Gjaldskrár Ísafjarðarbæjar 2022 – helstu breytingar milli ára

Gjaldskrár Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2022 hafa verið samþykktar og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Almenn hækkun gjaldskráa er 2,4%, í samræmi við verðbólguforsendur sem gefnar voru út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga um mitt ár 2021.

Ýmsar undantekningar eru þó á þessari almennu hækkun og er nánar farið yfir þær hér fyrir neðan.

Fasteignagjöld:

Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, vatnsgjald, holræsagjald og sorpgjald. Árið 2022 verða gjalddagar fasteignagjalda tólf, í stað tíu áður. Fyrsti gjalddagi er 15. janúar, síðan 15. hvers mánaðar eftir það.

Fasteignaskattur verður óbreyttur frá árinu 2021 og verður 0,56% á íbúðarhúsnæði og 1,65% á aðrar fasteignir. Lóðarleiga lækkar úr 1,8% í 1,5% og holræsagjald á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,2% í 0,15%. Gjaldskrá vatnsveitu lækkar úr 0,1% af fasteignamati í 0,02%.

Gjaldskrá sorphirðu hækkar um 9,85% og skýrist sú hækkun á því að samningur við verktaka er að hluta bundinn við launa- og akstursvísitölu og að málaflokkurinn hefur verið rekinn með halla undanfarin ár. Nauðsynlegt er að ná jafnvægi í rekstri sorpþjónustu sveitarfélagsins.

Skóla- og tómstundasvið:

Verð á skólamáltíðum grunnskóla lækkar úr 510 kr. í 490 kr. til að haldast í hendur við lægri hráefniskostnað. Þá lækkar hámarksgjald í dægradvöl úr 19.300 kr. í 18.900 kr. og skýrist það á því að innheimtuaðferðum fyrir dægradvöl var einfaldað haustið 2021. Vistunartími barna er ekki lengur talinn í korterum, heldur borga foreldrar fyrir þann tíma sem barnið er skráð í Dægradvöl, sem gefur svigrúm til lækkunar í samræmi við aðra þjónustu sveitarfélagsins á skóla- og tómstundasviði.

Mánaðargjald fyrir skólamáltíðir leikskóla hækkar um ca 13% og er það vegna samræmingar á forsendum fæðugjalds í gjaldskrám grunnskóla og leikskóla, sem skulu endurspegla hráefniskostnað.

Umhverfis- og eignasvið:

Í samþykkt um gatnagerðargjöld, þar sem gjaldskrá gatnagerðargjalda er listuð, er kveðið á um sérstakar lækkunarheimildir og var eftirfarandi bætt við: „Ef samþykkt er stækkun íbúðarhúss, sem er a.m.k. 15 ára, skal ekki greiða gatnagerðargjald, enda nemi stækkunin ekki meiru en 30 m² á hverja íbúð.“

Menningarmál:

Á árinu 2022 verða tekin upp árgjöld á bókasafnsskírteinum hjá Bókasafninu Ísafirði og mun gjaldið vera 2.000 kr. Eftir sem áður eru skírteini barna, eldri borgara og öryrkja án endurgjalds.

Þá hækkar gjald vegna millisafnalána úr 700 kr. í 1.000 kr. vegna kostnaðar við þjónustuna. Gjald vegna bókapantana, sem var 200 kr., er fellt niður.


Allar gjaldskrár ársins 2022 má finna undir þriðja lið fundargerðar bæjarstjórnar hér en þær verða einnig birtar á gjaldskrársíðu Ísafjarðarbæjar þegar þær taka gildi um áramótin.