COVID-19: Sundlaugar opna aftur 18. maí

Athugið að upplýsingar um opnun Þingeyrarlaugar hafa verið uppfærðar!

Mánudaginn 18. maí opna sundlaugar aftur, þó með einhverjum takmörkunum og undantekningum. Fyrst um sinn er miðað við að fjöldi gesta verði helmingur leyfilegs hámarksfjölda á hverjum sundstað, sem þýðir að hámarksfjöldi er um 20-30 manns, eftir sundlaug. Takmarkanirnar verða svo rýmkaðar í skrefum fram að 15. júní þegar gert er ráð fyrir 100% fjölda gesta.

Eins og fram hefur komið er stefnt að viðamiklum viðgerðum á þaki sundlaugarinnar á Flateyri, auk annars viðhalds á húsnæði, og því verður eingöngu útisvæði og pottar opnir þar.

Þá gengur hægt að hita sundlaugarvatnið á Þingeyri þannig að ekki verður opnað þar fyrr en að morgni þriðjudagsins 19. maí.

Enn er í gildi vetraropnun í sundlaugunum en sumaropnun hefst 1. júní á Þingeyri og 3. júní á Flateyri, Ísafirði og Suðureyri.

Viðgerðir á meðan lokað var

Eins og sjá má á myndunum sem þessari frétt fylgja var ráðist í margvíslega viðhaldsvinnu í sundlaugunum á Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri á meðan lokað var vegna COVID-19.

Á Þingeyri var laugarkarið yfirfarið, innipottur málaður, stál sett á dyrakarma, skipt um spýtur og ljós í sánu auk annarra smáverka. Unnið var að því að koma nýja útipottinum í gagnið og verður hann vonandi vígður í lok næstu viku eða byrjun þarnæstu. Á Suðureyri var skipt um öll þil í sturtuklefum og heiti pottur málaður. Í sundhöllinni við Austurveg var málað auk þess sem skipt var um ýmsan búnað sem tengist dælurými og lögnum, s.s. síu. Þá voru bekkir í klefum endurgerðir og handklæðarekkum, ofnum og ljósum skipt út.