Vika 45: Dagbók bæjarstjóra 2023

Úkraínufólk bauð til viðburðar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þar sem þau kynntu menningu sína og mat…
Úkraínufólk bauð til viðburðar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þar sem þau kynntu menningu sína og matagerð.

Dagbók bæjarstjóra dagana 6.-12. nóvember 2023.

Það er búið að vera nóg að gera í vikunni en síðustu tvo daga hefur hugurinn verið hjá Grindvíkingum og þeim miklu raunum sem þau standa frammi fyrir. Verkefni okkar hér vestur á fjörðum verða svo léttvæg í samanburði við það sem Grindvíkingar eru að ganga í gegnum. Ég hef ekki heyrt af neinum sem hafa leitað skjóls hjá okkur en við tökum svo sannarlega vel á móti fólki ef á þarf að halda.

Annars er það helsta að frétta úr bæjarlífinu að grenndarstöðvarnar eru komnar upp við mikinn fögnuð margra en eftir þeim hafði verið beðið lengi með talsverðri eftirvæntingu.

Það er verið að endurskoða allt almannavarnakerfið og af því tilefni hélt almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fund með almannavarnarnefndum á Vestfjörðum, ásamt fulltrúum frá dómsmálaráðuneytinu. Markmiðið með vinnunni er að bæta kerfið.

Við Bryndís bæjarritari funduðum með formönnum hverfisráða í Önundarfirði og Súgandafirði í vikunni. Þar eru nýir formenn komnir til starfa. Sunna Reynisdóttir er ný formaður í Önundarfirði og Ólöf Birna Jenssen er nýr formaður í Súgandafirði.

Mynd af Flateyrarodda að vetri. Hjallur, vinnsluhús, íbúðarhús og gámur. Vegur og autt svæði í forgrunni.
Flateyraroddi eftir tiltekt.

Hrönn verkefnisstjóri á Flateyri hefur heldur betur verið í tiltektarstuði á Flateyrarodda og fengið marga með sér í lið. Það er allt annað að sjá svæðið.

Stóri salurinn í íþróttahúsinu á Torfnesi. Starfsfólk Ísafjarðarbæjar situr við mörg langborð. Fyrirlesari stendur uppi á sviði.
Fræðsludagur starfsfólks Ísafjarðarbæjar fór fram á fimmtudaginn.

Annað hvert ár stóri starfsmannadagurinn haldinn hjá Ísafjarðarbæ, og fór einn slíkur fram í vikunni. Ísafjarðarbær er stærsti vinnustaðurinn á Vestfjörðum með 313 stöðugildi, og þarf mikið skipulag til að ná öllum starfsmönnum saman, svo ekki sé talað um þjónustuskerðingu fyrir íbúa. Það er samt svo mikilvægt fyrir okkur að ná starfsmönnum saman í fræðslu og samveru. Í ár fengum við fræðslu um félagsauð og samfélag, og var vinnan leidd af Viðari Halldórssyni félagsfræðingi.

Arna Lára, Nanný, Sigurður og Unnar á skrifstofu bæjarstjóra.
Arna Lára, Nanný, Sigurður og Unnar á skrifstofu bæjarstjóra.

Við Nanný formaður umhverfisnefndar áttum góðan fund nýjum framkvæmdastjóra Kubbs, Unnari Hermannssyni og Sigurði Óskarssyni eiganda félagsins. Það eru búnar að vera miklar breytingar í úrgangsmálum sveitarfélaga og talsverðar áskoranir fyrir mörg hver. Ísafjarðarbær hefur verið í fararbroddi í þessum málum og er langt síðan að fjórflokkunin var innleidd hjá okkur. Nú vorum við að bæta við grenndarstöðvunum þannig að við erum á réttri leið. Kubbur hefur þjónustað Ísafjarðarbæ síðastliðið ár og hefur séð um sorphirðingu, og flutning.

Arna Lára og Harpa Stefánsdóttir á úkraínskum viðburði í Edinborgarhúsinu.Arna Lára og Harpa Stefánsdóttir á úkraínskum viðburði í Edinborgarhúsinu.

Ég fór á mjög áhugaverðan og flottan viðburð í Edinborgarhúsinu þar sem nýir nágrannar okkar frá Úkraínu buðu Vestfirðingum að kynnast menningu sinni á skemmtilegan hátt, með því kynna okkur fyrir landi og þjóð, og að smakka allskonar mat. Það var gaman að sjá hversu vel mætt.