Samningur um sjúkraflutninga endurnýjaður
Endurnýjaður samningur milli Ísafjarðarbæjar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um sjúkraflutninga á svæði heilbrigðisstofnunarinnar var undirritaður þann 4. nóvember síðastliðinn.
Í samningum er kveðið á um að Ísafjarðarbær skal annast sjúkraflutninga fyrir HVEST á svæði sem nær frá Ísafjarðará í Ísafirði til Dynjandisheiðar í Arnarfirði. Innifalið í því eru sjúkraflutningar til flugvalla á þjónustusvæði og frá þeim. Áætlaður fjöldi sjúkraflutninga eru rúmlega 400 á ári.
Slökkvilið Ísafjarðarbæjar annast framkvæmd samningsins. Greiðsla nemur 82 milljónum króna á ári en innifalið í þeirri tölu eru 450 sjúkraflutningar.
Samningurinn gildir til 31. desember 2029 og í honum kemur fram að stefnt er að áframhaldandi samstarfi að samningstíma loknum.