Endurnýjun samnings við Hjallastefnuna um rekstur Eyrarskjóls

Ingibjörg Einarsdóttir, leikskólastýra á Eyrarskjóli, Bóas Hallgrímsson og Alma Guðmundsdóttir, fram…
Ingibjörg Einarsdóttir, leikskólastýra á Eyrarskjóli, Bóas Hallgrímsson og Alma Guðmundsdóttir, framkvæmdastjórar Hjallastefnunnar, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri og Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 556. fundi sínum að endurnýja þjónustusamning við Hjallastefnuna um rekstur leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði. Samningurinn gildir til 31. júlí 2029, með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn.

Markmið samningsins er að tryggja faglegt leikskólastarf í anda hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Samstarf Ísafjarðarbæjar og Hjallastefnunnar á rætur að rekja til ársins 2000, en núverandi samningur kemur í stað samnings frá 2014. 

Helstu atriði samningsins:

  • Hjallastefnan annast rekstur leikskólans, mönnun og faglegt starf í samræmi við lög og reglugerðir.
  • Sveitarfélagið leggur til húsnæði og búnað, auk þess að greiða framlag fyrir leikskólastarf og viðbótarþjónustu.
  • Áætlaður fjöldi dvalarplássa er 87 börn, og Ísafjarðarbær hefur forgang að plássum.
  • Samningurinn kveður á um reglulegt eftirlit, upplýsingagjöf og úttektir á húsnæði og búnaði.
  • Sérstök ákvæði eru um þjónustu við börn með auknar stuðningsþarfir og um útreikning samningsgreiðslna sem byggja á dvalargildi og menntunarhlutfalli starfsfólks.

Samningurinn var undirritaður af fulltrúum Ísafjarðarbæjar og Hjallastefnunnar fimmtudaginn 13. nóvember.