Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 51

Aðfangadagsmessan sungin í Suðureyrarkirkju.
Aðfangadagsmessan sungin í Suðureyrarkirkju.

Dagbók bæjarstjóra dagana 22. – 28. desember 2025, í 51. viku í starfi.

Stutt vinnuvika og það komu jól! Gleðileg jól!

Á mánudag hittist byggingarnefnd slökkvistöðvar. Við fórum yfir fundargerð verkfundar vegna hreinsunar lóðarinnar. Það verður að segjast eins og er að veðrið er alveg búið að vera með okkur í liði hvað þennan verkhluta varðar, enginn snjóbylur eða vesen. Aðaluppdrættir voru lagðir fram sem og minnisblað sviðsstjóra. Nefndin ákvað að færa mannvirkið um sem nemur sex metrum nær Húsasmiðjunni. Hún fól starfsmanni að sækja um byggingarleyfi þannig að byggingarfulltrúi geti farið að rýna gögnin. Undirbúningur plötuprófs vegna púða, í samstarfi við fagaðila, er einnig á verkefnalista starfsmanns nefndarinnar og undirbúningur vegna vinnu við útboðsgögn vegna sökkla, plötu og lagna. Þetta er spennandi og skemmtilegt verkefni.

Við neyddumst til að loka Sundhöllinni á Ísafirði frá og með Þorláksmessu. Loftræstingin og hreinsunarbúnaðurinn að niðurlotum kominn. Við erum sem betur fer með það á framkvæmdaáætlun að endurnýja búnaðinn á komandi ári og er verið að panta aðföng í það verkefni.

Þessi stutta vinnuvika nýttist í ýmislegt snatt, að hnýta lausa enda, taka til í tölvupóstinum og að „skjala“ var á verkefnalistanum.

Á Þorláksmessudag fór ég í morgunkaffi í áhaldahúsið og í hádeginu fór ég í skötuveislu í Guðmundarbúð. Þetta er í 21. sinn sem félagsfólk Björgunarfélags Ísafjarðar stendur fyrir skötuveislu og er því orðin ómissandi hefð í aðdraganda jóla. Ég lét það ekki duga og fór einnig um kvöldið í skötu til Björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri. Á báðum stöðum voru baukar og fólk hafði því tækifæri til að leggja björgunarsveitunum lið.


Á Þorláksmessu, morgunkaffi í áhaldahúsi.


Í skötuveislu á Ísafirði.


Grétar og Sæmundur í skötuveislu á Suðureyri.

Á Þorláksmessukvöld var jólaskinkan tekin úr pækli, henni komið fyrir í bakaraofninum og steikt við 75°C í 12 klukkustundir! Eftir það var puran tekin af, kjötið penslað með blöndu sem samanstóð af eggi, púðursykri og sinnepi. Þá var það brúnað við háan hita í ofninum í örskamma stund. Þar með var kjötið klárt og svo var allt annað mallað í rólegheitum yfir daginn.


Svínslærið tekið úr pækli á Þorláksmessukvöld og sett í ofn...


Svínslærið sett í ofn... þar fékk það að damla í ríflega 12 klukkustundir.


Eftir að svínslærið hafði fengið að dúsa í góða 12 klukkutíma var það tekið út, purunni flett af og því næst var kjötið penslað með sinnepi og púðursykri og brúnað.


Jólaskinkan klár.

Svo komu jólin. Við sungum jólin inn kl. 18 á aðfangadag við messu í Suðureyrarkirkju. Að því búnu borðuðum við góðan mat, hefðbundna baunasúpu í forrétt, jólaskinkuna góðu og ris a la mande í desert. Pakkar, ó já. Jólin hafa síðan einkennst af afslöppun, útivist, samveru, lestri og prjóni.

Við fórum ekki í jólaköttinn í ár.


Á jóladag - hefði eins getað verið septemberdagur.

Ég setti niður túlipanalauka á jóladag, það er spes...


Við héldum smá fjölskylduboð á öðrum degi jóla.

Vikan kláraðist með stæl í kvöld á áramótatónleikum Karlakórsins Heimis – skagfirska hjartað slær og mikið sem það var gaman að sjá og heyra í kórnum og hitta allt þetta fólk!


Brunuðum Í Skagafjörðinn og náðum að taka skokkæfingu fyrir tónleika með Karlakórnum Heimi.


Karlakórinn Heimir - magnaðir. Gaman að sjá hve aldurbilið er breitt og enn skemmtilegra að heyra og sjá ungu söngvarana njóta sín. Takk fyrir mig snillingar!

Haldið áfram að njóta hátíðanna. Við hjónin ætlum að verja áramótunum með stórfjölskyldunni í Skagafirði.