Vika 5: Dagbók bæjarstjóra

Kynning á fyrirhuguðum frístunda- og heilsársbústöðum í Dagverðardal.
Kynning á fyrirhuguðum frístunda- og heilsársbústöðum í Dagverðardal.

Dagbók bæjarstjóra dagana 30. janúar-5. febrúar.

Vikan hefur verið annasöm. Ég byrjaði vikuna á fjarfundi við bæjarráð frá Ítalíu. Þar var það helsta til umræðu nýtt gervigras á Torfnesvöllinn og nýr rekstrarsamningur við Hollvinasamtök félagsheimilis Súgfirðinga sem var svo samþykktur í bæjarstjórn á fimmtudaginn.

 


Erindi frá grunnskólanemendum á Suðureyri.

Þegar ég var á Ítalíu barst mér afar skemmtilegt bréf frá grunnskólanemendum á Suðureyri sem eru á miðstigi. Þegar ég heimsótti skólann fyrir skömmu voru þau að vinna verkefni um hvað mætti betur fara í þeirra umhverfi. Ég óskaði eftir því að þau myndu senda mér niðurstöðuna svo við gætum sett eitthvað af þessum verkefnum í framkvæmd. Þarna má finna ýmis skemmtileg og þörf verkefni sem eru komin á dagskrá bæjarráðs. Bæjarstýran er sérlega ánægð með svona framtaksama nemendur.


Jóhann Birkir Helgason og Sigríður Ó. Kristjánsdóttir við nemendagarðana á Flateyri.

Verkefnisstjórn Flateyrarverkefnisins hittist á Flateyri til að fara yfir umsóknir. Það gengur vel og vonandi verður hægt úthluta fljótlega. Við Sirrý framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og Jóhann Birkir bæjarfulltrúi notuðum tækifærið og kíktum á gluggana á nýju nemendagörðunum á Flateyri. Það er ekki annað að sjá en að það sé góður gangur í framkvæmdunum.


Deiliskipulag við hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði.  

Bæjarstjórn fundaði í vikunni á Teams þar sem veður og færð hömluðu ferðum bæjarfulltrúa. Það er mikill kostur að geta fundað á Teams þegar svona aðstæður koma upp. Á fundinum voru samþykktar nýjar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og fjölmörg mál úr skipulags- og mannvirkjanefnd. Má þar nefna helst að bæjarstjórn samþykkti að nýjan álman sem fyrirhuguð er við hjúkrunarheimlið Eyri verði í átt að leikskólanum Sólborg. Þessi staðsetning hefur mikil áhrif á púttvöll eldri borgara sem mikið hefur verið lagt í og er að mati reyndra einn besti púttvöllur landsins. Nýja álman mun fara yfir hluta af púttvellinum, þannig að breyta þarf legu vallarins. Eldri borgarar og Kubbur, íþróttafélag eldri borgara hafa réttilega haft áhyggjur af örlögum vallarins þegar til framkvæmda kemur. Bæjarstjórn samþykkti af því tilefni bókun þess efnis að púttvöllur við Eyri verði nýtanlegur að hluta á meðan á framkvæmdum við stækkun á Eyri standi og að uppbyggingu vallarins verði lokið samhliða framkvæmdum við nýja álmu. Einnig var samþykkt að gera sérstakt samkomulag við félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni og Kubb um endurgerð og nýja legu púttvallarins á Torfnesi.

Við Axel, Helga og Smári, starfsmenn umhverfis- og eignasviðs, fengum kynningu á fyrstu hugmyndum á frístunda- og heilsársbústöðum sem fyrirhugað er að byggja í Dagverðardal. Hugrún og Jón Grétar frá M11 arkitektum eru að vinna þetta verkefni fyrir Hjört Hinriksson. Þetta á eftir að vera geggjað flott og útsýnið frá þessum lóðum verður stórkostlegt.


Valdimar Halldórsson og Ólöf Oddsdóttir í kveðjuhófi fyrir Valdimar í Safnahúsinu á Ísafirði.

Í lok vikunnar var svo haldið kveðjuhóf í Safnahúsinu fyrir Valdimar Halldórsson staðarhaldara á Hrafnseyri sem hefur látið að störfum sökum aldurs eftir 18 ára starf. Fjölmargir voru mættir þrátt fyrir leiðindafærð og veður. Ég flutti kveðju frá Jónu Símoníu, forstöðumanni Byggðasafns Vestfjarða, til Valda og Lóu, en mikil samvinna og samstarf hefur verið milli Byggðasafnsins og Hrafnseyrar.


Hluti bæjarstjórnar mætti á Stútung.

Vikuna endaði ég svo Stútungi, þorrablóti á Flateyri. Þó ég væri ekki þar í embættisverkum þá er gaman að fá að hitta svo marga bæjarbúa á einum stað. Ég lofaði ekki mjög miklu upp í ermina á mér nema að koma heitu vatni á sturturnar í sundlauginni.