Dagbók bæjarstjóra 2026: Vika 52

Áramótabrenna á Hólum í Hjaltadal.
Áramótabrenna á Hólum í Hjaltadal.

Dagbók bæjarstjóra dagana 29. desember 2025 – 4. janúar 2026, í 52. viku í starfi.

Gleðilegt nýtt ár!

Þeir voru færri „venjulegir“ vinnudagar í þessari viku. Ég sinnti störfum bæjarstjóra í fjarvinnu fyrri part vikunnar. Svo sem ekki mikið álag en það var þó haldinn bæjarráðsfundur á mánudaginn þar sem nokkrar umsagnarbeiðnir lágu fyrir. Á fundinum var lagt fram erindi þar sem tilkynnt var um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2025/2026. Þá voru einnig lagðar fram leiðbeiningar vegna samantektar og afgreiðslu á tillögum sveitarstjórna um sérstök skilyrði vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2025/2026. Lagareldisfrumvarpið er komið í samráðsgátt og einnig drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Áramótunum var fagnað í Skagafirði. Þetta voru góðir dagar með fjölskyldunni í Hjaltadalnum. Við fórum út að hlaupa, í sund á Hofsósi og tókum þátt í gamlárshlaupinu á Sauðárkróki. Elduðum góðan mat, hittum fólk, fórum á áramótabrennu á Hólum í Hjaltadal, skemmtum okkur yfir Skaupinu og buðum nýtt ár velkomið með tilheyrandi ljósasjóvi. Við brunuðum svo heim á Súganda á nýársdag. Þvílíka rennifærið, með ólíkindum alveg hreint.


Við Dúi fórum í gamlársdagshlaupið á Sauðárkrókið. Ingólfur Snær frændi minn kom með og það var nú aldeilis ekki leiðinlegt.


Íbúar Hjaltadals og gestir hittast gjarnan á gamlárskvöld, kveikja í brennu og skjóta upp flugeldum. Maður hittir alltaf fullt af fólki þarna.


Gamlárskvöld á heimili foreldra minna.


Flugeldaóði faðir minn...(gæti verið byrjun á stöku).


Horft til himins.


Heimferð: kaffi á brúsa, prjónar og góð hljóðbók.

Ég mætti svo á skrifstofuna á föstudag og augljóst að bæjarbúar eru enn í hátíðargírnum, ekki mikil traffík, fundir eða símtöl. Ég nýtti því tækifærið og ritaði grein fyrir klúbb á svæðinu sem fagnar 50 ára afmæli á árinu, meira um það síðar.

Helgin var svo nýtt í útivist, fórum meðal annars í góðan hlaupa-/göngutúr um innfjörð Önundarfjarðar, megnið af jólaskrautinu var tekið niður og næsta vika undirbúin.

Þessi mynd er úr Önundarfirði en þar tókum við góðan hlaupatúr í blíðunni í dag.

Ég vil í lokin þakka lesendum dagbókarinnar fyrir árið. Það hefur verð gaman að halda úti vikulegum yfirlitspistlum um verkefni mín í þessu starfi. Nú er 53. vikan að hefjast og þegar ráðningartíma mínum lýkur verða vikurnar orðnar 72. Hvað gerist eftir það veit enginn en þar til held ég áfram að sinna starfi mínu af gleði og vonandi til gagns fyrir samfélagið og halda jafnframt áfram dagbókarskrifum til að veita fólki innsýn í starfið.

Ég er bjartsýn á komandi ár, held það verði ekki síðra en það sem nýliðið er.

Megi árið 2026 færa ykkur öllum góða heilsu, gleði og öryggi.