Vika 49: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 4.-10. desember 2023.

Vikan var fjölbreytt og fundasöm. Má þar nefna fundi Húsnæðismannvirkjastofnun (HMS), Fjárfestingarfélagsins Hvetjanda og svo var verkfundur vegna nýrrar við viðbyggingar við Eyri. Staðan á því máli er sú að verið er að hanna bygginguna. Skipulagsmálin voru kláruð í sumar. Það er gert ráð fyrir að þessi framkvæmd verði eftir 85%/15% leiðinni (ríkið borgar 85% og Ísafjarðarbær 15%), en Eyri var byggð eftir svokallaðri leiguleið, þ.e. Ísafjarðarbær á bygginguna og við leigjum hana til ríkisins. Undanfarin ár höfum við verið að borga með starfseminni án þess að hafa fengið það leiðrétt.

Ég var boðin á fund með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að fylgja eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um breytingar á frumvarpi sem nefnist skattar og gjöld.

Nemendur í MÍ komu í heimsókn til mín á bæjarskrifstofuna . Ég sagði þeim frá stjórnkerfi bæjarins og hvernig það virkaði. Á sama tíma var íþrótta- og tómstundanefnd að funda og fengum við líka að kíkja inn á nefndarfund.

Ég sat rafrænan fund sem samtök sjávarútvegs sveitarfélaga stóðu fyrir. Rætt var um tvö mál á vegum matvælaráðuneytisins. Annað var frumvarp til laga um sjávarútveg sem er í samráðsgátt stjórnvalda og hitt málið voru ný heildarlög um lagareldi. Bæði málin eru mjög umfangsmikil og snerta samfélög á Vestfjörðum mikið.

Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu í vikunni. Dagskrá bæjarstjórnar var í 34 liðum og afar fjölbreytt. Stærsta og umfangsmesta málið var fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024 sem var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum, enda var hún unnin góðri samvinnu. Í svona vinnu er alltaf einhver meiningamunur á milli fulltrúa en fólk var sammála um stóru myndina og við sem samfélag á réttri leið.

Arna Lára heldur á útprentaðri fjárhagsáætlun.

Áætlunin gerir ráð fyrir 452 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 186 milljón króna á árinu 2024 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 10,3% af heildartekjum eða 1.092 milljónir króna. Þetta þýðir gríðarlegur viðsnúningur í rekstri. Árin 2020-2022 var halli rekstursins upp á 1.100 milljónir en fyrir árin 2023-2024 er gert ráð fyrir 750 milljóna króna afgangi. Allar kennitölur koma vel út og skuldahlutfall og viðmið að lækka. Svo á líka framkvæma alls konar, miklar framkvæmdir á höfninni, fráveitu, klára fótboltavellina á Torfnesi og körfuboltavöll svo fátt eitt sé nefnt. Listinn yfir framkvæmdir sem þarf að fara í er mjög langur en vonandi getum við gert meira næstu ár.

Bæjarstjórn heimilaði að gera aðalskipulagsbreytingu á Suðurtanga, en það er gert til að flýta fyrir uppbyggingu Kerecis og annarra fyrirtækja á tanganum. Mikið framfaramál og eitt af því skemmtilegasta sem bæjarstjórn gerir að mínu mati er að greiða veg svona framfaraverkefna.

Bæjarstjórn samþykkti nýjan samstarfssamning við HSV en markmið samningsins er að viðhalda öflugu íþróttastarfi á svæðinu og góðu samstarfi og samráði HSV og Ísafjarðarbæjar. Stóra breytingin er frá fyrri samningi að staða framkvæmdastjóra HSV færist til Ísafjarðarbæjar og verður staðan auglýst á næstunni. Þá færist íþróttaskóli HSV til Ísafjarðarbæjar og heldur yfirþjálfari skólans áfram störfum sínum. Íþróttaskólinn heldur áfram starfsemi sinni í góðu samstarfi við íþróttafélögin.

Bæjarstjórn samþykkti að sameina fræðslunefnd og íþrótta- og tómstundanefnd í eina nefnd; skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd. Stefnt er að því að ný nefnd taki til starfa um áramót en áður en það getur gerst þarft að breyta samþykktum um stjórn Ísafjarðarbæjar og það þarf tvær umræður í bæjarstjórn.

En hér er einungis tæpt af fáum verkefnum bæjarstjórnar þessa vikuna.

Starfsfólk VÍS á Ísafirði í vöfllukaffi á föstudaginn.
Starfsfólk VÍS á Ísafirði í vöfllukaffi á föstudaginn.

Annars var varla vinnufriður föstudaginn fyrir vöffluilm þar sem starfsmenn VÍS bökuðu vöfflur og buðu upp á heitt kakó. Gott að enda vikuna í innliti hjá VÍS.

Uppstilling á jólasýningu Byggðasafns Vestfjarða. Hrærivél og matvinnsluvél á borði, bökunardót við hliðina.

Ég kíkti á jólasýningu Byggðasafnins og mæli eindregið með heimsókn þangað. Það er svo huggulegt að skoða sýninguna og fá svo heitt súkkulaði og smákökur.

Jólatréð á Silfurtorgi skreytt flugdrekum í palestínsku fánalitunum, hluti af gjörningi sem fór fram á samstöðufundi.

Á alþjóðlegum degi mannréttinda var haldinn samstöðufundur með Palestínu á Silfurtorgi. Áhrifamikill fundur þar sem Eiríkur Örn Norðdahl og Hanin Al-Saedi fluttu beittar ræður. Mikið erum við vanmáttug gegn svona hryllingi sem á sér stað á Gaza.