Endurnýjun lóðar á leikskólanum Sólborg
Til stendur að fara í miklar endurbætur á lóðinni við leikskólann Sólborg á Ísafirði.
Bæjarráð samþykkti á 1328. fundi sínum að bjóða verkið út, en í því felst meðal annars að útbúa sérstök aðkomusvæði, leiksvæði og dvalarsvæði á lóðinni. Landið verður mótað þannig að stór hluti lóðarinnar verði sléttur með góðu aðgengi að öllum inngöngum og svæðum.
Leiksvæðin á lóðinni verða aðskilin og skjól myndað með landmótun og yfirborðsgerð til að skapa fjölbreytt og öruggt umhverfi til leiks. Hluti verksins felst einnig í uppsetningu leiktækja og annars búnaðar, auk þess sem rimlagirðing verður sett upp og skjólveggir smíðaðir.
Yfirborð lóðarinnar verður klætt með hellum, steinum, timbri, grasi og fallvarnarefni, eftir því sem við á. Þá verður endurnýjun gróðurs einnig hluti af framkvæmdinni, en tré og runnar sem þegar eru á lóðinni verða nýttir eftir því sem frekast er unnt.
Drög að grunnmynd af hönnun lóðarinnar við Sólborg.