Vika 45: Dagbók bæjarstjóra

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum LRÓ, Edinborgarhússins og Örnu L…
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum LRÓ, Edinborgarhússins og Örnu Láru.

Dagbók bæjarstjóra í viku 45, 7.-13. nóvember.

Umræða um fasteignagjöld hefur verið talsverð meðal bæjarbúa á samfélagsmiðlum. Það er auðvitað eðlilegt enda kemur þetta beint við budduna hjá fólki. Bæjarfulltrúar eru mjög meðvitaðir um hvað þetta þýðir og ég þori að fullyrða að ekkert þeirra hefur neina ánægju af því skattpína bæjarbúa. Núna er verið að vinna fjárhagsáætlun á fullu og það er verið að rýna reksturinn vel. Markmiðið er að leggja ekki meiri álögur en þarf til að ná endum saman, ásamt að halda uppi góðri þjónustu. Það er allavega alveg ljóst að við getum ekki rekið bæjarsjóð með svona miklum halla eins og hefur verið sl. tvö ár.


Sendiherra Noregs og heiðurskonsúll Noregs á Ísafirði.

Jón Ottó Gunnarsson er nýr norskur heiðurskonsúll á Ísafirði. Norski sendiherrann á Íslandi, Aud Lise Norheim, kom vestur af því tilefni og setti konsúlinn í embætti og færði honum skjöld þessu til staðfestingar.


Daníel Jakobsson og Arna Lára Jónsdóttir.

Ég átti fund með Daníel Jakobssyni frá Arctic Fish í vikunni. Þar fórum við yfir þau tækifæri og áskoranir sem eru framundan í greininni. Fiskeldið er ung atvinnugrein á Íslandi en er að vaxa mjög hratt og er farin að skipta verulega miklu máli í verðmætasköpun á svæðinu. Fjölmargir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til fyrirtækisins á síðustu misserum og ekki síður í tengdum atvinnugreinum. Eins og margir vita þá er Daníel líka fyrrum bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ. Við höfum lengi starfað saman á pólitíska vettvangnum og tekið nokkrar rimmurnar en alltaf sammála um að vilja það besta fyrir Ísafjarðarbæ.


Með Ásmundi Einari eftir fund í Stjórnsýsluhúsinu.

Framsóknarmenn héldu miðstjórnarfund sinni í vikunni á Ísafirði og ráðherrar flokksins notuðu tækifærið til að heimsækja stofnanir og fyrirtæki, og héldu opin fund. Ég átti fund með Ásmundi Einari mennta- og barnamálaráðherra og hans fólki. Þar ræddum við stækkun verkmenntahúss við Menntaskólann á Ísafirði. Bæjarstjórn hafði áður tekið jákvætt í erindið en upplagið er þannig að sveitarfélög á Vestfjörðum borgi 40% af byggingarkostnaði eftir íbúatölu.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fór einnig víða um svæðið. Ég átti fund með henni og stjórn Edinborgarhússins til að ræða sérstaklega þríhliða samning ráðuneytisins, Edinborgarhússins og Ísafjarðarbæjar en bæjarráð fól mér fyrir skömmu að hefja á ný samningaviðræður við ráðherra um samkomulag til stuðnings menningarhúsinu. Ráðherra tók erindi okkar vel þó hún hafi ekki getað lofað neinu en bærinn mun vinna þetta áfram ásamt stjórn Edinborgarhússins. Ég átti einnig hádegisfund með ráðherranum ásamt sveitastjórnarmönnum á Vestfjörðum.


Eldað á eldstæðinu í Stórurðarlundi.


Börnin á Tanga gæða sér á hádegismatnum í lundinum.

Einn af hápunktum vikunnar var þegar okkur Hafdísi sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs var boðið upp í Stórurðarlund með fimm ára deildinni á Tanga. Þar fer fram afar metnaðarfullt útinám. Þau rölta upp í lundinn sinn í Stórurð og leika í öllum veðrum, nota umhverfið til að leika og læra. Starfsfólkið sagði okkur að krakkarnir leika sér best úti, minnst þarf að hafa fyrir þeim og matarlystin einnig meiri. Við Hafdís getum líka vottað að það er boðið upp á afskaplega góðan mat. Við getum verið gríðarlega stolt af útináminu á Tanga og ég veit að það er horft til þess víða af landinu.

Á dagskrá vikunnar voru líka reglubundnir fundir eins og í stjórn Byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks og með Hjörleifi verkefnisstjóra bæjarins á Flateyri og Bryndísi bæjarritara til að fara yfir framgang mála í Flateyrarverkefninu. Bæjarráð samþykkti í vikunni að óska eftir framlengingu á því verkefni til eins árs.