Nýr samstarfssamningur við HSV

Bæjarstjórn hefur samþykkt nýjan samstarfssamning milli Ísafjarðarbæjar og Héraðssambands Vestfirðinga. Breytingarnar á samningnum eru að frumkvæði íþróttahreyfingarinnar og var samningurinn borinn undir alla formenn íþróttafélaga innan HSV og samþykktur einróma á formannafundi HSV og af stjórn HSV.

Markmið samningsins er að viðhalda öflugu íþróttastarfi á svæðinu og góðu samstarfi og samráði HSV og Ísafjarðarbæjar. Einnig að tryggja að íþróttahreyfingin hafi greiðan aðgang að starfsfólki Ísafjarðarbæjar sem annast íþrótta- og lýðheilsumál.

Helstu verkefni sem falla undir samninginn eru umsjón með afreksmannasjóði og þjálfarastyrk Ísafjarðarbæjar, að HSV verði umsagnaraðili í málum tengdum íþróttastarfi og íþróttamannvirkjum í
sveitarfélaginu og að starfsmaður skóla- og tómstundasviðs á sviði íþrótta- og æskulýðsmála aðstoði stjórn HSV við úthlutun lottótekna sem og við skipulag og undirbúning ársþings HSV.

Breytingar sem hafa orðið frá fyrri samningum er að staða framkvæmdastjóra HSV færist til Ísafjarðarbæjar og verður staðan auglýst á næstunni. Þá færist íþróttaskóli HSV til Ísafjarðarbæjar og heldur yfirþjálfari skólans áfram störfum sínum. Íþróttaskólinn heldur áfram starfsemi sinni í góðu samstarfi við íþróttafélögin en skólinn er mikilvæg leið til að öll börn í 1.-4. bekk hafi jafnan aðgang að íþróttaiðkun með því að tryggja lág æfingargjöld og að æfingar fari fram fyrir kl. 16 á virkum dögum. 

Framlag Ísafjarðarbæjar til íþróttahreyfingarinnar með nýjum samningi er hið sama og í eldri samningi, að teknu tilliti til vísitöluhækkana. Ísafjarðarbær hefur fjármagnað rekstur skrifstofu HSV, laun framkvæmdastjóra HSV og yfirþjálfara HSV. Gert verður ráð fyrir þessum kostnaði innan reksturs Ísafjarðarbæjar.

Samstarfssamningur Héraðssambands Vestfirðinga og Ísafjarðarbæjar