórnarráðsins má lesa um þá níu friðlýsingarflokka sem notast er við á Íslandi en þeir eru eftirfarandi: Náttúruvé, óbyggð víðerni, þjóðgarðar, náttúruvætti, friðlönd, landslagsverndarsvæði, verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, fólkvangar, friðlýsing svæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, friðlýsing heilla vatnakerfa.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem talin eru njóta ákveðinnar sérstöðu úrfrá náttúru eða menningu. Þar kemur einnig fram að þjóðgarðar og reglurnar sem gilda innan þeirra eru mismunandi og þegar svokallaðir friðlýsingarskilmálar eru samdir þá er það gert í náinni samvinnu við samstarfshóp verkefnisins.

Vinna samstarfshóps

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun sneri vinnan sem átt hafði sér stað áður en hópurinn var stækkaður að því að fara yfir verkferil friðlýsinga og ræða mögulegan grundvöll friðlýsingar. Hlutverk hópsins sem hefur tekið vinnuna áfram er að vinna fram frekari tillögur um friðlýsinguna og draga fram af hverju hugmynd um þjóðgarð er til skoðunar. Sú vinna felst m.a. í að koma með tillögu að mörkum og fjalla um þau atriði sem gera svæðið sem um ræðir einstakt m.t.t. náttúru, sögu og menningar. Einnig mun nefndin velta upp hvaða atriði þarf að hafa sérstaklega í huga á þessu svæði, t.d. hvernig því verður stjórnað, hvaða uppbygging geti átt sér stað, landvarsla, o.fl.  

Ferlið hjá Ísafjarðarbæ

Á 458. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, þann 4. júní sl., var lögð fram tillaga bæjarstjóra um að bæjarstjórn leggi til að landsvæði í kringum Dynjanda verði friðlýst sem þjóðgarður, og að sú afstaða verði lögð fram á fundi samstarfshóps um friðlýsingar á Vestfjörðum innan marka Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar. Málinu var frestað til 459. fundar bæjarstjórnar en þá var lögð fram tillaga bæjarstjóra um að bæjarstjórn fresti ákvörðun um friðlýsingu við Dynjanda þar til bæjarfulltrúar hafi fundað með sérfræðingi Umhverfisstofnunar vegna málsins, og að málinu verði frestað þar til bæjarstjórn hefur störf aftur að hausti.

Í lok júní fengu bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar kynningu á því hver reynslan hefur verið af þjóðgarði á Snæfellsnesi og hver áhrifin hafa verið á byggðina á svæðinu. Þar kom meðal annars fram að í framhaldi af stofnun þjóðgarðsins árið 2001 hafi verið gerð verndaráætlun fyrir svæðið og unnið skipulag á stýringu á umferð að og innan svæðis. Þar var einnig farið í uppbyggingu á göngustígum og bílastæðum í og við áhugaverða staði auk þess sem áningastöðum og aðstöðuhúsum var komið upp við áhugaverði staði innan svæðisins.