Ísafjarðarbær hlýtur 33,5 milljóna króna styrk fyrir byggingu útsýnispalls á Flateyri
Ísafjarðarbæ hlaut 33,5 m.kr. úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2025 fyrir byggingu útsýnispalls á varnargarðinum við Brimnesveg á Flateyri, auk skábrauta og stiga, ásamt frágangi á svæðisinu. Einnig verður komið upp bekkjum, rennibraut og klifurvegg við og af pallinum. Megináhersla er lögð á algilda hönnun og aðgengi hreyfihamlaðra að mannvirkinu.
Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi að stórbrotnu útsýni út Önundarfjörð og minnka slysahættu, en algengt er að bæði íbúar og gestir fari upp á varnargarðinn til að njóta betur útsýnis út fjörðinn. Útsýnispallurinn er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða. Árið 2022 hlaust 4,3 m.kr. styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir hönnun, gerð verkteikninga og kostnaðaráætlunar á byggingu útsýnispallsins.
Í frétt Ferðamálastofu kemur fram að í úthlutuninni að þessu sinni var lögð áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils. Af þeim 28 verkefnum sem hlutu styrk eru 10 á Austurlandi og 4 á Vestfjörðum en fæstir erlendir ferðamenn gista á þessum landssvæðum.