Ingvar Friðbjörn Sveinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2025

Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur útnefnt handverks- og listamanninn Ingvar Friðbjörn Sveinsson sem bæjarlistamann 2025.

Útnefningin fór fram í Netagerðinni, skapandi vinnustofum, á Ísafirði laugardaginn 25. október, sem hluti af dagskrá Veturnótta.

Rökstuðningur menningarmálanefndar:

Með ótrúlegri nákvæmni, þolinmæði og listrænni sýn hefur Ingi Bjössi skapað líkön af skipum og togurum sem bera með sér sögu sjávarútvegs, menningar og mannlífs við strendur Vestfjarða.

Líkönin eru brú milli fortíðar og nútíðar, þar sem hugsað er út í hvert smáatriði. Frumlegt og skapandi efnisval við smíðina vekur verkin til lífs og sýnir mikla færni og virðingu fyrir arfleifð okkar og sögu.

Með verkum sínum sýnir Ingi Bjössi að listin býr fyrst og fremst í næmum höndum og hjarta listamannsins.

Það er von menningarmálanefndar að útnefning Inga Bjössa til bæjarlistamanns verði honum hvatning til frekari sköpunar og íbúum hvatning til að kynna sér verk hans.