Útsýnispallur á Flateyri: Breyting á staðsetningu

Ný tillaga að staðsetningu og útfærslu útsýnispallsins.
Ný tillaga að staðsetningu og útfærslu útsýnispallsins.

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar um breytingu á staðsetningu fyrirhugaðs útsýnispalls á Flateyri, eftir að tekið var tillit til umsagna og athugasemda sem bárust í grenndarkynningu.

Erindið var grenndarkynnt frá 18. mars til og með 18. apríl 2024. Á tímabilinu bárust athugasemdir frá íbúum, hverfaráði Önundarfjarðar og Vegagerðinni þar sem meðal annars var lýst áhyggjum af mögulegri útsýnisskerðingu og mögulegu ónæði vegna nálægðar pallsins við íbúðir. Þá var bent á að upphafleg staðsetning gæti haft áhrif á snjósöfnunarsvæði og vakin athygli á því að tryggja þyrfti að öldumögnun hefði ekki neikvæð áhrif á grjótgarðinn og að virkni sjóvarna héldist óbreytt.

Óskað var eftir því að pallurinn yrði færður um 20–30 metra og speglaður.

Í kjölfar athugasemda var verkfræðistofunni Verkís falið að endurhanna pallinn með því að snúa honum og færa hann nær sundlauginni og íþróttahúsinu á Flateyri. Áfram verður tryggt aðgengi að pallinum frá gangstétt sem liggur að sundlauginni.

Sjá einnig:
Ísafjarðarbær hlýtur 33,5 milljóna króna styrk fyrir byggingu útsýnispalls á Flateyri