Gjaldskrár 2024 — samantekt

Uppfærðar gjaldskrár Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024 taka gildi þann 1. janúar. Miðað var við að almenn hámarkshækkun á gjaldskrám væri 6% í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendir sveitarstjórnum.

Sem fyrr var einnig horft til hækkunar verðlags og að greiðsla fyrir ákveðna þjónustu taki mið af kostnaði, s.s. varðandi matarinnkaup, útköll starfsmanna og leyfisgjöld. 

Helstu breytingar á gjaldskrám:

Gjaldskrá fyrir skólamat helst óbreytt og mun framvegis taka breytingum við upphaf skólaárs, í stað áramóta.

Systkinaafsláttur af leikskólagjöldum og í dægradvöl hefur verið hækkaður úr 30% í 40%.

Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs hækkar um 15% og er það til að standa undir kostnaði við sorphirðu og -eyðingu. Þá hefur verið samþykkt að setja skrefagjald þar sem sorpílát eru meira en 10 metra frá lóðamörkum. Gjaldið verður innheimt frá 1. september 2024 til að íbúar geti nýtt sumarið í að gera varanlegar ráðstafanir vegna staðsetningu sorpíláta.

Allar gjaldskrár Ísafjarðarbæjar