Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 38

Við Védís yfirbókari Ísafjarðarbæjar að vinna í vinnubókum fyrir fjárhagsáætlunargerð.
Við Védís yfirbókari Ísafjarðarbæjar að vinna í vinnubókum fyrir fjárhagsáætlunargerð.

Dagbók bæjarstjóra dagana 22.-28. september 2025, í 38. viku í starfi.

Full vika af af allskyns verkefnum. Grunnvinna í fjárhagsáætlunargerð er á lokametrunum og við sjáum fram á að halda plani hvað það varðar.

Við höfum verið að undirbúa okkur undir endurbætur á Stjórnsýsluhúsinu innandyra. Í vetur á að skipta um loftaplötur, einangrun og ljós í byggingunni allri, þá er verið að endurbæta þakið á löggustöðinni (svalirnar hjá skrifstofunni minni). Það þarf einnig að ráðast í endurbætur á þaki Stjórnsýsluhússins alls en nú er verið að skoða umfang og eðli þeirra viðgerða. Af þessum sökum munum við þurfa að flytja út af skrifstofunum okkar tímabundið í vetur, en sviðin munu skiptast á að fá flytja út í bráðabirgðahúsnæði á meðan á endurbótum stendur. Á fjórðu hæð á Hlíf er opið rými sem er ekki í notkun og munum við útbúa þar vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk á meðan á endurbótum stendur.

Ég tók einn langan vinnudag í borginni í vikunni en sá dagur snerist um afnám tollfrelsins á skemmtiferðaskip og innviðgjöld, áhrif þeirra á tekjur sveitarfélaganna sem og samfélagslegt tap sem endurspeglast í áhrifum á ferðaþjónustufyrirtæki með fækkandi skipakomum á næstu árum. Þau sem skipulögðu þessa fundi var Cruise Iceland en til fundanna mættu fulltrúar frá fimm skipafélögum, fulltrúi frá CLIA sem sem eru samtök skemmtiskipafélaga og fulltrúar frá nokkrum sveitarfélögum. Öll áttum við fundi með nokkrum þingmönnum en í heildina var um að ræða þriggja daga fundatörn og hafa náðst líklega fundir með um tuttugu þingmönnum. Mér fannst þessir fundir gagnlegir og ég ætla sannarlega að vona að við höfum náð eyrum þeirra þingmanna sem mættu en það kemur í ljós í meðhöndlun þingsins á fjármálafrumvarpi.

Fólk við fundarborð. Níu manns í heildina.
Frá einum af þingmannafundum vikunnar (skemmtiferðaskipin).

Svo voru síðan allskonar fundir í vikunni og stikla ég á stóru þar. Fínn fundur með stjórnendum Eimskips þar sem rædd var starfsemi fyrirtækisins hér fyrir vestan. Góður fundur með Eflu og Orkubúinu varðandi lagningu strengs frá tengivirkinu inni í firði til Súðavíkur, en hugmyndin er að nýta tækifærið og útbúa göngustíg á lagnaleiðinni út að bílastæðinu neðan Naustahvilftar.
Aðalfundur Byggðasafns Vestfjarða fór fram í vikunni. Við Margrét Geirs fengum góða kynningu frá Unicef um Barnvæn sveitarfélög. Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi.

Fundarfólk frá Ísafjarðarbæ og Eimskip stilla sér upp fyrir framan merki Ísafjarðarbæjar í afgreiðslu sveitarfélagsins í Stjórnsýsluhúsinu.
Frá fundi með Eimskipsfólki, frá vinstri: Hilmar, Jóhanna, Edda, Hilmar hafnarstjóri, ég og Villi.

Það voru ýmsir vinnufundir, til dæmis varðandi þjónustustefnuna, svæðisskipulag Vestfjarða og byggingarnefnd slökkvistöðvar fundaði svo í lok vikunnar.

Helgin trompaði vikuna en hún var tileinkuð einu af áhugamálum mínum, prjóni. Fyrir ári síðan skipulögðum við Guðlaug (vinkona mín) prjónahelgi á Suðureyri. Hún heppnaðist vel og ákváðum við því að endurtaka leikinn og nú var bara komið að þessu. Við gerðum eins og í fyrra, buðum upp á morgunleikfimi, fórum í sjósund, þá var einnig sundleikfimi, fyrirlestur um rétta líkamsstellingu þegar prjónað er, garnkynning frá Vatnsnes-yarn, góður matur og svo var prjónað eins og vindurinn. Þetta var skemmtileg tilbreyting frá amstri dagsins, frábær félagsskapur, virkilega gaman og verður endurtekið.

Hópur kvenna að prjóna í matsal Fisherman á Suðureyri.
Prjónakonur í aksjón á Suðureyri.

Hópur prjónakvenna í fjörunni, tilbúnar í sjósund.
Prjónakonur á leið í sjósund á sunnudagsmorgni, hressandi.

Prjónakonur í hring í sundleikfimi í sundlauginni á Suðureyri.
Prjónakonur í sundleikfimi.

Prjónakonurnar allar saman fyrir utan Fisherman á Suðureyri.
Allflestar þeirra kvenna sem vörðu helginni á Suðureyri við prjón.

Það sem gerði þetta einnig skemmtilegt var að á laugardeginum héldu Hollvinasamtök félagsheimilisins á Súganda markaðstorg til að safna fyrir endurbótum á félagsheimilinu. Þar kom fólk og seldi allskonar varning og þær létu ekki sitt eftir liggja mínar konur. Mikið líf og fjör á Súganda semsagt.

Salurinn í félagsheimilinu á Suðureyri, séð ofan frá. Söluborðum er raðað eftir veggjum.
Frá markaðnum í félagsheimilinu á Súganda.

Íþróttavika Evrópu er haldin 23. – 30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Af því tilefni verða fjölbreyttir íþróttaviðburðir í boði í Ísafjarðarbæ. Allir viðburðir eru ókeypis. Sviðsstjórar, bæjarritari, mannauðsstjóri og ég fórum af því tilefni í hádeginu einn daginn og prófuðum hreystitækin sem eru á Torfnesi. Endilega kannið þetta og nýtið ykkur!

Margrét Geirsdóttir prófar tæki á hreystivellinum fyrir neðan Hlíf. Hafdís Gunnarsdóttir er vinstra megin á myndinni.
Hafdís Gunnars og Margrét Geirs á hreystivellinum.

Framundan er spennandi vika, njótið!