Vika 40: Dagbók bæjarstjóra

Dagbók bæjarstjóra 3.-9. október 2022

Vikan er búin að vera annasöm. Á fundi bæjarráðs voru fjármálin sem fyrr til umræðu. Útlitið er ekki bjart ef við grípum ekki til neinna aðgerða. Útkomuspáin fyrir árið 2022 var lögð fram fyrir bæjarráð en hún gerir ráð fyrir halla upp á 442 m.kr. og tapið á A-hlutanum einum og sér er sem nemur 673 m.kr. Það eru auðvitað þó nokkrar skýringar á þessum halla, og má þar helst nefna að það stefnir í verulegan hallarekstur á málefnum fatlaðra eða um tæpar 200 m.kr og þar af leggjast 100 m.kr beint á Ísafjarðarbæ. Einnig er verðbólgan að hafa veruleg áhrif á okkur þar sem Ísafjarðarbær er með þunga skuldastöðu en gert er ráð fyrir að verðbæturnar geti orðið 240 m.kr. Þessi staða kemur engum á óvart og er ástæðan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti í upphafi kjörtímabilsins að fá fyrirtækið KPMG til að fara yfir fjármálin með okkur. Þar er stóra verkefnið að gera A-hlutann sjálfbæran.

Í lok síðustu viku barst mér uppsagnarbréf frá Mugga hafnarstjóra en hann ætlar að láta af störfum vegna aldurs um áramótin. Muggi er búinn að vera hafnarstjóri í 20 ár og hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á hafnarstarfseminni á hans vakt, nægir þar að nefna komur skemmtiferðaskipa. Það verður verðugt verkefni að finna eftirmann hans og ræddi bæjarráð auglýsingu að nýjum hafnarstjóra sem við getum vonandi sett í loftið næstu daga.

Frá íbúafundi vegna ofanflóðavarna á Flateyri

Íbúafundur vegna ofanflóðavarna á Flateyri var haldinn í vikunni á Teams. Kristín Martha verkfræðingur hjá Verkís hefur verið að reikna og skoða áhrif mannvirkjanna sem fyrirhugað er að reisa og styrkja til að verja byggðina, auk þess sem starfsmenn Ofanflóðsjóðs með Hafstein Pálsson í fararbroddi fóru yfir næstu skref. Markmið fundarins var að gefa íbúum tækifæri að fylgjast með hvernig verkefninu framvindur, en það fer að koma að því að við verðum að hætta að reikna og fara að framkvæma.

Mikið rigninga- og vindaveður var í upphafi vikunnar og fór allt á flot, auk þess sem fokskemmdir urðu á leikskólanum á Suðureyri. Safnahúsið og Pollgata 4 á Ísafirði urðu líka fyrir skemmdum vegna vatns. Við fegnum ýmsar ábendingar um stífluð ræsi auk þess sem við vitum að fólk og fyrirtæki varð einnig fyrir vatnstjóni. Þarna fór saman há sjávarstaða og mikil úrkoma.

Sveitarstjórnafólk á Vestfjörðum og fulltrúar Vestfjarðastofu á fundi með þingmönnum kjördæmisins.

Kjördæmavika Alþingis var í vikunni og af því tilefni óskuðu þingmenn kjördæmisins eftir fundi með sveitastjórnum á Vestfjörðum og Vestfjarðastofu. Þar fórum við yfir helstu hagsmunamál kjördæmisins, verkefnin framundan og þau mál sem við verðum að fá þingmenn okkar til að fylgja eftir. Fyrir hönd Ísafjarðarbæjar lagði ég áherslu á að við yrðum að fá leiðréttingar í málefnum fatlaðs fólks og það væri ekki hægt að reka málaflokinn með þessum miklum hallarekstri. Stóra málið er að sveitarfélögin fái auðlindagjald af fiskeldi inn í sinn rekstur, það myndi breyta mjög miklu fyrir Ísafjarðarbæ og gera okkur kleift að standa undir nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Ég minnti þingmenn á þörfina fyrir nýju nýsköpunar- og verknámshúsi við Menntaskólann á Ísafirði.


Nýtt útlit Hótel Ísafjarðar.

Þó rekstur Ísafjarðarbæjar sé þungur þá erum við að sjá jákvæðar fréttir úr atvinnulífinu og það skiptir miklu máli fyrir bæinn. Stækkun á Hótel Ísafirði var í fréttum í vikunni en það er verið að umturna jarðhæð hótelsins. Veitingasalurinn verður stækkaður og gerður verður nýr hótelbar og afgreiðsla. Í framhaldinu er áformað að koma upp heitum pottum og sánu á efstu hæðinni með útsýni út á Pollinn. Virkilega flott áform og spennandi að fylgjast með þessari uppbyggingu. Skaginn 3X hélt svo starfsmannafund í vikunni þar sem Petra Baader, forstjóri fyrirtækisins, gaf það út að ætlunin sé að viðhalda og efla starfsemi allra starfsstöðva sinna á Íslandi þ.m.t. á Ísafirði. Þar með var slegið á áhyggjur um að breytt eignarhald hefði áhrif á framtíðarstaðsetningu fyrirtækisins. Það er löng hefð fyrir öflugri starfsemi iðnaðarfyrirtækja á Ísafirði og Skaginn 3X verið stór partur af þeirri sögu. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að Skaginn 3X vaxi og dafni enda fjölmörg tækifæri framundan fyrir fyrirtækið sem tengist uppbyggingu eldisstarfsemi á svæðinu.


Frá opnun sýningar um sögu skipstjórnarnáms á Vestfjörðum.

Á miðvikudaginn var opnuð sýning í Turnhúsinu í Byggðasafni Vestfjarða. Tilefnið er hin langa og merka saga skipstjórnarnáms á Vestfjörðum, en í ár eru liðin 170 ár síðan skipstjórnarkennsla var fyrst kennd á Ísafirði. Að sýningunni stóðu þrjár fræðslustofnanir sem bjóða upp á nám tengt hafinu, sjómennsku og skipstjórn á Ísafirði en það eru Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Menntaskólinn á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða ásamt Byggðasafni Vestfjarða en Kristján G. Jóhannsson átti veg og vanda að texta og upplýsingamiðlun á sýningunni.


Haddi bæjó og Arna bæjó.

Við Axel og Bryndís Ósk, sviðsstórar bæjarins, áttum fund með forsvarmönnum uppbyggingar nemendagarða á Ísafirði, þeim Sirrý á Vestfjarðastofu og Halldóri Halldórssyni sem er alltaf kallaður Haddi bæjó í daglegu tali en hann var um langa tíð bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Í þessu verkefni þurfa allir að leggjast á eitt svo það verði að veruleika. Vonir standa til að platan verði steypt fyrir veturinn og að húsin verði reist á næsta ári.

Bæjarstjórnarfundur var haldinn á fimmtudaginn. Ýmis mál voru til umræðu og afgreiðslu. Við samþykktum nýjar reglur um niðurfellingu gatnagerðargjalda á þeim götum sem eru tilbúnar og bærinn þar ekki að leggja í neinn kostnað við. Það eru þó nokkrar lóðir sem falla undir þessar reglur svo þau sem hafa áhuga á að byggja ættu að kíkja á lista yfir lausar lóðir til að sjá hvaða lóðir þetta eru.
Við samþykktum líka viljayfirlýsingu um uppbyggingu sjóbaðsaðstöðu með heitum pottum og gufubaði á Þingeyri. Virkilega spennandi verkefni. Einnig er annar aðili á Þingeyri sem hyggst byggja upp aðstöðu fyrir sjósport en þessi verkefni styðja svo sannarlega hvort við annað.

Á föstudaginn var haldinn ráðstefna um úrgangsmál og innleiðingu hringrásahagkerfisins í Reykjavík. Ég hlustaði á hana á netinu en við erum að horfa á miklar breytingar á þeim málaflokki og sveitarfélögin ekki tilbúin. Umfangsmiklar lagabreytingar í úrgangsmálum munu taka gildi um næstu áramót og gera má ráð fyrir því að þessi kostnaður eigi eftir að hækka í kjölfarið. Borgað þegar hent er aðferð sem sveitarfélögum ber að innleiða við innheimtu úrgangs en það er mikilvægt skref í innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Fyrsti snjórinn er vetrarins er svo kominn í byggð. Nú er bara að vona að það snjói mest til fjalla svo við getum skíðað en ekki í byggð svo við losnum við snjómoksturinn.