Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 2

Maria Kozak í bogfimideild Skotís var útnefnt ein af tveimur efnilegustu íþróttamönnum Ísafjarðarbæj…
Maria Kozak í bogfimideild Skotís var útnefnt ein af tveimur efnilegustu íþróttamönnum Ísafjarðarbæjar 2023.

Dagbók bæjarstjóra 8.-14. janúar 2024.

Verkefni vikunnar eru eitthvað svo léttvæg miðað við þessar óhugnanlegu náttúruhamfarir sem eiga sér stað í Grindavík. Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum og vonum að allt fari vel. Þetta er í senn svo ólýsanlegt og hræðilegt. Ég eins og flestir hef verið föst á öllum miðlum í dag að fylgjast með og trúi varla að þetta sé að gerast. Það sem við erum vanmáttug þegar náttúruöflin taka yfirhöndina.

Það hefur alls konar verið í gangi þessa vikuna, fjölbreytt viðfangsefni eins og oft er. Bæjarráð fór rólega af stað á nýju ári, en fyrsta mál á dagskrá var að ræða þjónstustig á Torfnesvelli. Baldur mannauðsstjóri kom til fundar við bæjarráð og fór yfir úttekt á jafnlaunavottun. Það er búið að framkvæma launagreiningu hjá Ísafjarðarbæ og niðurstöður benda til þess að launamunur milli kynja sé innan markmiða, 3,5% og í raun svo til enginn. Bæjarráð fór yfir úrskurð umhverfis- og auðlindanefndar vegna Gamla Gæsló, en málinu var vísað frá nefndinni. Mér var falið að ræða við Verkís sem hannaði svæðið og kanna hvort að hægt sé að koma betur til móts við sjónarmið íbúa sem vilja færa fyrirhugaða aparólu fjær húsum sínum. Það hef ég þegar gert og við bíðum nú eftir nýrri tillögu.
Haldinn var fundur í stjórn Byggðasafnsins, þar sitjum við Bragi Þór úr Súðavík og Jón Páll úr Bolungarvík í stjórn fyrir hönd okkar sveitarfélaga. Jóna Símonía forstöðukona safnsins dekrar svoleiðis við okkur að hún býður alltaf upp á dýrindis súpur þegar stjórnin fundar.

Ég átti fund með Sunnu, formanni hverfisráðsins á Flateyri og Hrönn verkefnisstjóra um mál tengd Flateyri.

Stjórn Fiskeldissjóðs boðaði sjókvíaeldissveitarfélög á fund til að fara yfir reglur um úthlutun ársins. Í drögum að nýjum lögum um lagareldi eru boðaðar breytingar á þessum sjóði sem sveitarfélögin hafa kallað eftir. Í ár verður þó úthlutað eftir gamla fyrirkomulaginu, sveitarfélögin senda inn umsóknir og vona það besta.

Fundur með Vestfjarðastofu til að undirbúa ungmennaþing Vestfjarða sem fyrirhugað er að halda á Ísafirði á vormánuðum. Þar er ungmennum frá öllum Vestfjörðum stefnt saman til þings sem þau sjá að mestu leyti sjálf um að skipuleggja.

Ég átti svo beint í framhaldinu annan fund með Vestfjarðastofu og Hilmari og Heimi á höfninni um komur skemmtiferðaskipa 2024, stefnu í málaflokknum og skemmtiskipasjóð sem er í undirbúningi.

Verkefnastjórn Flateyrarsjóðsins fundaði í vikunni til að fara yfir síðustu úthlutun verkefnisins. Það bárust 29 umsóknir í sjóðinn og virkilega gaman að sjá frumkvöðlakraftinn og hugmyndaauðgina. Stjórnin tekur sér nokkrar vikur að yfirfara umsóknirnar og stefnt er að úthlutun í febrúar.

Stjórn Hvetjanda kom saman í fyrsta sinn eftir aðalfund og skipti með sér verkum. Í stjórninni sitja ég og Neil Shiran fyrir Ísafjarðarbæ, Viktoría Rán frá Ströndum, Jón Páll frá Bolungarvík og Guðbjörg frá Byggðastofnun. Þess má geta að við öll nema Guðbjörg eru gamlir starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Nýr formaður er Shiran sem tekur við af Jóni Páli.

Ég hef verið að taka viðtöl vegna nýs starfs íþrótta- og æskulýðsfulltrúa en fjögur sóttu um starfið. Starfið byggir á nýjum samningi við HSV.

Ég drakk morgunkaffi með hluta af þingflokki Pírata sem voru heimsókn á Vestfjörðum. Það var líka fundur í stjórn Samfylkingarinnar, og þó nokkrir fundir um atvinnu- og samgöngumál.

Elmar Atli Garðarsson, íþróttamaður ársins, með verðlaunagrip, viðurkenningarskjöl og blóm í fanginu.
Elmar Atli Garðarsson, íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023.

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar og þau efnilegustu voru útnefnd í gær í veglegu hófi sem Skíðafélag Ísfirðinga átti heiðurinn af. Þetta var stór hópur fólks saman kominn að fagna árangri íþróttafólksins okkar. Elmar Atli Garðarsson knattspyrnumaður úr Vestra og fyrirliði er íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023. Hann stýrði liðinu beint upp í Bestu deildina! Tvö voru útnefnd sem efnilegustu íþróttamenn Ísafjarðarbæjar. Maria Kozak fyrir árangur í sinn í bogfimi og Sverrir Bjarki Svavarsson fyrir árangur sinn í blaki. Sigmundur Þórðarson, guðfaðir Hörfungs á Þingeyri, fékk sérstök heiðursverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Ég verð á faraldsfæti lungann úr næstu viku — það er enginn lognmolla.