Vika 47: Dagbók bæjarstjóra

Jólaljósin voru tendruð á Silfurtorgi laugardaginn 26. nóvember.
Jólaljósin voru tendruð á Silfurtorgi laugardaginn 26. nóvember.

Dagbók bæjarstjóra dagana 21.-27. nóvember.

Vikan byrjaði sem fyrr með fundi í bæjarráði sem setur gjarnan tóninn fyrir vikuna. Eitt af þeim verkefnum sem var á dagskrá var tilraunaverkefni um almenningssamgöngur Flateyrar. Ísafjarðarbær fékk 10, 6 m.kr. styrk úr byggðaáætlun til þróunar á almenningssamgöngum en hugmyndin er að setja á fót pöntunarþjónustu sem fólk getur nýtt sér til að komast til og frá Flateyri. Tilgangur verkefnisins er efling almenningssamgangna með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa á Flateyri en horfa jafnframt til samlegðaráhrifa fyrir nágrannabyggðarlög og að efla atvinnusókn á milli Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar. Það er mikilvægt að við lærum af verkefninu, við viljum vita hvaða hópar munu nýta þjónustuna og í hvaða tilgangi svo við getum haldið áfram að þróa almenningssamgöngur. Það verður jafnframt horfti til reynslunnar af verkefninu sem fordæmisgefandi fyrir aukna þjónustu við Suðureyri og Þingeyri. Vonandi munu því sem flestir nýta sér þessa þjónustu.

Það var fundur í stjórn Byggðasafns Vestfjarða í vikunni, en það rekur Ísafjarðarbær í samlagi með Bolungarvík og Súðavík. Ég sit í stjórn safnsins fyrir hönd Ísafjarðarbæjar, Jón Páll fyrir Bolungarvíkurkaupstað og Bragi Þór fyrir Súðavíkurhrepp. Á dagskrá voru hefðbundin stjórnarmálefni eins og fjárhagsáætlun. Við ræddum líka flutning á Maríu Júlíu, en hún er klár til flutnings til Akureyrar og Landhelgisgæslan bíður nú veðurs til þess að flytja hana. Það verður gleðilegur dagur þegar við horfum á eftir henni út fjörðinn því það er ekki gaman að horfa á hana grotna í höfninni.


Fundað á hafnarskrifstofunni.

Við Bryndís bæjarritari heimsóttum hafnarskrifstofuna. Það liggur fyrir að upplýsingamiðstöðin með Heimi Hansson í farabroddi færist undir hafnarskrifstofuna um áramót. Við fórum og tókum út aðstæður, og svo er bara gaman að hitta starfsmenn og heyra hvað þeir eru að fást við í daglegum störfum. Við ræddum auðvitað dýpkunina. Það voru mikil vonbrigði að horfa eftir á Álfnesi, dýpkunarskipi Björgunar, fara úr Arnarfirði og stefna á Landeyjarhöfn og sleppa viðkomu hjá okkur. Það skiptir okkur verulega miklu máli tekjulega séð að dýpkunarskipið komi enda er búið að bóka viðkomur á nýja kantinn næsta sumar. Vegagerðin og Muggi hafnarstjóri eru að skoða leiðir í að fá dýpkunarskip til okkar sem fyrst, svo við verðum ekki af þessum tekjum. Hilmar Lyngmo hefur störf sem hafnarstjóri um áramótin svo það eru talsverðar breytingar framundan og auk alls þess sem er að gerast í hafnarstarfseminni sjálfri.


Skólasysturnar Alda og Arna.

Annars fór miðbik vikunnar í að sitja námskeið. Stjórnendur Ísafjarðarbæjar sátu tveggja daga námskeið hjá Öldu Sigurðardóttur stjórnendaráðgjafa. Námskeiðið átti að fara fram árið 2019 en heimsfaraldurinn kom í veg fyrir að það væri haldið. Námskeiðið var afar fjölbreytt og praktískt í alla staði. Svona endurmenntun er svo mikilvæg. Alda er bekkjarsystir mín úr stjórnmálafræðinni úr
Háskóla Íslands svo þetta voru ánægjulegir endurfundir.

Mánaðarlegur fundur framkvæmdastjóra sveitarfélaga á Vestfjörðum með Vestfjarðarstofu fór fram í vikunni. Þar var einna helst rætt svæðisskipulag á Vestfjörðum og það helsta sem er á döfinni í hverju sveitarfélagi. Svæðisskipulag er verkefni sem myndi nýtast sveitarfélögunum vel en kostar talsverða peninga. Sveitarfélögin eru öll að loka sínum fjárhagsáætlununum þessa daganna.

Það var stjórnarfundur í Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks.

Einng var fundur í verkefnisstjórn Allra vatna til Dýrafjarðar, en það verkefni klárast formlega um áramótin. Verkefninu lýkur svo með íbúafundi eftir áramót sem ekki er komin tímasetning á. Agnes verkefnisstjóri mun færast alfarið yfir til Vestfjarðastofu í ráðgjöf og verkefnaþróun þannig hún er sem betur fer ekki að fara langt.

Ég skaust til Reykjavíkur á milli véla til að sitja stjórnarfund í Lánasjóði sveitarfélaga. Þriggja tíma stopp í Reykjavík. Styttra verður það ekki.

Ég lokaði vinnuvikunni með því að tendra jólaljósin á Silfurtorgi á Ísafirði með aðstoð barnakórs Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þó það hafi rignt töluvert á okkur þá vantaði ekkert upp á hátíðarstemmninguna. Heitt kakó og lummur eru orðin fastur liður jólatorgsölunnar sem var á hendi 10.bekkjar.


Hvalbeinin í Jónsgarði eru komin í jólabúning.

Það má líka segja frá því að búið er að setja upp jólaljós í Jónsgarði. Þarna er kominn vísir að jólagarði.