Viljayfirlýsing vegna byggingar fjölnota íþróttahúss samþykkt

Bæjarstjórn samþykki á 492. fundi sínum þann 17. mars sl. viljayfirlýsingu Ísafjarðarbæjar og íþróttafélagsins Vestra vegna byggingar fjölnota íþróttahúss (knatthúss) á Torfnesi á Ísafirði. Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram með íþróttafélaginu.

Að sögn Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, er forsaga málsins sú að Vestri sendi á dögunum erindi í bæjarráð þar sem reifuð var sú hugmynd að Vestri tæki að sér að sjá um undirbúning, hönnun, byggingu og fjármögnun á knatthúsi. Á móti yrði gerður leigusamningur við bæinn til ákveðins tíma og að þeim tíma loknum eignaðist Ísafjarðarbær húsið.

„Í framhaldinu var útbúin viljayfirlýsing þar sem lýst er vilja beggja aðila til að kanna þessa leið til hlýtar sem var samþykkt í bæjarstjórn í gær,“ segir Birgir. „Endanleg ákvörðun um hvort af byggingunni verður með þessum hætti verður hins vegar ekki tekinn fyrr en Vestri leggur fram allar upplýsingar um málið. Í viljayfirlýsingunni felst einungis vilji beggja aðila til að kanna hvort þessi leið sé vænleg og ef svo reynist vera verður gerður samningur milli aðila í framhaldinu. Þannig að ákvörðun um byggingu eða ekki verður tekin síðar.“

Stjórn HSV hefur gefið út að HSV fagni því að „málið sé komið í þann farveg að farið sé að sjá fyrir endann á áralangri baráttu og styður viljayfirlýsingu Íþróttafélagsins Vestra og Ísafjarðarbæjar um uppbygginguna.“

Viljayfirlýsing Ísafjarðarbæjar og Vestra