Vika 41: Dagbók bæjarstjóra

Dagbók bæjarstjóra 10.-16. október

Yfirskrift vikunnar gæti verið fundir og ráðstefna, því ég gerði lítið annað en að hitta fólk og funda. Ég hef reyndar mjög gaman að því að hitta fólk (og tala) svo það er yfir engu að kvarta.

Mánudagurinn byrjaði í bæjarráði. Þar erum við á fullu í fjárhagsáætlunarvinnu en að stýra þeirri vinnu er mikilvægasta verkefni bæjarráðs. Við tókum snúning á gjaldskrám Ísafjarðarbæjar eftir að nefndir bæjarins hafa fjallað um þær og komið með sínar tillögur. Þetta potast allt saman áfram og stefnan er að leggja fram fjárhagsáætlun til fyrri umræðu fimmtudaginn 3. nóvember nk. og þá þarf mest allt að vera klárt.


Samanburður á orkukostnaði á Íslandi.

Við fengum bréf frá Orkustofnun þar sem Ísafjarðarbær er beðin um að gefa umsögn vegna umsóknar Orkubús Vestfjarða um rannsóknarleyfi vegna jarðhitaleitar í Tungudal. Það þarf ekki að segja bæjarbúum hvað það myndi þýða að finna jarðhita. Það myndi skipta sköpum fyrir bæinn enda er dýrt að kynda.


Frá vinnufundi með KPMG.

Bæjarfulltrúar og sviðsstjórar áttu vinnufund með KPMG til að fara yfir þau markmið sem við ætlum að setja okkur í fjármálum, auk þess að ræða tillögur til að lækka kostnað og auka tekjur. Einfaldasta leiðin er að vona að íbúum fjölgi verulega og vonast til að tekjuhliðin glæðist, en þetta er ekki svona einfalt. Við þurfum að gera meira.


Háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra kíkti í heimsókn.

Ég hitti Áslaugu Örnu, háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra. Ég nota hvert tækifæri sem gefst til að ræða hagsmunamál okkar við ráðamenn þjóðarinnar. Við Áslaug ræddum sérstaklega stöðu fjarnáms og þá sérstaklega hvað varðar Háskóla Íslands. Þar fékk ég tækifæri til þess að fylgja eftir ályktun frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem samþykkt var fyrr í haust um að skora á ráðherrann að beita sér fyrir að háskólar landsins bjóði upp á fjölbreytt fjarnám.

Megninu af vikunni varði ég í Reykjavík. Ég átti fund með íbúðafélaginu Bjargi til að ræða möguleika á því að félagið byggi í sveitarfélaginu en félagið hefur komið að uppbyggingu íbúða fyrir tekjulága á SV-horni landsins og á Akureyri. Okkur vantar íbúðir fyrir alla en við höfum átt erfitt með að passa inn í módel Bjargs hvað varðar tekjuviðmið, en við þurfum að leita allra leiða til að koma upp húsnæði.

Aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fór fram vikunni, en aðild að þeim eiga sveitarfélög sem hafa mikla beina hagsmuni af sjávarútvegi og sjókvíaeldi. Vestfirðingar eiga þar tvo fulltrúa í stjórn, þau Þórdísi Sif, bæjarstjóra í Vesturbyggð og Baldur Smára, bæjarfulltrúa í Bolungarvík.

Ég sótti ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Þar var farið yfir rekstur sjóðsins ársið 2021 auk þess sem haldin voru fróðleg erindi. Haraldur Líndal, fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðar, kynnti greiningu á kostnaðarþróun í málefnum fatlaðs fólks frá árunum 2018-2020, en þar kemur fram kostnaðurinn hefur aukist um 9 milljarða á þessum þremur árum, ef ég man þetta rétt. Við þekkjum vel þá þróun. Svandís Ingimundardóttir skólamálafulltrúi Sambandsins fór yfir úttekt á þróun grunnskólans eftir aldafjórðung hjá sveitarfélögum.


Fyrirlestur um uppbyggingu innviða og íbúða á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fór líka fram í vikunni. Þetta er eins konar endurmenntunarráðstefnan fyrir sveitarstjórnarmenn. Þar fáum við mikið að hagnýtum upplýsingum sem nýtast okkur í störfum okkar. Fjölmörg áhugaverð erindi voru haldin og rætt um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Sigurður Ingi, innviðaráðherra, ávarpaði ráðstefnuna og boðaði að ríkið kæmi með leiðréttingu vegna hallareksturs á málefnum fatlaðs fólk, það er ánægjulegt en margir óttast að það verði ekki nóg. Ég hélt erindi um uppbyggingu innviða og íbúða á Stór-Ísafjarðarbæjarsvæðinu. Boðskapurinn var sá að við stöndum frammi fyrir mikilli uppbyggingu í atvinnulífinu og að sveitarfélögin þurfa að fá auknar tekjur (t.a.m. þær sem renna inn í fiskeldissjóð) til að standa undir uppbyggingunni. Það er mikil framkvæmdaþörf hvar sem augum er litið; hafnir, fráveita, íþróttamannvirki, skólahúsnæði o.s.frv. Sveitarfélögin verða að hafa burði til að taka á móti fólki.


Thelma Hjaltadóttir og Fjölnir Baldursson hafa staðið í ströngu við skipulagningu PIFF.

Metnaðarfull kvikmyndahátíð PIFF (Pigeon International Film Festival) er búin að vera í gangi á Ísafirði og í Súðavík frá því á fimmtudag. Hátíðinni lauk á sunnudagskvöld, en þar aðstoðaði ég kynni hátíðarinnar, Thelmu Hjaltadóttur, við að veita verðlaun. Á hátíðinni voru sýndar 61 mynd, hvorki meira né minna! Aðstandendur hátíðarinnar eiga miklar þakkir skildar fyrir að nenna, gera og framkvæma svona flotta hátíð. Þetta er ekki sjálfgefið.