COVID-19: Frá bæjarstjóra

Kæru íbúar Ísafjarðarbæjar,

Eins og fram kom á blaðamannafundi stjórnvalda rétt fyrir hádegi í dag þá hefur verið sett á fjögurra vikna samkomubann sem tekur gildi frá og með mánudeginum 16. mars n.k.

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðbragðsáætlun og mun uppfæra upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins jafnóðum og þær berast. Þannig á t.d. eftir að útfæra nánar með hvaða hætti starfsemi skóla og leikskóla verður. Upplýst verður um það um leið og útfærslan liggur fyrir.

Markmiðin með þeim aðgerðum sem kynnt voru á blaðamannafundinum eru að draga úr faraldrinum og minnka þannig álag á heilbrigðiskerfið.

Mikilvægt er að hafa í huga að enn hefur ekki verið staðfest smit á Vestfjörðum.

Ég vil hvetja íbúa Ísafjarðarbæjar til að sýna almenna skynsemi í samskiptum og fara í einu og öllu að fyrirmælum fagfólks og stjórnvalda. Ég vil líka hvetja íbúa til að halda áfram með sitt daglega líf og stunda áfram þær tómstundir og iðju sem veitir hverjum og einum ánægju.

Kæru íbúar, stöndum saman og verum skynsöm og umfram allt, gætum hvert að öðru. Við komum okkur í gegnum þetta saman.

Fylgist endilega með framvindu mála og frekari upplýsingum hér á heimasíðunni.

Ísafirði, 13. mars 2020
Birgir Gunnarsson 
bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar