Vika 42: Dagbók bæjarstjóra 2023

Mugison kom fram á Ísafjarðarkvöldi á Hringborði norðursins.
Mugison kom fram á Ísafjarðarkvöldi á Hringborði norðursins.

Dagbók bæjarstjóra dagana 16.-22. október 2023.

Dagbókin er heldur snubbótt þessa vikuna þar sem ég hef verið mikið í burtu vegna Hringborðs norðursins eða Arctic Circle, sem er risastór ráðstefna sem fjallar um málefni norðurslóða. Þvílíkur fjöldi af fyrirlesurum og málstofum, og ég komst ekki yfir nema brot af dagskránni. Ráðstefnunni lauk svo með Ísafjarðarkvöldi í boði Kerecis og fleiri fyrirtækja frá Vestfjörðum. Ótrúlega gaman að fá að upplifa þennan sterka fókus á Ísafjörð á svona stóru kvöldi.

Annars byrjaði vikan í bæjarráði og þar komst fátt annað að en fjármálatengd efni enda er vinna við fjárhagsáætlun í fullum gangi. Bæjarfulltrúar og sviðsstjórar áttu einnig vinnufund í vikunni til að undirbúa fjárhagsáætlun. Fjárhagsáætlun verður lögð fram formlega til fyrri umræðu 2. nóvember næstkomandi.

Sirrý framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu kom til fundar við bæjarráð og fylgdi eftir nokkrum verkefnum sem eru á þeirra borði.

Fundur SFS í stóra sal Edinborgarhússins á Ísafirði.

Maður á fundi SFS. Hann er með skipstjórahúfu og heldur á skilti sem á stendur Frjálsar handfæraveiðar strax.

Við Gylfi formaður bæjarráðs skelltum okkur á fund hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), en þau eru á fundarherferð um landið undir yfirskriftinni: Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig? Þar var farið yfir hagstærðirnar.

Mynd úr líkasmræktarstöðinni Stöðinni á Ísafirði.

Bæjarstjórn kom líka saman í vikunni og átti stuttan fund, enda mest megnis afgreiðslumál til umræðu. Samþykktur var nýr þriggja ára samningur við Ísófit um rekstur líkamsræktarsvöðvar eftir að gerð var verðfyrirspurn. Samstaða hefur verið um mikilvægi þess að starfrækt séð líkamsrækt á Ísafirði og að það sé hluti af lífsgæðum fólks. Ísófit sem rekur Stöðina hefur staðið sig vel síðastliðin ár. Stöðin opnaði í miðjum heimsfaraldri sem hafði mikil áhrif á þeirra starfsemi sem og alla aðra.

Bæjarstjórn samþykkti einnig að heimila auglýsingu á skipulagslýsingu fyrir Hvítasand í landi Þórustaða í Önundarfirði, en þar er gert ráð fyrir að byggður verði baðstaður.

Við Bryndís bæjarritari funduðum með Guðrúnu formanni hverfisráðsins í Dýrafirði og fórum yfir þó nokkur mál. Sundlaugin á Þingeyri er lokuð þessa daganna á meðan leitað er að leka en sundlaugin er einn eftirsóttasti viðkomustaður bæjarins. Pottarnir eru þó opnir.

Annars kláraði ég vikuna í Reykjavík á Hringborði norðursins.