Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1065. fundur 18. júní 2019 kl. 08:05 - 09:31 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
  • Kristján Þór Kristjánsson
  • Hafdís Gunnarsdóttir formaður
Starfsmenn
  • Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
  • Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Dagskrá

1.Útsvarsprósenta við álagningu - 2017050014

Hafdís Gunnarsdóttir og Kristján Þór Kristjánsson leggja fram eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkir að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda í Ísafjarðarbæ og koma þannig til móts við stórhækkað fasteignamat í sveitarfélaginu. Þannig verði komið í veg fyrir frekari hækkun fasteignaskatta heimilanna í sveitarfélaginu.

Með þessari ákvörðun vill Ísafjarðarbær axla sína ábyrgð og vinna í takt við nýsamþykkta lífskjarasamninga á vinnumarkaði og stuðla að því að markmið samninganna skili sér til sannarlega til launþega.

Bæjarráð beinir þessari tillögu til vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs en sú vinna er nú í fullum gangi.“
Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúi Í-listans skilur vel vilja til að lækka álögur á íbúa sveitarfélagsins en óskar eftir því að skoðað verði hvaða áhrif þessi tillaga hafi á framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.“

Bæjarráð vísar tilögunni til umræðu í bæjarstjórn.

2.Grunnskólinn á Ísafirði - viðhaldsframkvæmdir - 2019030008

Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, Brynjars Þórs Jónassonar, dagsett 13. júní 2019, þar sem lagt er til að samið verði við Geirnaglann ehf. um viðhaldsframkvæmdir á Grunnskóla Ísafjarðar.
Bæjarráð samþykkir að samið verði við Geirnaglann ehf. um viðhaldsframkvæmdir við GÍ og felur bæjarstjóra að leggja fram viðauka vegna málsins í bæjarstjórn.
Edda María fer af fundi kl. 08:29

Gestir

  • Edda María Hagalín, fjármálastjóri. - mæting: 08:20

3.Grunnskólinn á Ísafirði - endurbætur - 2019030008

Lagt fram bréf Ernu Sigrúnar Jónsdóttur, trúnaðarmanns kennara í GÍ, dagsett 12. júní sl., þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að tryggja að endurbótum á húsnæði Grunnskólans á Ísafirði vegna myglusvepps, verði lokið áður en skólahald hefst í ágúst.
Bæjarráð deilir áhyggjum kennara af stöðu mála og þakkar starfsfólki fyrir ómetanlegt framlag við að greiða úr vandanum. Samþykkt hefur verið tilboð í viðhaldsframkvæmdir og áætluð verklok innanhúss eru 20. ágúst.

4.Skipakirkjugarður - 2018050072

Lögð fram tillaga Sigurðar J. Hreinssonar, bæjarfulltrúa, sem vísað var til bæjarráðs af 438. fundi bæjarstjórnar 6. júní sl.

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fela bæjarstjóra að óska eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp um stofnun vinnuhóps sem hafi það hlutverk að gera staðarvals- og fýsileikakönnun á að koma upp skipakirkjugarði í einhverjum innfjarða Ísafjarðardjúps.

Að baki tillögunni liggja tveir megin þættir, varðveisla menningarverðmæta annnarsvegar og nýsköpun í atvinnulífi hinsvegar.

Sportköfun er afar vinsælt sport á heimsvísu, en til að staðir njóti vinsælda til köfunar þurfa þeir að búa yfir einhverju sérstöku aðdráttarafli. Skipsflök eru slíkt aðdráttarafl og víða um heim eru slíkir staðir afar fjölsóttir og eru þannig lóð á vogarskálar í atvinnulífi svæðanna. Með vel skipulögðum skipakirkjugarði, nákvæmri umhverfisvöktun og ströngum reglum, má byggja upp áningarstað sem dregur fólk víða að og býr til nýja tegund afþreyingar fyrir ferðafólk sem heimamenn.

Menningarverðmæti í tréskipum íslendinga liggja undir skemmdum og á síðustu áratugum hefur miklum fjölda af tréskipum verið fargað á eldi eða niðurbroti. Fjármagn til varðveislu þessara menningarminja er af mjög skornum skammti og því miður fátt sem bendir til þess að breyting verði á því í bráð. Timburskip geymast illa á landi, eins og Skagamenn hafa rækilega sannað, en hinsvegar má finna dæmi um að sokkin timburskip varðveitist ótrúlega vel. Með það í huga að varðveita skip með möguleika á að ná í þau síðar og endurgera, má á næstu árum forða fjölda skipa frá eyðingu og varðveita með þeim hætti mikilvæga þætti í atvinnu- og menningarsögu landsins.“
Bæjarráð óskar eftir því að tillagan verði rædd í sveitarstjórn Súðvíkurhrepps.

5.Fjarðarstræti 57-59 - málefni húsfélagsins - 2019060037

Lagt fram bréf Alberts Haraldssonar og Smára Garðarssonar f.h. húsfélagsins fyrir Fjarðarstræti 57-59, dagsett 4. júní sl., þar sem óskað er eftir aðkomu Ísafjarðarbæjar, sem eiganda að íbúðum í húsinu, að framkvæmdum á lóð þess.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara um málið.

6.Tónlistarskóli Ísafjarðar 2019 - 2019060028

Lagt fram bréf frá Ingunni Ósk Sturludóttur skólastjóra Tónlistaskóla Ísafjarðar, dagsett 10. júní sl., þar sem óskað er eftir auknu stöðugildi við Tónlistaskóla Ísafjarðar
Fræðslunefnd tók erindið fyrir á 405. fundi sínum 13. júní sl. og vísaði því til bæjarráðs.
Bæjarráð getur ekki samþykkt beiðnina m.t.t. fjárhagsáætlunar 2019, en vísar málinu til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.

Gestir

  • Margrét Halldórsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs - mæting: 08:44

7.Opnunartími í sundlaug Suðureyrar - 2019060038

Lagður fram undirskriftalisti íbúa sem skora á Ísafjarðarbæ að lengja opnunartíma í sundlaug Suðureyrar.
Bæjarráð þakkar fyrir bréfið og frumkvæði íbúa. Opnunartími í sundlaug Suðureyrar hefur nú þegar verið lengdur til kl. 20:00 í samráði við starfsfólk.
Margrét fer af fundi kl. 09:05

8.Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins - 2019060036

Lagt fram bréf Elfars Loga Hannessonar f.h. Kómedíuleikhússins, dagsett 31. maí sl., þar sem óskað er eftir að gera húsnæði Ísafjarðarbæjar á Þingeyri, sem áður hýsti bókasafn og sveitarstjórnarskrifstofu Þingeyrarhrepps, að leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

9.Beiðni um styrk vegna tónleikahalds á Ísafirði - 2019060019

Lagður fram tölvupóstur frá Hjördísi Ástráðsdóttur f.h. Sinfóníuhljómsveitar Íslands, dagsettur 5. júní sl., þar sem farið er fram á styrk vegna tónleikahalds á Ísafirði.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.

10.Framkvæmdaráð Umhverfisvottunar sveitarfélaga á Vestfjörðum (Earth Check) - 2019020090

Lögð fram gögn vegna Umhverfisvottunar Vestfjarða (Earth Check), sem sveitarstjórn þarf að taka fyrir svo vottun sé möguleg.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framvkæmdaáætlun vegna umhverfisvottunar sveitarfélaganna á Vestfjörðum, samkvæmt staðli Earth Check.

11.Styrktarsjóður EBÍ 2018-2019 - 2018030013

Lagður fram tölvupóstur Önnu Sigurðardóttur f.h. Eignarhaldsfélagsins brunabótafélags Íslands, dagsettur 13. júní sl., þar sem tilkynnt er að aðalfundur fulltrúaráðs verður haldinn 20. september nk.
Lagt fram til kynningar.

12.34. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga - 2019060032

Lagt fram bréf Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 11. júní sl., þar sem boðað er til 34. landsþings sambandsins, sem er auka landsþing til að ræða tillögu að stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

13.Fræðslunefnd - 405 - 1906007F

Fundargerð 405. fundar fræðslunefndar sem haldinn var 13. júní sl. Fundargerðin er í 11 liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
  • Fræðslunefnd - 405 Lagt fram til kynningar og er tilögum starfshópsins vísað áfram til fjárhagsáætlunargerðar 2020 og jafnframt leggur fræðslunefnd til við bæjarstjórn að breytingar verði gerðar á leikskólalíkani í samræmi við tillögur starfshóps þar sem 2 ára börn teljist 2 barngildi, en eru í dag samkvæmt leikskólalíkani 1.6 barngildi.

14.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 - 1905017F

Fundargerð 521. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 12. júní sl. Fundargerðin er í 15 liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila endurnýjun lóðarleigusamnings vegna fasteignar að Hlíðarvegi 35.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila endurnýjun lóðaleigusamnings vegna fasteignar að Ránargötu 7, Flateyri.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila endurnýjun lóðaleigusamnings vegna fasteignar að Grundarstíg 18, Flateyri.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila grenndarkynningu og stofnun lóðar. Grenndarkynnt yrði fyrir eigendum bústaða aðliggjandi lóða þ.e. lóð 39 Hóll, lóð 41 Hálsakot, Lóð 48 Lækjahvammur og lóð 50 Fannardalur.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila endurnýjun lóðaleigusamnings vegna fasteignar að Aðalgötu 21, Suðureyri.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila breytingu á deiliskipulagi Þingeyrar, með hliðsjón af verkefni.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 521 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja og samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.

15.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 86 - 1905023F

Fundargerð 86. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar sem haldinn var 11. júní sl. Fundargerðin er í 1 lið.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:31.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?